10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég flyt hér smábrtt. við 7. gr. frv. Það hefur komið fram till. frá sósíalistum, sem mér kom ekki til hugar, að gæti náð samþ. deildarinnar, en samkvæmt henni átti að afnema skattfrelsi samvinnufélaga. Átti ég ekki von á því, að ýmsir, sem greiddu atkv. í gær, greiddu þannig atkv.

Vil ég leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við 7. gr. og vona ég, að hv. d. sjái sér fært að samþ. hana, þar sem eðlilegt virðist, að fé þessu sé varið á þann hátt, sem tekið er fram í till. Mun ég ekki fjölyrða frekar um þessa till. né heldur skattatill. Hún hefur mikið verið rædd hér.

Viðvíkjandi till. hv. 2. þm. Skagf. um, að Búnaðarfélag Íslands væri jafnrétthátt sem samningsaðili fyrir hönd bænda og alþýðusambandið f.h. verkamanna, vil ég benda á, að það er ekki eins alhliða félagsskapur og alþýðusambandið, og mun ég greiða atkv. móti till. Sömuleiðis mun ég greiða atkv. móti till. um verðlag á mjólk.