13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

133. mál, raforkusjóður

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af ummælum, sem hv. þm. Siglf. hefur látið falla, ætla ég að rifja upp hér örlítinn kafla úr þeirri þál. um raforkumál, sem samþ. var á Alþ. 4. september 1942. Hún byrjar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd, er geri tillögur um fjáröflun til þess að byggja rafveitur í því skyni að koma nægilegri raforku til ljósa, suðu, hitunar og iðnrekstrar í allar byggðir landsins á sem skemmstum tíma, enda verði raforkan ekki seld hærra verði í sveitum landsins en stærstu kaupstöðunum á hverjum tíma“. Þannig var þetta samþ. Og ég held, að flestum öðrum en kannske hv. þm. Siglf. ætti að vera það auðskilið, sem þarna er sagt, því að það er greinilegt. Ef ég man rétt, mun flokkur hans hafa verið með því að samþ. þetta. En vitanlega er þeim líkt að vilja svo hlaupa frá samþykktinni á eftir. — Ég mun svo ekki að öðru leyti gera þessa síðari ræðu hv. þm. Siglf. að umtalsefni.

Ég lifi í þeirri von og trú, að hægt verði innan skamms að hefjast handa um að framkvæma þessi raforkumál víða um landið, þjóðinni til gagns og hagsbóta, þrátt fyrir andstöðu hv. þm. Siglf. og annarra slíkra.