15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2344)

23. mál, afsláttarhross

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Þetta er vandamál og ekki víst, á hvern hátt verður ráðið fram úr því eins vel og þyrfti, en ríkisstj. hefur snúið sér til Búnaðarfél. Íslands og beðið það um till. Stjórn Búnaðarfél. hefur athugað málið gaumgæfilega og velt því fyrir sér, hverjar leiðir mundu helzt tiltækilegar, til þess að unnt væri að fækka stóði, sem búfénaði stendur voði af, ef harðnar vetur, og eins til þess að koma vörunni í verð. Helztu till. eru þær, að ríkisstj. reyni í sambandi við herstj. að fá það athugað, hvort ekki muni þörf fyrir niðursoðið hrossakjöt á heimsmarkaðinum, nú þegar erfiðleikar eru á að afla þjóðunum nægrar fæðu. Það eru líkur til, að nú á næstunni fjölgi þeim þjóðum, sem bandamenn þurfa að sjá fyrir fæðu, og því álít ég rétt að koma því á framfæri, hvort ekki sé ástæða til að gera róttækar ráðstafanir til, að því hrossakjöti, sem til kann að falla í landinu í haust, verði komið í æta vöru, t. d. með því að bandamenn gætu útvegað landsmönnum nægilegar umbúðir. Það hefur ekki verið rannsakað, um hve mikið magn er að ræða, en ef ekki stendur á umbúðum, gæti það orðið mjög mikið, og ætti þá að vera unnt að koma því í frambærilega vöru. Við höfum ekki fengið svar ríkisstj. Einnig bentum við á, að ef þessi leið brygðist, þyrfti að gera ráðstafanir til að útvega bændum salt og tunnur undir hrossakjöt, svo að þeir geti saltað til skepnufóðurs. Ég teldi fyrri leiðina miklu líklegri, en mér er ókunnugt um, hvað ríkisstj. hefur gert.