25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

27. mál, fjárlög 1944

Stefán Jóh. Stefánsson:

Allir þeir háttvirtu alþingismenn, er tekið hafa þátt í þessum svokölluðu eldhúsumræðum, hafa þó verið ásáttir um eitt — og eiginlega það eitt —, að í íslenzkum stjórnmálum sé nú óvenjulegt ástand og ófremd, er skapað hafi Alþingi álitshnekki. Og þetta er vissulega rétt. En þegar komið er að því að skýra, hvað leitt hafi til þessa ástands og hvaða leiðir séu líklegastar til þess að losna við það, þá kemur í ljós mismunurinn á skýringum og stefnum flokkanna.

Ég mun víkja nokkrum orðum að þessari þungamiðju íslenzkra stjórnmála, eins og sakir standa.

Þegar að er gætt og íhuguð forsaga yfirstandandi tíma, þá ætla ég, að það sé ómótmælanlegt, að afstaða flokkanna til þess ógnar gróða, er borizt hefur íslenzku þjóðinni á stríðstímunum, hafi verið aðalorsökin til þess að skapa það ástand, er nú ríkir.

Á árunum 1940 og 1941 berjast tveir stærstu stjórnmálaflokkar landsins beinlínis fyrir misskiptingu stríðsgróðans. En alþýðan í launastéttum landsins krefst þess þá hins vegar að fá eðlilega hlutdeild með bættum kjörum í þeim geysilega auknu tekjum, er þjóðinni berast. En baráttan fyrir misskiptingunni og til varnar sérréttindunum nær hámarki, er Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkarnir í sameiningu setja gerðardómslögin í ársbyrjun 1942. Það er án efa eitt hið mesta óhappaspor, er stigið hefur verið í íslenzkum stjórnmálum. Með þeim var gerð tilraun til þess að misbeita ríkisvaldinu á hinn ofbeldisfyllsta hátt. Og áhrifin urðu eins og til var stofnað.

Réttmæt andstöðualda alþýðunnar í landinu reis þá hátt gegn óréttlætinu. Aðeins slitur gerðardómslaganna var framkvæmt af höfundum þeirra, og skorti þó ekki í upphafi stór orð og heit forustumanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um röggsamlega og skelegga framkvæmd þeirra. Lögin voru samt sniðgengin og vikið til hliðar í mörgum greinum. En þau voru þó nægileg til þess að halda niðri þeim, sem veikastir voru og höfðu minnst samtök sín á milli, — einmitt þeim, sem mest var þörf bættra kjara og aukins réttlætis.

Loks voru þessi óhappalög afnumin sumarið 1942, er það hafði komið í ljós, að ekki var unnt að framkvæma þau.

En af öllu þessu stafaði hinn mesti glundroði og réttmæt óánægja, eins og öll misbeiting valds og augsýnilegt óréttlæti hlýtur að skapa.

Í gruggugu vatni gerðardómslaganna gátu öfgar og ofstopi kommúnista komið ár sinni fyrir borð. Upplausnin í þjóðfélaginu óx. Annars vegar var ofbeldisfull tilraun auðvaldsflokkanna til þess að viðhaldá sérréttindum sínum og misskiptingu auðsins. Hins vegar var svæsin, ófyrirleitin og öfgakennd múgæsing kommúnista, sem verulega orkaði á uppæsta hugi manna.

Raddir skynsemi og lýðræðislegra aðferða drukknuðu oft í öskrum og æsingi öfganna til beggja handa. Sjálfstfl. og Framsfl. hafði tekizt að skapa hinn mesta glundroða og gefa kommúnistum óvenjulegt tækifæri til þess að tæla fólk til fylgis við sig. Og háttvirtir hlustendur hafa nú hlustað á einkennandi orðbragð kommúnista, eins og það flaut af vörum hv. 2. landsk. Þórodds Guðmundssonar, og málsmeðferð og sannleiksást í ræðu hans voru einnig í fullu samræmi við stefnu flokksins og starfsaðferðir, enda er hv. 2. landsk. (ÞG) einn af mestu ráðamönnum kommúnista og hefur numið fræði sín með þriggja ára dvöl í Rússlandi. Áhrifin af náminu hafa menn heyrt, og þingmenn kannast vel við orðbragðið.

Og afleiðingarnar komu brátt í ljós. Sundruð og sundurtætt þjóð gekk til tveggja kosninga. Kommúnistar juku fylgi sitt stórlega. Alþingi reyndist margskipt og ómegnugt til nýrra úrræða. Verðbólgan flæddi yfir landið. Máttlaus og úrræðalaus minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins barst með straumnum um stund, en hrökklaðist síðan frá við litla sæmd. Tilraunir voru gerðar til þess að mynda nýja meirihlutastjórn, en það reyndist árangurslaust. Einn fimmti hluti Alþingis,. undir stjórn kommúnista, vildi og ætlaði sér ekki að hafa stjórnarsamstarf við aðra flokka. Fjórir fimmtu hlutar þingsins voru skiptir og það svo mjög, að hvorki tókst að mynda íhalds- eða afturhaldsstjórn né stjórn frjálslyndra umbótamanna, er með röggsemi og eftir lýðræðisháttum skapaði réttlæti og jafnvægi í þjóðfélaginu. Þess vegna situr nú að völdum stjórn utanþingsmanna, skipuð af ríkisstjóra og án nokkurs ákveðins fylgis á Alþingi. Þingið er því forustulaust af stjórnarhálfu, og hefur það leitt til margs konar mistaka og því ekki tekizt að skapa neina ákveðna stjórnarstefnu, er skipti þingmönnum og flokkum til athafna og átaka.

Alþýðuflokkurinn hefur, með sinni gömlu og viðteknu lýðræðis- og umbótastefnu, eftir mætti barizt gegn því, að þetta ástand skapaðist. Hann reyndi til lengstra laga að hafa samstarf við aðra flokka um réttlátar umbætur og jöfnun kjara fólksins í landinu. En ævintýrapólitík Sjálfstfl. og Framsfl. við setningu gerðardómslaganna og misskipting auðsins rauf þá samvinnu og kastaði þjóðinni út í það ófremdarástand í stjórnmálum, er nú ríkir.

Ég hef þegar varið nokkru af ræðutíma mínum til þess að gera grein fyrir, af hvaða orsökum það ófremdarástand stafar, er nú ríkir í íslenzkum stjórnmálum. Og þar sem tveir flokksbræður mínir, hv. þingmenn Ísfirðinga og Hafnfirðinga, þeir Finnur Jónsson og Emil Jónsson, hafa þegar rætt rækilega um fjárhags- atvinnu- og dýrtíðarmál, mun ég snúa máli mínu að nokkrum atriðum, er sérstaklega snerta frambúðar stjórnskipulag landsins og á hvern hátt það á að tryggja lýðræði, frelsi, réttlæti og öryggi þegnanna, og loks hvernig er hægt að hrinda því í framkvæmd.

Þessi mál standa nú fyrir dyrum og vissulega tímabært að gera sér grein fyrir afstöðu til þeirra.

Hvenær sem lýðveldisstjórnarskráin verður afgreidd á Alþingi, þá er það víst, að til nákvæmrar athugunar þarf að taka val og valdsvið lýðveldisforsetans.

Það virðist koma betur og betur í ljós, ekki sízt eins og málum er háttað á Alþingi, að það sé hið sjálfsagðasta og eðlilegasta og í beztu samræmi við rétta lýðræðisháttu, að forsetinn sé valinn af öllum kosningabærum mönnum í landinu og það sé einnig tryggt, að hann sé þá ekki óeðlilega háður valdbeitingu Alþingis. Um þetta kunna að verða skiptar skoðanir, en Alþýðuflokkurinn mun leggja áherzlu á það að búa sem bezt og tryggilegast um þennan merkilega þátt í stjórnskipunarlögum landsins og gæta þess um leið, að lýðræðisskipulagið geti öðlazt þá festu og styrkleika, er geri það hæft að festa djúpar og öruggar rætur meðal þjóðarinnar.

En val og valdsvið forsetans er aðeins einn þáttur, þó mikilsverður sé, í stjórnskipunarlögum landsins.

Fyrir dyrum stendur gagngerð endurskoðun á stjórnarskránni, og er það mjög þýðingarmikið atriði í íslenzkum stjórnmálum, að vel, tryggilega og á réttlátan hátt verði búið um stjórnskipunarlög landsins.

Í hinum nýju og endurbættu stjórnskipunarlögum þarf að setja ótvíræð og örugg ákvæði um aukin réttindi allra þegna þjóðfélagsins. Í stjórnarskrá þeirri, sem nú gildir, er svo fyrir mælt, að sá skuli eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem ekki sé fær um að sjá fyrir sér og sínum. Í nýrri og endurbættri stjórnarskrá þarf einnig að tryggja öllum vinnufærum mönnum rétt til atvinnu, aukins félagslegs öryggis, nauðsynlegrar almennrar menntunar og jafnra áhrifa á meðferð og stjórn þjóðfélagsmálefna.

Þessi atriði, ásamt öðrum og fleiri, þarf að festa í stjórnskipulögum landsins sem umgerð lýðræðisskipulagsins, er þarf að reisa á styrkum grundvelli. Og einmitt til eflingar lýðveldisskipulaginu og til varnar gegn hvers konar árásum og ofbeldi einræðisstefna þarf stjórnarskráin að hafa að geyma örugg ákvæði.

Lýðræðið og frelsið eru fjöregg, sem íslenzka þjóðin þarf að meta og varðveita. Tilvist sína og heiður sem menningarþjóð á hún ekki hvað sízt undir því, að þess sé vandlega gætt. Ástandið í íslenzkum stjórnmálum gefur sérstakt tilefni til þess, að lýðræðisskipulagið í öllum stjórnarháttum verði verndað og aukið. En til þess að það megi verða, þarf einnig að skapa félagslegt öryggi allra þegna þjóðfélagsins og tryggja öllum almenningi nægilega atvinnu og nauðsynlega menntun.

Heimsstyrjöld sú, er nú geisar, og rannsóknir þær, sem gerðar hafa verið um atvinnuskipulag að stríði loknu, hafa fyllilega leitt í ljós, að það er hægt að útrýma atvinnuleysinu með öllu, ef vilji og skilningur stjórnarvaldanna er fyrir hendi. Og krafa og takmark íslenzkrar alþýðu hlýtur óhjákvæmilega að vera, að eftir stríðið megi ekkert atvinnuleysi vera.

Fyrir þessum stórfelldu umbótum vill Alþýðuflokkurinn berjast í samræmi við stefnu sína og viðteknar starfsaðferðir.

En þá mætti spyrja, hvaða leiðir væru líklegastar til þess að hrinda þessum málefnum í framkvæmd. Auðvitað er greiðasta og bezta leiðin til þess að styrkja og efla Alþýðuflokkinn.

En á næstu tímum má búast við, að til framkvæmdanna þurfi samstarf flokka og stétta.

Alþýðuflokkinn skipa fyrst og fremst verkamenn, sjómenn og menntamenn, sem aðsetur hafa aðallega í bæjum landsins og við sjávarsíðuna. En mikill hluti þessa fólks er kominn úr sveitum landsins, ýmist fyrir skömmu eða löngum tíma síðan. Það hefur því fullan skilning og samúð með störfum og lífsbaráttu íslenzkra bænda og sveitafólks. Og Alþýðuflokkurinn hefur alltaf, af sinni hálfu, viljað auka samstarf bænda og launafólksins við sjávarsíðuna, svo mjög sem áhugamál þeirra geta fallið saman, ef að er gáð. Flokkurinn hefur því gert tilraunir hvað eftir annað til þess, að bændur og alþýðan við sjóinn hafi með sér samstarf, miklu réttlátara og eðlilegra en það, sem hv. 5. þm. Reykv., Brynjólfur Bjarnason, var að dásama í sambandi við ákvarðanir sex-manna-nefndarinnar, sem hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, hefur og réttilega skýrt og rakið. Með mjólkurskipulaginu var það yfirlýst ætlun Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins, að ávinningur sá, er af skipulaginu fengist, gengi bæði til bænda og neytenda, þannig að hverjir tveir aurar, er spöruðust við bætt skipulag, skiptust jafnt á milli neytenda og bænda. Og það var ekki sök Alþýðuflokksins, þó að úr því yrði ekki. Ofstopi og yfirráð Framsóknarflokksins spilltu þar góðu máli. Og í gengislögunum frá 1939 voru kjör bænda og launastétta samofin og réttlátt hlutfall skapað þeirra á milli. En eins og hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, hefur rækilega lýst, var það samkomulag algerlega rofið og að engu gert af Framsóknarflokknum.

En allar slíkar tilraunir til samstarfs bænda og launastétta hefur verið reynt að tortryggja af hálfu kommúnista, og eiga þeir, ásamt Framsóknarflokknum, sína sök á því, hvernig farið hefur.

En þrátt fyrir allt þetta vill Alþýðuflokkurinn enn sem fyrr benda á, hve nauðsynlegt og eðlilegt geti verið samstarf bænda og verkamanna til sameiginlegra átaka um bætt kjör íslenzkrar alþýðu, aukna menningu hennar, viðhald og eflingu lýðræðisskipulagsins og sjálfstæðis þjóðarinnar. En til þess að svo megi verða, þurfa stjórnmálaerindrekar bænda að breyta til, hverfa frá íhaldssamri og þröngsýnni stórbændapólitík og auka skilning sinn og stuðning við áhugamál alþýðunnar við sjávarsíðuna. Og til þess þurfa launastéttirnar einnig að snúa baki við einræðis- og ofstopakenningum kommúnista og losa sig úr læðingsfjötrum Sjálfstæðisflokksins, sem stjórnað er af höfuðauðhringum landsins.

Með því móti væri hægt að mynda eðlilegt og traust samstarf alþýðunnar í landinu til sköpunar nýs og betra þjóðfélags, eftir leiðum lýðræðis og þingræðis, til öryggis og hagsmuna fyrir íslenzku þjóðina.

Að þessu vill Alþýðuflokkurinn vinna.