21.04.1943
Sameinað þing: 6. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2027)

11. mál, samþykki til frestunar á fundum Alþingis

Ólafur Thors:

Það eru aðeins tvö atriði í ræðum andstæðinga minna, sem hér hafa talað, sem ég finn ástæðu til að gera aths. við nú.

Hv. 3. landsk. (HG) gaf í skyn, að það hefðu verið látin orð falla um það í hótunartón, að ef hann ekki félli frá skattafrv. sínu og flutningi þessara mála, þá gæti hann átt mig að með að koma með sjálfstæðismálið. Ég hef aldrei talað um sjálfstæðismálið í þessum tón. Ég sagði, að eina frambærilega afsökunin fyrir framlengingu þingsins nú væri það, ef mönnum fyndist nauðsynlegt að ganga nú þegar frá því mikla máli. Um það sagði ég ekkert annað, hvorki að efni til né orðum.

Þá tók hv. 3. landsk. (HG) alveg réttilega til sín þau orð, sem ég lét falla um þá menn, sem ég kallaði, að væru haldnir af sjúklegu skattaæði. En hv. 3. landsk. þm. hélt, að hann gæti fengið mig á bekk með sér með því að vitna í yfirlýsingu, sem birt var í Morgunblaðinu frá mér og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), sem var skýrslugerð um viðræður, sem við hefðum getað haft um þessi skattamál á víðum grundvelli. Þessir menn vita, að við börðumst einarðlega gegn því, að ríkisstjóri myndaði stjórn utan við þingið og án þess að tryggt væri nægilegt samband milli hennar og löggjafans. Og í því skyni að forða þessu léðum við forstöðumenn Sjálfstfl. máls á því að ræða eitthvað um eignaraukaskatt. Og það skilur þessi hv. þm., að það er hyldýpi staðfest milli þessa tvenns, annars vegar þess, sem hann vildi leggja í þessa yfirlýsingu, og hins vegar þess, sem var í raun og veru, að við vildum til þess að forða því, að mynduð yrði utanþingsstjórn, ljá máls á að ræða eitthvert spor í þessa átt og þá eingöngu með því ákveðna skilyrði, að þeim peningum, sem þannig yrðu teknir, yrði varið til þess að auka önnur verðmæti þeirra sömu skattþegna, sem þeir væru teknir af. Nú er hins vegar borið fram að taka 30% af eignaraukanum í sjóði, sem kunna að vera svo og svo þarflegir á sínum tíma, — ef ekki verður þá búið að éta þá upp — , án þess þó að sá skattþegn. sem á að borga þetta, fái nokkur meiri fríðindi en aðrir þegnar í þjóðfélaginu.

Ég vildi ekki leyfa þessum misskilningi að rótfestast í hugum þeirra, sem kunna að hafa hlustað á hv. landsk. þm. (HG) áðan. Og vona ég, að öllum sé nú ljóst, hver reginmunur er á því, sem við vildum ljá máls á að gera, og hins vegar uppástungu þessa skattsjúka þm.