10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1355)

150. mál, hafnarlög fyrir Keflavík

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þetta frv. um breyt. á hafnarl. Keflavíkur frá síðasta þingi. Þá var áætlað, að mannvirki við höfnina kostaði 1200 þús. kr. Þeirri framkvæmd er nú mjög langt komið, og hefur allt gengið nokkurn veginn eftir því, sem menn gerðu ráð fyrir. Mannvirkið er fyrst og fremst skjólgarður við höfnina. Þegar hann er kominn, hafa menn þar syðra séð enn betur en áður nauðsynina að byggja bryggjur í skjóli við hann. Mér var því falið að beitast fyrir breyt. þessari á hafnarl. um að hækka áætluð framlög um ½ milljón upp í 1700 þús. kr. í þessu skyni. Ég hef í frv. fylgt venjulegum reglum um framlög, þannig að 2/5 fjárins séu ríkisframlag, 2/5 hluta aflað með ríkisábyrgð, en 1/5 hluti lagður fram án ríkisábyrgðar. Áætlun um kostnaðinn hefur vitamálastjóri látið gera, að vísu bráðabirgðaáætlun, en þó líklegt, að hún fari nærri lagi. Henni hefur verið flýtt eftir föngum, en frv. þetta gat ekki komið fyrr fram á þinginu en henni væri lokið. Vona ég, að þm. láti frv. ekki gjalda þess, þótt áliðið sé þings. Nauðsynin er mikil, að það gangi fram, svo að framkvæmdir þurfi ekki að stöðvast. Eftir umr. á síðasta þingi er málið ljóst flestum og kunnugleiki þm. á þörfunum á þessu svæði aflar því fylgis. Ég óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.