17.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Skúli Guðmundsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. 1. kjördeildar gat um, var hreyft athugasemd í kjördeildinni varðandi kjörbréf Gunnars Thoroddsens. Till. kom fram í kjördeildinni um að fresta að taka gilda kosningu hans samkv. 1. gr. þingskapa, svo að þingið gæti aflað sér nánari skýrslna um málið. Atkvgr. í kjördeildinni féll þó þannig, að kjörbréfið skyldi taka gilt. Voru 8 með því, 4 á móti, en 2 sátu hjá. 4 af þeim, sem sæti áttu í kjördeildinni, voru ekki viðstaddir, 3 vegna lasleika og 1 vegna þess, að hann er ókominn til þings.

Í kjördeildinni varð því nokkur ágreiningur. Minni hl. leggur til, að frestað verði að taka þetta kjörbréf gilt, þar sem borizt hafa sögur um allverulegar misfellur á kosningu hlutaðeigandi hv. þm. Ég hef hér í höndum vottorð þessu viðvíkjandi frá manni, sem er vel kunnugur þar í kjördæminu. Ég vil lesa það hér upp með leyfi hæstv. forseta. Vottorðið er svohljóðandi:

„Við síðustu alþingiskosningar varð ég var við eftirfarandi atriði í sambandi við kosninguna í Ólafsvík í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu:

1. Á kosningadaginn átti ég leið til Kristínar Oliversdóttur og átti þá við hana eftirfarandi viðtal. Ég spurði hana, hvort hún ætlaði ekki að kjósa. Sagði hún mér þá. að Vilhelm Steinsen hefði gefið sér 30.04 kr., og beðið sig um að kjósa Gunnar Thoroddsen, og hefði hún lofað því. Þetta sagðist hún ekki geta svíkið, úr því að hún væri búin að taka við peningunum.

2. Kjartan Þorsteinsson í Ólafsvík skýrði mér frá eftirfarandi: Á kjördegi kvaðst hann hafa látið þau orð falla, að hann mundi ekki kjósa fyrr en hann hefði fengið vin. Var þar nærstaddur Vilhelm Steinsen. Kallaði hann þá á Kjartan og bað hann að koma með sér. Fóru þeir svo þangað, sem Steinsen hélt til, og tók bann þar upp fulla flösku af vini. Kvaðst Kjartan hafa sagt honum, að hann mundi ekki kjósa Gunnar Thoroddsen. Sagði Steinsen, að það yrði að hafa það, hann gæfi honum vín fyrir því, þótt það kæmi sér betur að hann kysi Gunnar.

3. Á fulltrúafundi, sem haldinn var í Útgörðum í Ólafsvík, sunnudaginn 11. okt. 1942, lét Elíníus Jónsson, kaupfélagsstjóri, þessi orð falla: „Ef einhver minna flokksmanna veit af einhverju fólki, sem hann vill gleðja núna fyrir kosningarnar, þá má hann vitja um peninga til mín.“

Þessi ummæli hans heyrðu Gunnar Thoroddsen, Sigurður Tómasson, Óskar Clausen, Sveinn Skúlason, Magnús Kristjánsson, Sigþór Pétursson og margir fleiri, ásamt undirrituðum.

4. Nokkru fyrir kosningar var ég staddur í verzl. Kaupfélags Ólafsvíkur. Var þar einnig staddur Elíníus Jónsson, og sagði hann þá eftirfarandi: „Ef Bjarni Bjarnason kemst að við haustkosningarnar, þá geri ég þá kröfu til atvinnumálaráðherra, að hann víki verkstjóra Stefáni Kristjánssyni frá starfi við vegagerð ríkisins, þar sem ég álít ekki rétt, að svo sterkur andstæðingur Sjálfstæðisflokksins og hann er, hafi sterka aðstöðu hér til andstöðu við flokkinn.“

5. Nokkru fyrir kosningar var ég staddur inni á skrifstofu Hraðfrystihúss Ólafsvíkur, ásamt Gunnari Thoroddsen og forstjóra Sigurði Jóhannssyni. Þá gekk þar fram hjá Þórarinn Guðmundsson, og sagði þá Sigurður, að þessi maður hefði alltaf fylgt Sjálfstæðisflokknum, en nú væri einhver óánægja í honum, en það hefði alltaf verið venja fyrir kosningar að rétta honum 50.00 krónur, og væri rétt að Gunnar gerði það líka. Gekk þá Gunnar út úr skrifstofunni og kallaði á Þórarin, átti nokkur orðaskipti við hann og rétti honum 50.00 krónur. Horfði ég á þetta.

Fleira hef ég ekki séð sjálfur, en á kosningadaginn veitti ég því athygli, að ýmsir menn fóru bæði fyrir og eftir að þeir voru búnir að kjósa, inn í skrifstofu hraðfrystihússins, sátu þar nokkra stund og komu svo ölvaðir út. Tveim dögum fyrir kosningar hafði ég einnig veitt því athygli, að Sigurður Jóhannsson hafði fengið kassa með áfengi frá Reykjavík, og munu hafa verið 50–60 flöskur í kassanum, og voru engir verðmiðar á flöskunum. —

Reykjavík, 14. nóv. 1942

Kristján Jensson.“

Minni hluti kjörbréfan. leit svo á, að með þessu vottorði væri fram bornar svo þungar ásakanir í sambandi við þessa kosningu, að óverjandi væri af þinginu annað en fresta að taka kosninguna gilda að svo stöddu, en láta fara fram nú þegar rannsókn í málinu. Það er till. minni hl., að kjörbréf Gunnars Thoroddsens verði ekki tekið gilt að svo stöddu.