13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

133. mál, raforkusjóður

Áki Jakobsson:

Ég þarf að leiðrétta nokkrar rangfærslur, sem hv. síðasti ræðumaður kom með, í fyrsta lagi það, að ég hefði margsinnis farið í kringum sjálfan mig og gegnum sjálfan mig, og þá fyrst og fremst það, að ég hefði bent á ýmsar framkvæmdir, sem ætti að gera, en ég hefði svo sagt, að ekki væri hægt að gera. Ég benti á, að það horfði öðruvísi við, ef þetta væri sett í samband við ákveðnar framkvæmdir. Þessi n. er búin að vera það lengi, að hefði hún strax komið sér niður á, hvað þýðingarmest væri, hefði hún þegar komizt nokkuð áleiðis með það, sem eðlilegast er, að ríkið gerði. Það er liðið a. m. k. eitt ár, því að n. var kosin haustið 1942, og á þessum tíma hefði verið hægt að gera mikið, en starf n. virðist hafa farið í eitthvað annað, sem hefur ekki verið þýðingarmikið.

Lánsútboðið átti ekki að fara fram, fyrr en möguleikar væru orðnir fyrir að byrja þessar framkvæmdir. En þó að við séum á móti þessu láni, þá þýðir það ekki það, að við séum á móti því, að efni sé keypt til virkjananna. Það er fjarstæða. Ef stj. býðst skyndilega efni, getur hún vitanlega gripið til að taka bráðabirgðalán til að festa kaupin og leitað síðan heimildarinnar á eftir. Það eru því engin rök fyrir því, að þessi heimild sé skilyrði fyrir því, að unnt sé að kaupa efni, enda kemur þingið oft saman, og er því fyrirsjáanlegt, að þingið getur alltaf veitt þessa heimild, ef á þarf að halda, og því engin ástæða til að veita 20 millj. kr. heimild nú af þeim sökum.

Hv. þm. rakti sögu Keflavíkurmálsins. Sakirnar stóðu þannig, að þegar fyrir lá tilboð um efni til ákveðins staðar, þá vildi hann, að ekki stæði í þáltill., til hvaða staðar efnið ætti að fara. En hvers vegna ekki að taka fram í þál., að efnið ætti að fara til Keflavíkurlínunnar, fyrst fyrir lá ákveðið tilboð um þá línu? Það var ekki hægt að bera fram neina ástæðu fyrir því, að efnið ætti ekki að fara til Keflavíkur. Hv. þm. G.-K., flm. till., bar fram þá fyrirspurn við ráðh., hvort heimildin mundi ekki notuð og efnið látið ganga til Keflavíkur, og hæstv. ráðh. svaraði því, að stj. mundi nota heimildina til að kaupa efni til Keflavíkurlínunnar. Mér fannst eðlilegt, að það væri tekið skýrt fram, að efnið skyldi fara í þessa línu, þar sem fyrir lá ákveðið tilboð um efni til hennar. Síðan átti að taka hinar línurnar í einni till. og fela stj. að leitast fyrir um kaup á efni til þeirra, en það var fyrirsjáanlegt, að það mundi ekki takast, fyrr en þing kæmi saman nú eftir nýárið, og hafði hæstv. stj. þá næg tök á að leitast eftir heimildum. Síðan kom fram ýtarleg tillaga frá Sósfl., svipuð þeirri, er hv. þm. V.-Húnv. flutti í sambandi við Keflavíkurtill., þar sem beinlínis var gert ráð fyrir, að stj. safnaði tilboðum í þessar línur. Það er þess vegna engin mótsögn í að hrapa ekki að því að samþ. þessa tuttugu milljóna útboðsheimild og gera grein fyrir, hvernig eigi að haga þessu kerfi og í hvaða röð framkvæmdirnar eigi að koma. Það hvílir vitanlega á n. að sjá um, að byrjað sé á réttum stað.

Ég hélt fram, að ríkið ætti ekki að eiga allar rafveiturnar, heldur bæjarfélögin og þorpin, hvert til síns staðar. En ég tel rétt, að ríkið eigi orkuverin og selji raforkuna almenningi og til iðnaðar í heildsölu, ef svo mætti segja, og það er því hreinn útúrsnúningur að setja þetta hvort á móti öðru. Það er eðlilegt, ef ráðizt er í ný stórvirki við Sogið, að ríkið geri það, vegna þess að raforkan verður að skiptast milli margra þorpa, kannske margra tuga þorpa. Það er því eðlilegt, að ríkið eigi orkuverin og selji síðan til bæja og þorpa. Svo er það, sem er minna atriði, hvort ríkið á að eiga hluta af háspennulínunum út frá þessum stöðum. Ég tel ekki ástæðu til að það eigi orkuverið, sem er við Sogið og Reykjavíkurbær fær sína orku frá, ef hann fær ekki að selja orku til neinna annarra. Það er rétta leiðin, að ríkið reisi þessi orkuver og síðan sé vel athugað, hvort ríkið um leið eigi að reisa stór iðjuver sjálft eða stofna félög til þeirra hluta og selja þeim raforku. Hitt næði engri átt, að ríkið færi að eiga rafveitu hvers þorps og kaupstaðar og takmarka þannig sjálfsákvörðunarrétt þessara staða í jafnnauðsynlegum málum. Það væri álíka fjarstætt og ríkið færi að leggja undir sig hverja vatnsveitu á landinu. Þetta eru svo óaðskiljanlegir hlutar bæjarfélaganna, að það er ómögulegt að hugsa sér annað en bæjarfélögin verði að ákveða, t. d. hvenær eigi að stækka æð þangað og hvernig eigi að haga þeim framkvæmdum. Það eina skilyrði, sem ríkið verður að setja, er það, að aðgerðir og framkvæmdir bæjarfélaganna brjóti ekki í bága við heildaráætlunina, og um það mundi fást samkomulag við hvert bæjarfélag, enda munu þessar framkvæmdir ætíð verða gerðar eftir ráðum eða fyrirmælum trúnaðarmanna ríkisins. Það er því engin ástæða til að ætla, að það komi í bága, enda er svo frá gengið, að bæjarfélögin leggja ekki í virkjun nema með ríkisábyrgð, og getur þá Alþ. sett þau skilyrði, að framkvæmdirnar verði í samræmi við heildarkerfið. Þetta er líka mjög mikils virði fyrir bæjarfélögin sjálf, vegna þess að það er ákaflega mikið öryggi, að mörg orkuver séu á sama neti, og er það víðast svo erlendis, þó að enn þá séu ekki tök á því hér á landi sökum dreifbýlis, þar sem bæir eru fáir og smáir og langt á milli þeirra.

Það fór sem mig grunaði, að hv. þm. V.-Húnv. mundi halda fram, að það væri ákvörðun Alþ., að raforkan skyldi alls staðar seld sama verði, hvar sem væri. Það er engin heimild til að leggja þessa till. út á þann hátt, enda var það ekki gert, þegar hún var til meðferðar á sínum tíma. Sósfl. hefur frá upphafi verið andvígur þessari stefnu, því að þetta er hlutur, sem allir sjá, að nær engri átt og verður til tjóns, að svo miklu leyti sem reynt er að framkvæma það. En ég er sannfærður um, að það verður ekki nema tiltölulega skamman tíma, vegna þess að reynslan sýnir, að ef við eigum að eiga þess nokkurn kost, að þjóðin taki framförum atvinnulega og iðnaður eigi að geta risið upp, bæði í sambandi við sjávarútveginn og annars staðar, þá er það lífsskilyrði, að raforkan sé ekki seld hærra verði en óhjákvæmilegt er á hverjum stað. Það er skilyrði til, að hægt sé að koma upp áburðar- og sementsvinnslu, magnesíumvinnslu og lýsisherzlu, að orkan sé seld svo lágt sem nokkur kostur er. Við getum ekki hugsað okkur að keppa við erlendar þjóðir á þessum sviðum, ef stöðvar okkar eiga að borga raforkuna hærra verði en hún kostar komin á staðinn, til þess að hægt sé jafnhliða að leiða rafmagn til svo sem 20 sveitabæja í næstu sveit. Þetta er fjarstæða, enda var þál. aldrei skilin svo, að aldrei kom neitt fram um það, fyrr en Eysteinn Jónsson kom með það á fundi í níu manna n., þegar framsóknarmenn voru að slíta upp úr umr., en það kom ekki til mála, að Sósfl. og Alþfl. skildu till. svo, að ætlazt væri til, að kaupstöðunum yrði seld raforka óeðlilega dýrt, til þess að dreifbýlið gæti fengið hana óeðlilega ódýrt. Ef það er meiningin, verður að greiða mismuninn úr ríkissjóði, en engin sanngirni að ætlast til, að bæjarfélög og þorp séu skylduð til að taka slíkt á sig. Það verður heildin að greiða og bæta því við þá styrki, sem við erum svo vanir að greiða til sveitanna í því skyni, að mér virðist, að reyna að halda þar öllu sem mest með sama svip og nú er þar og hindra samdrátt byggðarinnar og þar með alla atvinnulega þróun þar.

Það, sem hér er spurt um, er hvort við eigum að tileinka okkur raforkuna fullum fetum og leggja út í að hagnýta okkur það, sem okkar hrjóstruga og erfiða land hefur fram yfir önnur lönd, vatnsaflið, til að koma upp blómlegum atvinnuvegum og nægilega fjölbreyttum til þess að þurfa ekki að greiða atvinnubætur. hvenær sem einhver grein atvinnuvega okkar bregzt, eins og orðið hefur, ef sjávarútvegurinn hefur brugðizt. Það er beinlínis skilyrði fyrir þessum möguleikum, að við lærum af reynslu annarra þjóða. Og enginn verkfræðingur í landinú mun treysta sér til að mæla með slíkri framkvæmd raforkumála, sem hv. þm. V.-Húnv. segir, að Alþ. sé reiðubúið að ákveða, sem er vitleysa. Þeir taka allir skýrt fram, að þetta sé slík reginfjarstæða, að það nái engri átt. Reynsla annarra þjóða sýnir ekki heldur neitt fordæmi fyrir slíku, og þó er dreifbýlið ekki eins mikið þar. Byggðin er þar miklu þéttari, af því að þar er minni kvikfjárrækt. Þeir þurfa því ekki eins mikið beitiland, og það er ekki eins hrjóstrugt land og erfitt til ræktunar og Ísland. Annars býst ég við, ef framsóknarmenn halda þessu til streitu, að ekki verði úr því skorið fyrr en fyrsta virkjunin kemur til ákvörðunar, sem rekin yrði með þessu fyrirkomulagi.

Þá vill þessi hv. þm. halda fram, að þótt 20 millj. kr. í skuldabréfum væri nú bætt á markaðinn, þá mundi það ekki spilla fyrir lánunum og þau ekki verða neitt dýrari, því að vextir væru jafnir af öllu, 4%. Það er rétt, að allir vextirnir eru 4%. En ef við bættum nú á markaðinn 20 millj. kr. í skuldabréfum, þá er meira en hugsanlegt, að bréfin falli niður fyrir nafnverð, svo að hundrað krónur verði ekki hundrað, heldur níutíu. Það er ekki langt, síðan skuldabréf bæjar- og sveitarfélaga voru boðin fyrir 5–6% afföll og stundum meira, og veðdeildarbréf komust lengra, allt niður í 65%. Það er því hægt að gera ráð fyrir verðfellingu á þessum bréfum, ef mjög mikið er af þeim á markaðinum, og getur það orðið til þess, að bæir eins og Siglufjörður og Reykjavík, sem eru nú að framkvæma virkjanir, verði til neyddar að selja bréf sín með afföllum. Þeir standa með verkin hálfgerð og því enn meira tap fyrir þá, ef ekki væri unnt að ljúka þeim framkvæmdum. Hér verður því að fara varlega til þess að gera þeim bæjarfélögum, sem nú standa í virkjun, ekki erfiðara fyrir en ástæða er til.

Ég vil því skora á n. að taka alvarlega til athugunar undirbúning undir framkvæmd þessara mála, og fylgja meira ráðum sér vitrari og fróðari manna, sem hafa aflað sér þekkingar á reynslu annarra þjóða, sem n. hefur skellt skollaeyrunum við og ekki tekið mark á nema að nokkru leyti.