09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (940)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Í till. þskj. 705 er farið fram á, að ríkisstj. snúi sér til alþýðufélaganna og þau taki á sig þær fórnir, sem færa þarf til þess að lækka dýrtíðina í landinu. Jafnframt leggi ríkisstjórnin 3 millj. kr. til að stofna atvinnutryggingarsjóð. Gerð er grein fyrir, hversu verja skuli sjóðnum. Hann er myndaður til tryggingar gegn atvinnuleysi. Mér þykir ótrúlegt, að verkamenn gangi inn á það að fórna meiru af kaupi sínu, án þess að tryggt verði, að stofnaður verði sjóður, sem grípa má til, þegar atvinnuleysi kemur. Ég býst ekki við, að verkamenn fari að leggja 12% af mánaðarkaupi sínu til sjóðsstofnunar án tryggingar fyrir nokkru á móti. Það væri eðlilegt, að þeir gerðu það, ef þeir fengju réttindi, sem þeim eru nauðsynleg á móti.

Ég fæ ekki séð gagnsemi till. þskj. 705, ef þær yrðu samþ., en hins vegar eyðileggja þær stefnu, sem er í till. fjhn., en þær eru til þess að gefa ríkisstj. aðstöðu til að vinna bug á dýrtíðinni.

Mér er ekki ljóst, hverjar afleiðingarnar mundu verða. Hins vegar hefði ég gaman að heyra, hvernig ríkisstj. snýr sér gagnvart þeim, og er það undarlegt, ef hún sættir sig betur við þær en till. fjhn.