12.11.1943
Sameinað þing: 29. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2671)

125. mál, rafmagnsveita Reykjaness

Finnur Jónsson:

Ég hef þá sérstöðu innan meiri hl. fjvn., að ég flyt viðbótartill. við aðaltill., á þá leið, að jafnframt því, að stj. sé heimilt að ganga frá kaupum á efni til Keflavíkurlínunnar, sé henni einnig heimilt að leitast fyrir um kaup á efni í háspennulínu til annarra þorpa á Suðurnesjum ásamt aðalspennistöðvum í þorpunum og verja einnig fé úr ríkissjóði til þeirra kaupa, ef þau takast. Mér virðist, að þessi viðaukatill. mundi á engan hátt geta tafið fyrir því, að aðaltilgangurinn næðist, sem sé, að þegar í stað verði keypt það efni, sem þarf til háspennulínu til Keflavíkur, sem nú mun fáanlegt og útflutningsleyfi mun hafa fengizt fyrir frá Ameríku.

Ástæðan fyrir, að ég flyt þessa till., er aðallega sú, að víða á Suðurnesjum er nú risinn upp talsverður iðnaður, einkum í sambandi við hraðfrystihús og þess háttar, og þessum iðnaði er nauðsynlegt að fá sæmilega ódýrt rafmagn. Keflavíkurlínan er að miklu leyti lagning á háspennulínu til þessara staða, og væri því eðlilegt, að Suðurnesin sætu fyrir, svo að hægt væri að leysa úr þessari þörf. Nú má vel vera, að till. minni hl., eins og hún er orðuð, nái einnig yfir þetta, en ég hafði talið, að þar sem nokkur metingur er um það, hvar leggja eigi þessar háspennulínur, þá væri rétt að leggja þær fyrst þar, sem líkur eru til, að þær geti borið sig bezt, og það er einmitt á Suðurnesjum. Nú er vitað, að lagning Keflavíkurlínunnar mundi gera línur til hinna stöðvanna á Suðurnesjum ódýrari, og áframhald þeirrar línu til þorpanna kynni að verða til þess, að Keflavíkurlínan bæri sig betur. Þannig skilst mér, að þetta styðji hvort annað.

Ég vil á engan hátt draga úr því, að þetta efni verði flutt inn, með viðaukatill. minni, og mundi ég ef til vill geta fallizt á að taka till. mína aftur til síðari umr. og sjá til, hvaða undirtektir aðrar till. fengju, sem hér liggja fyrir.