21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

96. mál, eyðing svartbaks

Bjarni Benediktsson:

Ég verð að benda á, að ekki hefur nema nokkur hluti nm. fjallað um þetta mál, og virðist mér hv. frsm. vera nokkuð bráðlátur um framgang málsins. Hins vegar væri fróðlegt að sjá niðurstöður landbn. og fá að vita, hvort n. hefur borið sig saman við sérfræðinga á þessu sviði um það, hvort þessi mikla fjölgun æðarunga er af þessum ástæðum eða öðrum eða hvort fiskivötn hafa batnað að mun. Síðast liðið sumar var t. d. lítil laxveiði víðs vegar um land. Ef það er rétt, að lögin hafi óholl áhrif á laxagönguna, virðist rétt að leita umsagnar sérfræðinga á þessu sviði, þótt ekki sé alltaf eftir tillögum þeirra farið. Sama gildir og um áhrif laganna á fuglalíf.