08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

27. mál, fjárlög 1944

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Við 2. umr. fjárl. flutti ég hér tvær brtt. um ofurlítið hækkað framlag til tveggja vegakafla, og voru þær brtt. undir IV. lið á þskj. 331. Og ég vil nú leyfa mér að taka nú þessar till. upp við 3. umr. og vænti þess, að hæstv. forseti taki það til greina, þegar til atkvgr. kemur.

Ég hef til viðbótar leyft mér að flytja hér aðeins tvær brtt. við þessa 3. umr. fjárl., og eru þær á þskj. 517. Í fyrsta lagi um, að framlag ríkisins til viðbyggingar sjúkrahússins á Akureyri verði hækkað úr 200 þús. kr., sem samþ. var við 2. umr., upp í 300 þús. kr. Ég þarf ekki að eyða neinum tíma til þess að ræða um nauðsyn þeirrar byggingar, sem þarna er um að ræða. Það var gert við 2. umr. fjárl. Og ég býst við, að hv. þm. sé svo kunnugt um þá nauðsyn, sem þar er fyrir hendi, að ekki sé sérstök þörf á að fjölyrða um það. En við 2. umr. fjárl. voru greidd atkv. hér um 500 þús. kr. framlag til þessarar byggingar. Sú till. var felld með tiltölulega litlum atkvæðamun. Og mér sýndist því ástæða til við 3. umr. að fara nokkra millileið milli þess, sem þá var samþ., og þess, sem ég hafði óskað, að lagt væri fram í þessu skyni, og ber ég því nú fram brtt. um 300 þús. kr. framlag til þessa. Ég vænti þess, að þeir hv. þm., sem greiddu atkv. með hærra framlaginu við 2. umr., muni nú greiða atkv. með þessari till., og ég vona, að nógu margir hv. þm. í viðbót fáist til þess að vera með þessari málamiðlun, þannig að þessi brtt. mín fáist samþ.

Þá hef ég enn fremur leyft mér að flytja á sama þskj., nr. 517, till. um það, að tekinn verði upp á heimildargrein fjárl., 22. gr., nýr liður um það „að greiða Eberharð Jónssyni, Laxagötu 3, Akureyri, dýrtíðaruppbót eftir vísitölu í maí 1943 á vangreidd vinnulaun hans úr ríkissjóði, kr. 886,20, samkvæmt dómi hæstaréttar, uppkveðnum 12. maí 1943.“ Eins og tekið er fram í till. hefur hann fengið kröfu um þetta viðurkennda með hæstaréttardómi. Þetta mál er þannig til komið, að Eberharð Jónsson var starfsmaður ríkisins sem bifreiðaeftirlitsmaður á Akureyri um nokkurt skeið, en lét af því starfi fyrir nokkrum árum. Það varð nokkurt ágreiningsmál milli hans og bæjarfógetans á Akureyri sem umboðsmanns ríkisvaldsins um lokalaunagreiðslu til hans fyrir þetta starf. Lenti svo í málaferlum út af því. Um áramótin 1936 og 1937 lét hann af þessu starfi sínu. En það var fyrst haustið 1940, þegar hann var orðinn vonlaus um að fá þetta greitt á annan veg, að hann fór í mál til þess að fá þessa kröfu viðurkennda. Þetta mál var rekið fyrir undirrétti 1940, en var þá vísað frá vegna þess, að talið var, að málið væri ekki rétt höfðað. Þeirri niðurstöðu bæjarþingsins var svo skotið til hæstaréttar. Hæstiréttur ómerkti svo þessa frávísun haustið 1941. Síðan er málið ítrekað flutt fyrir undirrétti á Akureyri á árinu 1942, og er þá krafa þessa manns um launagreiðsluna tekin að nokkru leyti til greina, en ekki að öllu leyti, þannig að hann áfrýjaði henni til hæstaréttar. Og með dómi hæstaréttar 12. maí s. l. er að fullu viðurkennd þessi krafa Eberharðs. Með því er því slegið föstu, að um öll þessi ár, sem eru liðin síðan þessi maður lét af störfum þessum, eða um 6 ára bil, þá hefur verið haldið ranglega fyrir þessum manni fé, sem hann átti að fá greitt úr ríkissjóði. Nú nær hæstaréttardómurinn aðeins til þess að viðurkenna aðeins þessa grunnkröfu mannsins um það, að hann fái þessar 886 kr. og 20 aura, sem hann átti vangreitt af vinnulaunum sínum hjá ríkinu. Og vegna alls þessa málarekstrar, sem hann hefur átt í út af þessu, er svo komið, þegar hann á kost á því að fá þessi vinnulaun greidd, að þá eru þau orðin mjög miklum mun verðminni heldur en þau hefðu verið á þeim tíma, sem hann átti að réttu lagi að fá þau. Hann fór þess vegna fram á það við fjármálaráðuneytið, að honum yrði greidd dýrtíðaruppbót á þessa dómkröfu sína. Ráðuneytið mun hafa svarað því, að það gæti ekki orðið við þessari beiðni hans vegna þess, að það skorti heimild til þess í fjárl. Þess vegna sneri Eberharð sér til fjvn., skrifaði henni bréf um málið og óskaði eftir því, að hún tæki í till. sínar við heimildagr. fjárl. till. um heimild til þess að greiða dýrtíðaruppbót á þessa dómkröfu hans. Meiri hl. hv. fjvn. hefur ekki séð sér fært að verða við þessari beiðni Eberharðs, og hefur þess vegna ekki gert till. um neina heimild til þessarar greiðslu á dýrtíðaruppbót. Þó virðist mér hér vera fyllsta réttlætismál á ferð, þannig að ástæða hefði verið fyrir fjvn. að leggja til, að þessi maður, þegar hann loksins fær viðurkennt, að hann hafi átt kröfu á þessu kaupi, þegar hann lét af störfum, fái greiðsluna nokkurn veginn í réttu hlutfalli við það, sem átti að vera, þegar hann lét af störfum og átti að fá laun sín greidd að fullu. Ég hef því leyft mér að leggja til, að tekin verði upp á 22. gr., heimildagr. fjárl., heimild til þess, að þessi dómkrafa verði greidd með dýrtíðaruppbót samkvæmt vísitölu í maí 1943, þegar dómurinn var kveðinn upp til staðfestingar á því, að krafan væri réttmæt. Mér finnst, sannast að segja, að þessi viðkomandi maður hafi orðið nægilega hart fyrir barðinu á ríkisvaldinu hvað þetta snertir, með því að þurfa að bíða allan þennan tíma eftir að fá greidda vinnulaunaupphæð sína, og að það sé, vægast sagt, mjög óviðeigandi, að ekki sé gert það, sem sanngjarnt megi teljast, til þess að bæta honum skaða þann, sem hann hefur orðið fyrir af þessum sökum. Og mér finnst sanngjarnasta leiðin til þess vera sú, sem hann hefur farið fram á, og þessa till. mína hef ég þess vegna miðað við það. Sú upphæð, sem hér er um að ræða, er svo lítil, að hún munar ríkissjóð svo sem engu til eða frá. Hins vegar munar þennan fátæka mann nokkuð um þessa upphæð. Vona ég þess vegna, að hv. þm. fallist á að samþ. þessa litlu brtt.