24.11.1943
Neðri deild: 53. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í C-deild Alþingistíðinda. (2770)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég flyt hér nokkrar brtt. við þetta frv. og vil fara um þær nokkrum orðum.

Mér skilst, að breyt. þær, er fjhn. hefur gert á skattal., séu aðallega tvær, hin fyrri á 1. gr., um að skipa skuli fjóra nýja skattstjóra og um leið leggja niður skattanefndir. Þessi breyt. er sennilega til bóta. Þó efast ég um, að hún komi að tilætluðum notum alls staðar, t. d. á hinum fámennari stöðum. Yfirleitt er það hæpin leið að fela einum manni slíkt vald, þar sem allir eru persónulega kunnugir. Hins vegar er það til bóta, að skattstjóri fær vald til að herða á eftir skattanefndunum. — Síðari aðalbreyt. er í því fólgin, að reynt er að tryggja, að framlagi til nýbyggingasjóða fiskiskipa verði í reyndinni varið til þess, sem upphaflega var ætlazt til.

Ég undrast, að n. skuli ekki hafa flutt fleiri brtt., og með því að aðrar brtt., sem fram hafa komið, ná skammt, þá hef ég leyft mér að flytja hér nokkrar brtt. um það, sem mest hefur verið rætt um, að breyta þyrfti.

1. brtt. mín er um, að skattfríðindi fyrir almenn hlutafélög verði afnumin. Fyrir þeim sérréttindum er engin frambærileg ástæða, — eða hvaða ástæða getur verið til þess, að hlutafélag, sem rekur kvikmyndahús eða verzlun, skuli njóta skattfríðinda fram yfir aðra, sem slíkan rekstur hafa með höndum?

2. brtt., sem ég flyt, er um, að hlutafélög, sem reka útgerð, séu skyld að leggja í nýbyggingarsjóð allt skattfrjálst fé sitt. — Nú njóta hlutafélög, sem útgerð stunda, betri kjara en aðrir þeir, sem sams konar rekstur hafa með höndum, þar eð þau þurfa ekki að greiða til nýbyggingasjóðs nema helming þess fjár, er þau njóta skattfrelsis fyrir. Þessu legg ég til, að verði breytt og hlutafélög verði eftirleiðis látin sitja við sama borð og einstaklingar og sameignarfélög, sem útgerð stunda. — Þá segir svo í till. minni: „Nú er nýbyggingasjóður orðinn jafnhár hæfilegu vátryggingarverði skips eða skipa skattþegns að dómi ríkisskattan. eða sjóðurinn er orðinn 2 milljónir króna, og má hið skattfrjálsa framlag í nýbyggingasjóð þá eigi nema hærri upphæð en 1/6 af hreinum tekjum félags samkv. framansögðu.“ — Ég sé ekki ástæðu til, þegar nýbyggingasjóður er orðinn það hár, að hann er jafn virðingarverði skipa — eða 2 millj. kr., að þá þurfi að leggja jafnmikið í nýbyggingasjóð.

Enn fremur legg ég til, að persónufrádráttur sé hækkaður. Það er nú orðið almennt viðurkennt, að hann sé of lágur, og hafa menn úr öllum flokkum látið það í ljós. Nú legg ég til, að hann sé hækkaður um helming. Þó er mér ljóst, að hann er ekki það hár, að nokkur maður geti lifað af honum.

Loks geri ég ráð fyrir, að skattdómaraembættið verði lagt niður, ef hin fjögur skattstjóraembætti verða stofnuð, eins og fjhn. leggur til. — Því miður kom ég of seint inn í deildina til að heyra brtt. hv. þm. V.-Húnv. við till. mína, og get því ekki tekið afstöðu til hennar.