06.09.1943
Neðri deild: 9. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

30. mál, einkasala á tóbaki

Sigurður Kristjánsson:

Það er út af ummælum hæstv. ráðh. um þörf á þeim tekjum, sem gert er ráð fyrir að afla ríkinu með frv. á þskj. 35, að ég vildi segja örfá orð. Bæði ég og hv. 8. þm. Reykv. spurðumst fyrir um það, hvað gert væri ráð fyrir, að aflast mundi mikið fé í ríkissj. samkv. þessu frv., ef heimildin yrði notuð, og hvaða sérstök ástæða væri fyrir því, að ríkið þyrfti nú að afla þessara tekna. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri aðeins heimild, sem farið er fram á, og að það væri ekkert víst um það, hvort sú heimild yrði notuð. Það færi eftir mati þeirrar stj., sem með völdin færi, hvort þörfin væri fyrir því. Og ef svo færi, að ríkissj. þyrfti á þessu fé að halda, þá væri þetta heppileg leið til að afla tekna. Ég ræð af þessu, að það sé engin áætlun til um þetta, — fyrst og fremst, hverju tekjurnar muni nema, ella hefði ráðh. lagt fram einhverja áætlun. Í öðru lagi, að ekkert sé til um það, hvernig eigi að nota þessa heimild. Nú er það óneitanlegt, að venja hefur verið að afla tekna til ríkissj. vegna einhverra ákveðinna þarfa ríkissj., en ekki að leggja á landsfólkið til þess fyrst og fremst að taka af því fé, sem svo mætti nota, ef þörf skapaðist. Ég held það sé áreiðanlega víst, að það er orðið það dýrt að lifa í þessu landi, að ekki er þörf á að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að það megi verða enn þá dýrara, ef ekki eru aðrar ástæður. Og nú sé ég ekki betur en hjá hæstv. ráðh. skíni í það, að þessi þörf sé ekki fyrir hendi, — það er aðeins möguleiki fyrir því, að hún skapist. Af þessu álykta ég, að þetta frv. eigi engan rétt á sér.

Það mundi vera allt annað mál, ef stjórnin kæmi fram fyrir þingið og sýndi fram á, að tekjustofnar ríkisins hrykkju ekki til nauðsynlegra útgjalda. Manni sýnist 10–50% heildsöluálagning að viðbættum tollinum ekki vera óviðunanlega lág. Ég sé á undirtektum og fleiri hlutum, að málið hefur eitthvað verið undirbúið. En ég er einn þeirra þm., sem ekkert hafa heyrt um málið, fyrr en það var lagt hér fram, og sýnist svo sem ekki hafi þótt máli skipta, hver yrði skoðun okkar á því. En meðan ekki er betri grein gerð fyrir málinu en þetta, sé ég ekki nauðsyn þess og mun greiða atkvæði gegn því.