17.11.1943
Neðri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1893)

70. mál, kvikmyndasýningar

Eysteinn Jónsson:

Ég tel æskilegt, að bæjar- og sveitarfélög reki yfirleitt kvikmyndahús. Ég vil því, þegar sett eru l. um kvikmyndasýningar, gera þau svo úr garði, að tryggt sé, að hvert bæjar- og sveitarfélag, sem vill reka kvikmyndahús, hafi tök á að gera það, án þess að eiga yfir höfði sér að vera truflað af öðrum. Hitt er allt annað mál, sem hér er mikið rætt, hvort gera skuli almennar ráðstafanir til þess að bæjar- og sveitarfélög geti tekið eignarnámi þau hús, sem þegar hefur verið gefið leyfi til að reka. Það er vandasamt atriði að taka afstöðu til þess. Við framsóknarmenn viljum ekki fylgja almennri heimild til slíks handa bæjar- og sveitarstj., af ástæðum, sem þegar eru greindar. Við vitum, að sú almenna eignarnámsheimild, sem flutt var, var miðuð við, að í bæjarstj. Rvíkur kom fram vilji um að ná bíóunum hér undir bæinn. Hins vegar er það vitað mál, að slík heimild hefði ekki verið notuð eins og sakir standa. Bæjaryfirvöldunum hefur þótt verðið, sem metið var, of hátt, og mundi ekkert eignarnám fara fram fyrst um sinn, svo að það hefði enga þýðingu fyrir Rvíkurbæ nú, hvort heimildin væri samþ. eða ekki. Hitt er annað mál, hvernig því yrði tekið, ef fyrir lægi, að eitthvert bæjarfélag vildi taka eignarnámi ákveðna eign innan ákveðins tíma.

Ég gerði þennan útúrdúr að gefnu tilefni í umr. um afstöðu okkar til hinnar almennu eignarnámsheimildar.

Ég vil nú víkja að brtt. mínum, sem eru gerðar til að tryggja bæjar- og sveitarfélögum vald á þessum málum framvegis, eftir því sem þau telja æskilegt fyrir sig.

Í frv. er gert ráð fyrir, að kennslumálaráðh. veiti leyfi til starfrækslu kvikmyndahúsa. Ég gerði aths. við þetta við 1. umr. og lýsti yfir því, að ég mundi bera fram brtt. um, að ráðh. gæti ekki veitt slíkt leyfi, nema samþ. bæjar- og sveitarstj. kæmi til. Ég sé, að þetta hefur hlotið fylgi bæði hv. þm. Hafnf., sem flutti brtt. í sömu átt, og meiri hl. allshn., sem einnig flutti brtt. Ég sá þá ekki ástæðu til að flytja mína till.

Ég hef flutt brtt. við 2. gr., sem á að gera það skýlaust, að vilji bæjar- eða sveitarfélag reka kvikmyndahús f. h. bæjar- eða sveitarfélagsins, skuli leyfi til þess veitt. Frsm. meiri hl. allshn. gerði grein fyrir því, að þetta sama hefði vakað fyrir n., en mér fannst orðalagið ekki alveg skýlaust. Ég mun ekki fara nánar út í það, en af þessari ástæðu finnst mér það ekki geta verið lakara að samþ. brtt. mína um þetta efni, því að þá yrði það skýlaust, að samþ. hlutaðeigandi bæjaryfirvalda er nauðsynleg, til þess að aðrir geti tekið þetta að sér.

Þá hef ég leyft mér að flytja aðrar brtt., sem meiri hl. allshn. vildi ekki fella sig við, en hafa þó orðið til þess, að allshn. hefur bætt nokkuð úr þeim ákvæðum, sem till. mín fjallaði um, frá því, sem í frv. var. Eins og menn vita, hefur sá háttur verið upp tekinn, að bæjarstjórn hefur sett þau skilyrði fyrir leyfi til þess að reka kvikmyndahús, að greidd væru sætagjöld, sem eru eins konar skattur, sem kvikmyndahúseigendur eiga að greiða hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarfélagi. En eins og frv. er orðað, finnst mér mætti skilja það svo, að þeir, sem hafa slík leyfi, þyrftu ekki framvegis að greiða sætagjöld, og það var eitt af því, sem vakti fyrir mér, þegar ég flutti þessa brtt., en þó ekki aðalatriðið. Ég sé nú, að meiri hl. allshn. vill gera það skýlaust, að þeir, sem áður hafa haft leyfi, verði að greiða gjöld af sætum, og tel ég það til bóta frá því, hvernig frv. var orðað. Þá vík ég að öðru atriði, sem ég get ekki gengið til samkomulags við meiri hl. allshn. um, og fjallar það um, hver skuli hafa vald til þess að ákveða sætagjald framvegis. Í frv. er sett það ákvæði, að ráðherra skuli ákveða sætagjald að fengnum till. beggja aðila, og þetta sama ákvæði er látið haldast í brtt. þeirri, sem nú er lögð fram til miðlunar. Þetta get ég ekki fallizt á, því að mér finnst eðlilegast, að hver bæjar- eða sveitarstjórn hafi það í hendi sér að taka ákvarðanir um það, hversu hátt sætagjald eigi að greiða á hverjum stað, og geta þær þá sett um það þá skilmála, sem þeim finnst eðlilegastir og hinir, sem hlut eiga að máli, ganga annaðhvort að eða frá. En að ráðherraúrskurð þurfi, finnst mér ekki koma til greina.

Því hefur verið haldið fram af frsm. meiri hl. allshn., að á þessu væri sá galli, að ef bæjar- eða sveitarstjórnunum væri veitt þetta vald, gætu þær misnotað það með því að setja þetta sætagjald hærra en góðu hófi gegndi, svo að þeir, sem reka kvikmyndahúsin, gætu ekki risið undir því. Það má alltaf halda því fram, að það gæti komið fyrir, að bæjarstjórnir misnoti vald sitt, en það sama má segja um svo margar framkvæmdir, sem einstökum n. eða yfirvöldum er gefið af Alþ. Það er algengt, að Alþ. veiti einstökum yfirvöldum, sýsluyfirvöldum eða yfirvöldum bæjar- og sveitarfélaga heimild til þess að leggja á skatt og til þess að framkvæma aðrar slíkar ráðstafanir, og er þá gert ráð fyrir því, að Alþ. treysti þessum aðilum til þess að fara með þetta vald þannig, að það verði ekki misnotað gagnvart þeim, sem hlut eiga að máli. Ég get því ekki séð, að það sé neitt sérstaklega hættulegt eða óeðlilegt við það að fela bæjareða sveitarstjórnum vald til þess að leggja þessi gjöld á, og vil ég því einnig benda á það, út af þessari samþ. meiri hl. allshn., að það er auðvitað eins hægt að hugsa sér, að þetta vald, sem þeir vilja fela ráðh., gæti orðið misnotað í framkvæmdinni af einhverjum þeirra. Ég geri ráð fyrir því, að meiri hl. vilji benda á það, að ef bæjarstjórnum yrði falið þetta vald, gætu þær jafnt misnotað það til þess að ryðja einkakvikmyndahúseigendum úr vegi, sem sé með því að setja sætagjaldið of hátt.

Ég setti einnig í brtt. mína, að bæjarstjórnir gætu ákveðið hámarksverð aðgöngumiða. Ég skal taka það fram, að það getur orkað tvímælis að hafa þetta ákvæði svo einhliða, og hef ég því hugsað mér að ganga þar til móts við skoðun meiri hl. allshn. með því að flytja brtt. um að bæta við þennan lið, að samþ. ráðh komi til um hámarksverð aðgöngumiða. Þetta skref til móts við skoðun meiri hl. gerði ég til þess að bægja burt þeim kvíða, sem komið hefur fram hjá honum, um að hægt væri að misnota þetta vald. Þessa brtt. mun ég því flytja skriflega, og hljóðar hún þannig, með leyfi forseta: „enda samþykkir ráðherra hámarksverð aðgöngumiða“.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri og afhendi því forseta þessa skriflegu brtt. mína.