15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Áki Jakobsson) :

Frv. það, sem hér liggur fyrir. er óbreytt frv. það, sem mþn. í skattamálum, sem kosin var á fyrri hluta þessa þings, kom sér saman um og birt er í nál. hennar. Fjhn. þessarar hv. d. taldi rétt að taka þetta frv. upp. Þó hafa einstakir hv. nm. áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma við það. Vil ég fara nokkrum orðum um þetta frv., til að lýsa nokkuð innihaldi þess, áður en það fer áfram til 2. umr.

Í fyrsta lagi er samkv. 1. gr. frv. ákveðið, að skattal. verði breytt á þann hátt, að í staðinn fyrir það, að aðeins hefur verið til einn skattstjóri, sem sé hér í Reykjavík, þá séu þeir skipaðir 5 á þessum stöðum: Í Reykjavík, á Akureyri, á Ísafirði, í Neskaupstað og í Hafnarfirði. Eiga þessir skattstjórar að koma í staðinn fyrir skattanefndir, þar sem þeir hafa ekki verið áður, hver á sínum stað, og gegna þeim störfum, sem skattstjóra í Reykjavík hafa verið falin þar. Auk þess á með reglugerð að skipta landinu utan Reykjavíkur í fjögur skattaumdæmi, og hefur hver þeirra fjögurra skattstjóra, sem eru utan Reykjavíkur, eftirlit með skattanefndum í hverju umdæmi fyrir sig. Skattstjórar þessir skulu vera umboðsmenn ríkisskattan. í umdæmi sínu og ráðunautar yfirskattanefnda þess, eftir nánari fyrirmælum í reglugerð.

Þessi till. mþn. var upphaflega til komin vegna frv., sem n. var sent til athugunar. Það frv. gerði ráð fyrir að skipta landinu niður í ákveðin skattaumdæmi og að skipaður yrði sérstakur skattdómari á hverju því svæði fyrir sig. En mþn. taldi þá lausn ekki eins heppilega og að fjölga skattstjórum og taldi sérstaka hættu á því, að þetta skattdómaraembætti væri byggt á sandi, þar sem skattdómarar hefðu ekkert starf, sem gæfi þeim góða aðstöðu til að rannsaka skattaframtölin, en að það mundi yfirleitt verða lítið um það, að málum yrði skotið til skattdómaranna út af skattaframtölum, enda hefur sú orðið raunin á um þann eina skattdómara, sem skipaður hefur verið samkv. l., að mjög fáum málum hefur verið til hans vísað. Og þá var hætta á, ef svo færi um skattdómarana í heild, að þau l. kæmu ekki að haldi, þó að sett yrðu l. um skattdómara, eins og ég tók fram. Þegar hins vegar um skattstjóra væri að ræða, mundi það eðlilega falla inn í starf þeirra að rannsaka skattaframtöl. Og er þá eðlilegt, að í sambandi við það verði skattstjóra fengið það vald, sem gert er ráð fyrir í 3. málsgr. 1. gr. frv., að komi fram krafa um réttarrannsókn frá skattstjóra, sé héraðsdómara skylt að framkvæma hana þegar í stað, og að skattstjóri eigi rétt á því að vera viðstaddur í réttarhöldum og bera sjálfur fram spurningar fyrir skattþegn eða vitni, sem í réttinum mæta. Með þessu er tryggt, að hægt sé, ef á þarf að halda, að grípa til þeirra ráðstafana, sem rannsóknarvaldið hefur til þess að knýja fram upplýsingar um eitt eða annað. En skattstjórar munu þó eðlilega aðallega beita því vopni í starfi sínu, sem skattan. hafa nú þegar og skattstjórinn í Reykjavík, en það er að áætla mönnum tekjur, ef þeir neita að gefa upplýsingar um tekjur sínar og gjöld eða færast undan því.

Ég býst við, að mér sé óhætt að segja, að meiri hl. fjhn. sé þeirrar skoðunar, að þessi till. mþn. sé heppilegri lausn en sú, sem stungið er upp á í frv. um rannsókn skattamála, sem lá hjá n., og að meiri hl. n. þess vegna telji, að með því að leggja fram þetta frv. sé afgreitt frv. um skattdómara, sem til hennar var sent.

Þá er ákvæði frv. varðandi nýbyggingarsjóðina. Þar varð ekki samkomulag um neitt annað í n. því viðkomandi en um það að gera ráðstafanir til þess að hindra, að menn gætu tekið þetta fé út og notið skattívilnana, sem þeim eru veittar með fyrirmælum l. um nýbyggingasjóði, án þess að tryggt sé, að féð sé notað til nýbygginga. Og till. frv. að þessu leyti ganga út á það, að hver sá, sem vill taka út þetta fé, án þess að það fari til nýbygginga, verði að borga af því fullan skatt eftir þeim reglum, sem hann hefði orðið að borga skattinn eftir, þegar teknanna var aflað, ef þær hefðu þá komið til skattálagningar ásamt öðrum tekjum viðkomandi aðila, og að ríkisskattan. eigi að reikna út, hve hár þessi skattur sé. Og hér er ákvæði um, að ekki megi afhenda þetta fé út úr banka, fyrr en búið er að draga frá það, sem á þessum tíma, sem um var getið, og eftir þeim reglum, hefði átt að borga í skatt af þessu fé. Í mörgum tilfellum mundi sá skattur af þessu fé hafa orðið 90%, þannig að þarna er í framkvæmdinni gengið mjög tryggilega frá því, að þetta fé verði ekki notað á annan hátt en til nýbygginga, því að þótt um gjaldþrotabú væri að ræða, mundi kröfuhafi hafa séð um, að féð væri notað til nýbygginga, en ekki notað á annan hátt, til þess að missa það ekki í skatta. — Frv. snertir ekki annað fé nýbyggingasjóða, vegna þess að ekki varð samkomulag um aðra liði, eins og sjá má í nál.

Þá er í 4. gr. frv. það ákvæði, sem samþ. var í dýrtíðarl., að þeir einstaklingar, sem rækju útgerð sem aðalatvinnu, mættu draga 1/3 hluta af hreinum tekjum sínum frá og leggja í nýbyggingarsjóð — eða sem sagt eins og útgerðar- og hlutafélög. Þetta ákvæði var lögfest í dýrtíðarl. En þar sem þau eru aðeins til bráðabirgða, taldi n. rétt, að þessi ákvæði kæmu hér fram aftur.