18.10.1943
Efri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

28. mál, kynnisferðir sveitafólks

Frsm. minni hl. (Eiríkur Einarsson) :

Ég ætla ekki að segja margt, en að gefnu tilefni frá tveimur hv. þm., sem hér hafa talað, stend ég á fætur.

Hv. frsm. meiri hl. landbn. var að tala um þennan tón, sem kvæði við, að alltaf væri verið að betla fyrir bændur.

Nú á víst að kveða við annan tón. Hinn hv. þm. gerir það og gerir það ekki.

Greiðslurnar koma misjafnt niður á héruð, og eins og kom fram af tilviljun hjá frsm. meiri hl. landbn., er gert ráð fyrir, að þær verði ekki stórar í kjördæmi hv. þm. Barð.

En þegar málið skýrist í því horfi, sem það nú er í, án þess að ég segi, hvor þessara hv. þm. hefur réttara fyrir sér, — þá sést, að þetta gjald, sem nú er áætlað að sé upp undir 200 þús. kr., er ekki svo smávægilegt. Frá sjónarmiði bænda finnst mér sanngjarnt, að þeir fái að segja, hvað þeir vilja, — fólkið, sem féð á að greiða, þarf fyrir fram, en ekki eftir á að vita, að það á að greiða það.