27.09.1943
Neðri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í C-deild Alþingistíðinda. (1853)

70. mál, kvikmyndasýningar

Flm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Frv. það, sem ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Reykv. (StJSt), er fram komið vegna samþykktar, sem gerð var í bæjarstjórn Reykjavíkur 4. febr. þ. á., sem ég vil leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Bæjarstjórn samþykkir að taka í sínar hendur rekstur kvikmyndahúsanna Gamla Bíó og Nýja Bíó hér í bænum og felur borgarstjóra og bæjarráði að leita samninga við núverandi eigendur kvikmyndahúsanna um kaup á þeim. Náist ekki viðunandi samkomulag um þetta efni, felur bæjarstjórn borgarstjóra að fá lagaheimild til eignarnáms á næsta Alþingi.“

Það er skemmst frá að segja, að þess samkomulags, sem um getur í samþykktinni, var leitað, en án árangurs. Og málum er því svo komið í þessu efni, að við, þessir tveir þm. Reykv., teljum bæði rétt og skylt að verða við áskorun bæjarstjórnar um að flytja hér á Alþ. frv. þetta til 1. til þess að gera bæjarstjórn kleift að framfylgja þessum yfirlýsta vilja sínum að taka rekstur kvikmyndahúsanna í sínar hendur. Að sjálfsögðu þótti okkur ekki rétt að takmarka þessa heimild við þau tvö helztu kvikmyndahús, sem eru hér í bænum, og þess vegna fannst okkur rétt, að þessi heimild yrði almenn og ekki aðeins fyrir Reykjavík, heldur líka önnur bæjarfélög og sveitarfélög. Og þótti okkur það því fremur rétt, þar sem frá Siglufirði hafa legið fyrir óskir um það fyrir skemmstu, að bæjarstjórnin þar mætti taka rekstur kvikmyndahússins þar í sínar hendur. En þegar farið var að ræða þetta mál, þótti rétt að setja nokkuð ákveðnari ákvæði um rekstur kvikmyndahúsa. Í l. er ekkert um það, hver veiti heimild til rekstrar kvikmyndahúsa, og mætti ætla, að hverjum einstaklingi væri frjálst að reka kvikmyndahús án þess að sækja um leyfi til þess. Þó hefur það verið í lögreglusamþykkt Reykjavíkur, að bæjarstjórn Reykjavíkur veiti heimild til kvikmyndahúsrekstrar innan síns lögsagnarumdæmis. Og sams konar ákvæði eru í lögreglusamþykktum fleiri bæja. Þessar samþykktir hafa fengið stjórnarráðssamþykki, og samkvæmt þeim hefur verið álitið, að engum væri heimilt að reka kvikmyndahús í viðkomandi bæjum nema með leyfi bæjarstjórnar. Og sú venja er á landinu yfirleitt, að sjálfsagt þykir að fá leyfi bæjar- og sveitarstj. til kvikmyndahúsrekstrar. En okkur flm. finnst sjálfsagt, að þetta sé bundið með l. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur lagt sætagjöld á kvikmyndahúsin, og þessi gjöld hafa verið greidd. En eigendur kvikmyndahúsanna hafa véfengt þennan rétt. Og því ber ekki að neita, að það getur orkað nokkuð tvímælis, eins og sakir standa, um leyfi til kvikmyndahúsrekstrar. Aftur á móti, ef frv. á þskj. 88 yrði að l., þá yrðu það bæjarstjórnir og hreppsnefndir, sem veittu þessi leyfi, og þá með þeim skilyrðum, sem þeim þættu eðlileg á hverjum tíma.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær almennu ástæður, sem mæla með því, að kvikmyndahús séu rekin af bæjar- og sveitarfélögum. Það getur verið mikið deilumál, enda er þetta frv. aðeins frv. að heimildarl., sem er fram borið samkvæmt því, sem ég tók fram, samkvæmt óskum bæjarstjórnar Reykjavíkur, og má segja líka að ósk bæjarstjórnar Siglufjarðarkaupstaðar.

Óska ég, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og félmn.