08.12.1943
Sameinað þing: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

27. mál, fjárlög 1944

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. Ég er hér meðflm. að nokkrum brtt., og mun ég ekki ræða um þær, af því að aðalflm. gera það væntanlega. En ég er aðalflm. að tveimur brtt., og um þær ætla ég að fara nokkrum orðum.

Sú fyrri er á þskj. 517, XXXII, við 15. gr. B. IV. 6., að þar komi nýr liður um framlag til úrkomumælinga á hálendi Íslands og áhaldakaup í því skyni, 25 þús. kr. Og varatill. er þar um 15 þús. kr. framlag til þessa. Það hafa orðið mistök með orðalagið á þessari till. á þskj. 517, en það er leiðrétt á þskj. 605, V. Og enn fremur er á þskj. 517, XXXII brtt. við sömu gr. B. VII, um að þar komi nýr liður um framlag til vatnsmælinga á fallvötnum, 60 þús. kr., en til vara 30 þús. kr.

Þegar okkar verkfræðingum er falið að gera áætlanir um virkjanir, þá er það segin saga, að undirbúningurinn, sem þyrfti að gera í því efni, er sjaldnast nægur og einkum í því efni, að ekki er vitað um vatnsmagn fallvatnanna, sem virkja á. Þetta er ekki vansalaust fyrir okkur. Allar nágrannaþjóðir vorar hafa fyrir löngu tekið þann hátt upp að mæla fallvötn sín. T. d. í Noregi hafa reglulegar vatnsmælingar verið hafðar í flestum ám, sem til mála kemur að virkja, um 50 til 60 ára bil og í sumum um enn lengri tíma. Og svo er víðast annars staðar, jafnvel í Danmörku, þar sem lítið vatnsafl er, þar hafa þó þessar mælingar verið gerðar.

Því verður ekki neitað, að mikillar raforku er þörf hér eins og annars staðar, og háværar kröfur um virkjanir eru nú á döfinni. Það segir sig því sjálft, að það er okkur nauðsyn að taka upp þennan mjög svo nauðsynlega undirbúning undir virkjanir. Því að það er ekki lengi að borga sig, ef hægt er að segja um það fyrirfram, hve mikið er hægt að virkja í hverri á fyrir sig, en þurfa ekki, eins og nú er, að byggja það á tómum ágizkunum. Við höfum oftast ekki á öðru að byggja um þetta en úrkomumælingum herforingjaráðsins og svo ágizkunum út frá því um það vatnsmagn, sem í á hverri rennur til sjávar.

Ég hef hér í fyrri liðnum farið fram á, að teknar verði upp úrkomumælingar á hálendi Íslands, sem yrðu væntanlega gerðar undir umsjón forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins í samráði við veðurstofuna.

Við 2. umr. hugkvæmdist mér að flytja þessa brtt. og fór þess á leit við meðflm. mína að brtt., sem eru meðnefndarmenn mínir í milliþingan. í raforkumálum, að flytja þessa till., en þótti þá réttara að láta hana bíða til 3. umr. og láta athuga hana í fjvn. á milli umr. En það fórst fyrir, að fundur væri haldinn í fjvn. Kom því till. ekki þar til umr. Hún var því ekki rædd í hv. fjvn., en kemur nú hingað án þess. En ég átti tal við forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins og forstjóra veðurstofunnar, og upphæðirnar eru ákveðnar í samráði við þá. Hv. meðflm. mínum þóttu þó þessar upphæðir of háar og þótti líklegra til frángangs brtt. að setja varatill., og féllst ég á það, til þess þó að fá eitthvað fram í þessu efni. — Ég skal geta þess, að liðinn 60 þús. kr. til vatnsmælinga í fallvötnum áætlaði ég í samráði við forstjóra rafmagnseftirlits ríkisins, sem gert er ráð fyrir, að sé kaup handa einum manni til þess að setja mælingaútbúnað í ár, sem eru á annað hundrað.

Ég vænti, að þetta nægi til þess að sýna hæstv. Alþ., að nauðsynlegt sé að samþ. þessar brtt.

Á þskj. 605 flyt ég ásamt hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. A.-Sk. brtt. undir lið nr. I, um framlag til rekstrar fávitahælis, 100 þús. kr. og til vara 70 þús. kr. Ég flutti á síðasta þingi till., sem fóru í sömu átt, en voru miklu hærri, því að þá þurfti að gera ráð fyrir, að byggja þyrfti þetta hæli. Nú er fram komið nokkuð annað viðhorf, með því að það mun ráðið, eftir því sem mér er tjáð, að Kleppjárnsreykjahúsið, sem hefur verið notað fyrir hæli fyrir ungmenni á glapstigum, — en það hæli hefur verið lagt niður, — muni eiga að taka fyrir fávitahæli. Þarf því ekki að leggja fram annað nú til fávitahælis en rekstrarkostnað. Lög um fávitahæli voru sett hér á Alþ. árið 1936 fyrir forgöngu Guðrúnar Lárusdóttur alþm. En þar er svo ákveðið, að þegar fé verði veitt til þess í fjárl., þá sjái ríkisstjórnin um, að þetta hæli fyrir fávita og vanvita verði sett á stofn. Þegar þessi 1. eru sett, þá telur flm. frv. til þeirra l., að þá séu um 200 fávitar á landinu, en þá var hæli fyrir 25 þeirra, og þetta hæli var einkaeign. Nú er talið, eftir þessi ár, að fávitar utan Reykjavíkur séu hátt á annað hundrað, sem þarfnist hælisvistar, en í Reykjavík a. m. k. 100. En aðstæður eru enn óbreyttar um hælisvist handa þessu fólki, hæli er til fyrir 25 til 30 fávita, sem er rekið í einkaeign. Það ætti því sízt að vera þörf á að brýna það fyrir hv. alþm., hve þarft þetta mál er. En þó hefur þessi seinagangur verið hafður á þessu máli, að ekkert hefur verið gert í því. Enn eru fávitarnir svo hundruðum skiptir hælislausir, illa hirtir margir hverjir, sjálfum sér og öðrum til leiðinda, ættingjum sínum til armæðu og þjóðfélaginu til skammar. Ég vænti því, að þessi brtt. verði samþ.