15.12.1943
Neðri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég vildi með leyfi forseta bera hér fram fyrirspurn til ríkisstj. viðvíkjandi sölu á áfengi.

1. Telur hæstv. ríkisstjórn, að lög nr. 33 frá 9. jan. 1935 brjóti í bága við milliríkjasamninga? Ef svo er, hvaða samningar eru það og hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert til þess að fullnægja ákvæðum 2. gr. téðra laga?

2. Hvaða reglur gilda nú um sölu áfengis, er hinar eiginlegu útsölur eru lokaðar, og hvaða stoð eiga þær reglur sér í lögum?

Sagt er, að mikil sala áfengis eigi sér stað um þessar mundir. Mér er ekki kunnugt, hve mikil hún er, nema hvað ég sé, að fyrir framan hús eitt í Lindargötu stendur einatt mannfjöldi á vissum tímum dags. Virðist það vera morgunverk lögreglunnar að annast þar reglu og kvöldverk hennar að veita hinu sama fólki húsnæði á Skólavörðustíg. Annars vildi ég stinga upp á, hvort ekki mundi heppilegt að ætla slíkum fyrirspurnum sérstakan tíma í þingsköpum og hátta því svo, að stjórnin hefði undirbúningstíma til andsvara.