29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, hversu ágætum undirtektum þetta frv. hefur sætt hjá þessari d. og sömuleiðis Ed. Mér virðist, að allir hv. þm. séu á einu máli um það, að frv. þetta beri nú að afgreiða sem l. frá Alþ., og virðist málið hafa verið ágreiningslaust að mestu. Þó hafa komið fram við meðferð málsins nokkrar breyt. varðandi 2. gr. frv., en hún fjallar, eins og kunnugt er, um það, hvernig stjórn hælisins skuli skipuð. Ég gat því miður ekki verið viðstaddur 2. umr. málsins sökum lasleika, en hefði kosið að geta gert grein fyrir sjónarmiði mínu í sambandi við þessa gr. og ætla því nú að nota tækifærið til þess.

Í fyrsta lagi vil ég segja það með almennum orðum, að ég hygg, að árangur af starfi því, sem unnið er í sambandi við heilsuhæli fyrir drykkjumenn, sé að miklu leyti kominn undir því, að þar sé hugsað fyrir hverjum einstökum manni af góðvild og fullum skilningi. Mín skoðun er því sú, að þetta starf nái ekki tilgangi sínum, nema einhver ákveðinn aðili kynni sér nákvæmlega heimilisástæður hvers þess manns, sem á hælið fer. Síðan ber þessum sama aðila að kynnast hugsunarhætti þeirra og reyna að glæða áhugamál þeirra, ef einhver eru, svo að það geti orðið þeim til sjálfsbjargar og sjálfsvirðingar. Þegar hælisvist er svo lokið, er afar nauðsynlegt, að þessi sami aðili greiði veg þeirra manna, sem þaðan koma; útvegi þeim atvinnu, forði þeim frá slæmum félagsskap og reyni að stuðla að því, að þessir menn lifi við þau skilyrði, að þeir geti fengið fulla bót og fulla uppreisn æru sinnar.

Nú er þetta mál þannig, að þau störf, sem hér um ræðir, verða ekki aurum keypt, en aðeins lögð fram af sérstökum áhugamönnum, þeim mönnum, sem af einhverjum ástæðum hafa fengið sérstakan áhuga á því að vinna gegn þessari þjóðfélagsmeinsemd. En svo vill nú til, að sá hópur manna, sem hefur áhuga á því að vinna móti þessu meini, hefur safnað sér saman í skipulagða félagsheild, og er þennan hóp að finna meðal templara. Ég vil þó að vísu taka fram, að fyrir utan þennan hóp getur verið hægt að finna forustumenn, sem einnig eru fullir skilnings og áhuga á þessu málefni, en flesta áhugamenn mun þó vera að finna meðal templara.

Eins og þetta frv. var fyrst lagt fram fyrir Ed., voru engin ákvæði um það, hvernig þessari stofnun skyldi stjórnað, en í 2. gr. frv. stendur innan sviga:

„Heimilt er ráðherra að semja við stórstúku Íslands um, að sérstök stjórnarnefnd, er stórstúkan velji og starfi endurgjaldslaust, skuli undir yfirstjórn ráðherra hafa eftirlit með rekstri hælisins.“

Félmn. Ed. varð sammála um að gera breyt. á þessu, þannig að sérstök stjórnarnefnd, er skipuð væri þrem mönnum, skyldi tilnefnd af stórstúku Íslands til þess að hafa með höndum rekstur hælisins. Ég hygg, að bak við þessa till. hafi legið sami skilningur, sem ég hef nú lýst. Það kom þó fram við meðferð málsins í Ed., sem ég tel næsta eðlilegt, — að það þætti ekki viðfelldið, að stofnun, sem rekin er af ríkinu, væri undir stjórn, sem ríkisstj. hefði enga íhlutun um, hvernig skipuð væri.

Þá bar hv. þm. Dal. fram þá brtt., að stjórnin skyldi sem áður skipuð þrem mönnum, en þar af skyldu tveir tilnefndir af stórstúku Íslands, en einn skyldi skipaður af ráðherra, og skyldi hann vera formaður n. Í þessari mynd kom frv. til Nd., og virtist þá þeim tveim eðlilegu sjónarmiðum að nokkru leyti borgið, að tryggð væru störf áhugamanna í stjórninni og að hæstv. ríkisstj. hefði þar réttmæta íhlutun. Það var því í þessari mynd, sem frv. kom til 2. umr. í Nd., en þá bar hv. þm. Ísaf. fram skriflega brtt., sem gekk í þá átt, að stjórnin skyldi öll skipuð af ráðh., en áður átti ríkisstj. aðeins að skipa einn samkvæmt till hv. þm. Dal. Samkvæmt till. hv. þm. Ísaf. skyldi þó einn af þessum þrem vera valinn eftir tilnefningu stórstúku Íslands. Með þessu er frv. komið í það horf, að engin trygging er fyrir því, að áhugamenn, sem vilja starfa fyrir þetta hæli, skipi meiri hluta stjórnarinnar. Ég vil þó ekki halda því fram, að það gæti ekki vel svo farið, að í stjórnina yrðu valdir áhugamenn, en engin trygging er fyrir því.

Mér finnst hins vegar, að það væri skynsamlegasta afgreiðslan á þessu máli að halda þeirri tryggingu, sem áður var fengin samkvæmt till. hv. þm. Dal., að áhugamenn skipi meiri hluta stjórnarinnar. Ég álít þó eðlilegt, eins og hv. þm. Ísaf. lagði til, að hæstv. ríkisstj. skipi alla stjórnarn., en að tveir skuli tilnefndir af stórstúku Íslands í staðinn fyrir einn, eins og hann lagði til.

Öðru atriði tel ég æskilegt, að breytt yrði í sambandi við þessa gr. eða kæmi til viðbótar við hana. Á ég þar við, að tekið sé fram, að stjórnarn. skuli starfa kauplaust. Það er nú einu sinni mín skoðun, að þau störf, sem unnin eru án endurgjalds, séu rækt af meiri alúð en þau, sem eru fyrir fé keypt, og skýringin á því er auðvitað sú, að til hinna ólaunuðu starfa veljast eingöngu áhugamenn, en þegar farið er að gjalda stórfé, getur svo farið, að önnur sjónarmið komi til greina en málefnið sjálft, og vilji menn þá reyna að „pota“ sér inn í störfin.

Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við 2. gr. frv. og vænti þess, að hv. dm. muni hugleiða þær röksemdir, sem ég hef hér fært fram í þessu máli. Brtt. mínar eru þær, að við niðurlag 2. gr. komi í stað orðanna „skal annar þeirra valinn“ komi: „skulu meðstjórnendur valdir“. Breyt. er aðeins sú, að í staðinn fyrir, að annar skuli valinn eftir tilnefningu stór stúkunnar, skulu báðir tilnefndir af henni. Enn fremur legg ég til, að bætt verði við sömu gr.: „Stjórnarn. skal starfa kauplaust.“

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta mál, og finnst mér ekki ástæða til að hefja um þetta neinar deilur, þar sem ekki er svo langt á milli sjónarmiða, og með leyfi forseta vil ég svo bera fram þessa skrifl. brtt.