06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti: Ég er sammála hæstv. utanrrh. um það, að fulltrúi Íslands á svona ráðstefnum eigi að ráðfæra sig við ríkisstj. um þá afstöðu, sem þeir taka. En hæstv. ráðh. vildi í sambandi við þetta vekja eftirtekt á því, að það mundi kannske ekki alltaf vera tími til þess að koma slíku við. En þetta mál mun vera það af öllum þeim málum, sem á þessari ráðstefnu voru rædd, sem var sérstaklega mikið rætt, bæði í undirnefndum og aðalnefndum, og um þetta mál voru þær heitustu og skörpustu umr. á ráðstefnunni og þar sem mest mun hafa skorizt í odda. Þess vegna hefur fulltrúi okkar á ráðstefnunni haft nægilegan tíma til þess að kynna ríkisstj. þetta mál alveg eins og við vitum báðir, að hann hefur haft tíma til að kynna henni önnur mál, sem þarna hafa verið rædd. Það er því ekki afsökun fyrir hann, ef hann hefur látið undir höfuð leggjast að leita álits ríkisstj. sérstaklega, þegar um þetta viðkvæma deilumál var að ræða. Um það, hvaða áhrif þetta hefur út á við og hvernig þetta lítur út gagnvart öðrum þjóðum, er það að segja, að þetta hefur verið sérstaklega símað út um heim um afstöðu Íslands í þessu máli. Þó að önnur ríki séu talin upp sem heildir, þá er í þeim fréttum nafn Íslands alveg sérstaklega nefnt út af fyrir sig, vegna þess að þar er haft vakandi auga á því, hver okkar afstaða sé, þegar við byrjum að koma fram á almennum vettvangi.