24.03.1943
Efri deild: 80. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (784)

116. mál, húsaleiga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. — Ég veit nú ekki, hvort það er nauðsynlegt að fresta þessari umr. vegna þess, að hv. frsm. allshn. er fjarverandi. En ef ósk kemur frá honum eða hans flokki um það, er sjálfsagt að verða við því. Annars liggur á að fara að afgreiða þetta mál.

Þessi brtt., sem liggur fyrir á þskj. 587, er frá meiri hl. allshn., fjórum nm., 6. þm. Reykv. (BBen), 9. landsk., þm. Str. og mér, öllum nm. nema einum, sem kemur með sérstaka brtt. Þessi brtt. frá meiri hl. n. er í samræmi við brtt., sem borin var fram við 2. umr. málsins af hv. 6. þm. Reykv., og yrði sá munur á l., ef þessi till. væri samþ., frá því, sem ætlazt var til í frv. upphaflega, að framkvæmd þessa ákvæðis 5. gr., heimildarinnar til þess að taka hluta íbúðanna, sem afnotahafar geta án verið, til umráða, er nú ekki lengur í höndum bæjarstjórna, heldur húsaleigun. Þetta er sú aðalbreyt., sem yrði, ef þessi brtt. yrði samþ. Ég tel mikil líkindi til þess, að það sé meiri hl. í d. einmitt fyrir því að fara þessa leið, vegna þess að ýmsir af þeim, sem greiddu atkv. með brtt. hv. þm. S.-Þ. við 2. umr., létu þess getið, að þeir væru á móti þessari heimild, eins og frá henni var gengið í frv. eins og það lá þá fyrir umr., en hins vegar mundu þeir geta fallizt á, að þessi heimild væri til staðar, ef öðruvísi væri frá málinu gengið þannig að framkvæmd hennar væri í höndum annarra aðila. Og þetta var skýrt tekið fram af hv. 6. þm. Reykv.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í almennar umræður um þetta mál, nauðsynina á skömmtun húsnæðis. Það hafa verið haldnar hér við tvær undanfarnar umr. langar ræður á móti því, að þessi heimild yrði veitt, sem hafa verið með slíkum endemum, að mér finnst varla svara vert. Ein aðalröksemd þeirra hv. þm., sem þannig hafa talað í þessu efni, er sú, að hér væri verið að þrengja óviðkomandi fólki upp á húseigendur, sem hefðu stórt húsnæði til umráða, og var farið um þetta ýmsum skáldlegum orðum: — „ef einhver umrenningur væri látinn kannske í rúmið til ekkjunnar“ — og þar fram eftir götum. Ég hirði ekki um að endurtaka það allt. En hver maður, sem las frv. og les þessa brtt., sem hér er fram borin, getur séð, að það er ekki annað en fals og blekking frá upphafi til enda, að hér eigi að fara að þrengja óviðkomandi fólki upp á húseigendur. Það er alls ekki um það að ræða að þrengja óviðkomandi aðilum inn í húsnæði, sem slíkir menn hafa til afnota, sem hér er um getið og er meira en það, sem þeir hafa með að gera sjálfir, án þess að þeir hafi neina íhlutun um það, hverjir það eru, sem inn koma í húsnæðið. Þvert á móti er það tekið fram mjög skýrt, að afnotahafi geti ráðstafað þeim hluta húsnæðisins til handa þeim innanhéraðsmanni, sem hann kýs. T.d., maður í Rvík getur kosið hvaða Reykvíking sem er til þess að taka að sér þetta húsnæði. Og það er alveg nægilegt úr að velja af Reykvíkingum, sem þurfa á húsnæði að halda. — Slíkar blekkingar er ekki hlustandi á og slíkum blekkingum er ekki svarandi.

Um nauðsynina á því, að þessi heimild fáist, þarf ég heldur ekki að fara mörgum orðum. Það veit hver einasti hv. þm., hver hún er. Hver hv. þm. veit, að nauðsynin á því er svo brýn, að ef þessi heimild verður ekki veitt, þá er það vægast sagt hneyksli. Enda vita hv. þm., að bæjarstj. Rvíkur hefur einróma óskað eftir, að þessi heimild verði veitt. Og það mætti furðulegt heita, ef ekki næðist einróma samþykki hér á þingi fyrir því, að bæjarstj. Rvíkur fengi þessa heimild. Það má furðulegt heita, ef nokkur hv. þm. gerist svo djarfur að neita bæjarstj. Rvíkur um þessa heimild, sem hún einróma fer fram á að fá og allir vita, að brýn óhjákvæmileg þörf er fyrir. — Um þetta þarf ekki að ræða meira.

Þá vildi ég aðeins segja það, að allshn. hefur jafnframt því, sem hún tók þetta mál til athugunar, orðið sammála um það, að hún gæti ekki mælt með neinum af þeim brtt., sem fyrir liggja frá einstökum hv. þm. Hins vegar er n. sammála um það, að brtt., sem fyrir liggja frá hæstv. félmrh. á þskj. 535, séu nauðsynlegar og sjálfsagðar.

Það þarf í raun og veru ekki að fara út í þessar brtt., sem hér liggja fyrir frá einstökum hv. þm. Brtt. frá hv. 1. þm. S.-M. (IngP) á þskj. 565 er við brtt. frá sama hv. þm. á þskj. 503, þar sem brtt. 503 er nokkuð milduð, þ.e.a.s. úr henni dregið.

En það, sem gerir með öllu ómögulegt að samþ. till., er, að með því yrði gerð að engu 15. gr. um leigu á húsum, bryggjum o.fl. til línuveiðabáta — í þeim kauptúnum, sem hafa ekki yfir 800 íb., nema þau ákveði sjálf, að l. gildi hjá sér, og með öllu í kauptúnum, sem hafa ekki meira en 300 íbúa. Auk þess væri fleira varhugavert við að samþ. till. eins og hún er fram borin. Þá mundu ákvæði húsaleigul. skyndilega hætta að ná til kauptúna með færri íb. en 800, og það yrði til þess að hækka húsaleigu og auka verðbólguna í landinu. Annað mál væri, ef ákveðið væri, að húsaleigul. giltu í kauptúnum þessum, þangað til hreppsn. eða meirihl. hreppsbúa hefði ákveðið, hvort þau skyldu gilda þar framvegis. Um brtt. á þskj. 532 frá hv. þm. Barð (GJ) þarf ég ekki að ræða frekar en þegar er búið. N. var sammála um að mæla ekki með neinni þeirra. Brtt. á þskj. 604 frá hv. þm. S.-Þ. er efnislega alveg eins og ákvæði laganna. Samkv, þeim er húsaleigun. skylt að veita alþm. undanþágu frá banninu að leigja utanhéraðsmönnum, og sér n. þar ekki ástæðu til að breyta.