11.11.1943
Neðri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (2781)

106. mál, rannsókn á olíufélögin og um olíuverzlunina

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er fátt þm. hér í d., þó að til umr. sé mál, sem virðist vera allhitakennt og skoðanir mjög skiptar um. Mér væri kært, ef hæstv. forseti vildi gera þm. kunnugt um, að fundur sé byrjaður.

Vegna ummæla, sem fallið hafa við þessa umr., virðist ekki vera hægt að komast hjá að draga nánar fram aðdraganda þessa máls. Er þá fyrst frá að skýra, að í sumar, þegar síldartími var byrjaður, lét ríkisstj. verksmiðjustj. á Siglufirði taka að sér sölu á hráolíu til flotans og tilkynnti allmikla lækkun á útsöluverði. Þessi tilkynning, — þegar hvert kg var lækkað um 13 aura, — vakti útgerðarmenn og sjómenn til umhugsunar um, að ekki hefði verið allt með felldu um olíuverðið. Þetta hleypti skrið á málið. Síðar var upplýst á Alþ. og í blöðum, að innkaupsverð hráolíu væri 17½ eyrir kg, svo að undrum sætti það háa útsöluverð, sem verðlagsyfirvöldin í landinu höfðu leyft, en það hafði verið um þrefalt innkaupsverð eða 51 eyrir kg. Þetta leiddi til þess, að útgerðarmenn gerðu nokkrar kröfur um, að útsöluverðið yrði lækkað og þeim gefinn kostur á að kaupa olíu án milligöngu olíufélaganna. Þetta gekk í nokkru þófi, en þó kom þar að, að olíufélögin urðu hrædd um aðstöðu sína og hófu samningsumleitanir til að tryggja sér áframhaldandi einokun. Þær samningsumleitanir leiddu af sér, sem kunnugt er, að bæði ríkisstj. og olíufélögin gáfu út mjög athyglisverðar skýrslur um olíuverðið. Upplýsingarnar í þessum skýrslum eru einmitt aðdragandinn að þeirri till., sem er til umr.

Það kemur í ljós, þegar báðir þessir aðilar gefa skýrslu, að mikið ber á milli, og hafa þeir allhörð orð hvor um annan. Þannig segir t. d. hæstv. fjmrh. í síðustu ræðu sinni hér í þ. um síðustu yfirlýsingu og grg. olíufélaganna um málið: „Síðasta grg. félaganna, sem þau sendu frá sér, verð ég að segja, að er blekkingavefur og annað ekki“. — Það er ekki verið að skera utan af því. Sjálfur fjmrh. lýsir yfir því á sjálfu Alþ., að skýrsla olíufélaganna sé hreinn blekkingavefur. Í sömu ræðu lýsir hann því, að olíufélögunum hafi verið leyft að hafa nokkurn hreinan ágóða af hverju kg af seldri olíu, og segir: „Í þessu tilfelli var heimiluð 5% álagning á vöruna, eins og hún verður með kostnaði og dreifingarkostnaði úti um land. Þessi álagning verður til samanburðar við þá lækkun, sem orðin er: á benzíni 4.3 aurar, á steinolíu 2,9 aurar, á hráolíu 2,1 eyrir“. — Þetta höfðu olíufélögin leyfi til að hagnast, á hráolíunni, sem mest er deilt um, um 2,1 eyri, en svo bjóða félögin skyndilega að lækka útsöluverðið þannig, eins og hæstv. ráðh. segir, að „lækkunin nemur: af benzíni ca. 8 aurum á kg, af steinolíu 8½ eyri, af hráolíu 9 aurum“, — eða m. ö. o.: lækkunin, sem þau bjóða, er á við margfalda þá álagningu, sem þau höfðu leyfi til. Þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir, er ekki nema eðlilegt, að útvegsmönnum þyki koma fram sterkar líkur fyrir því, að þetta háa útsöluverð sé fengið með rangindum, og er ekki óeðlilegt, þó að þm. krefjast þess, að á þessu máli fari fram gagngerð, ýtarleg rannsókn. Allir skilja, að þegar olíufélögin geta boðið fram verðlækkun, sem nemur margfalt meiru en hámarki hinnar leyfilegu álagningar, hlýtur einhvers staðar að vera feill í reikningunum. Þau bjóða ekki þessa miklu verðlækkun nema af því, að álagningin hefur numið meiru en lækkunin, sem þau bjóða, enda segir hæstv. ráðh. í þessari sömu ræðu: „Álagningin er því ekki nema brot af þeirri verðlækkun, sem um er að ræða. Hér er því að mínu áliti til athugunar, hvort félögin hafa frá því fyrsta gefið upp ranga kostnaðarliði“.

Þegar því málið er komið inn á þessa braut, að olíufélögin hafa gefið blöðunum langa og mikla skýrslu og ríkisstj. hefur gefið skýrslu á Alþ. og þessar skýrslur eru í mótsögn hv or við aðra, er eðlileg afleiðing af því, að þess sé krafizt, að fullkomin rannsókn fari fram.

Því var það, að við fjórir þm. bárum fram till. á þskj. 185, að við töldum ekki við hlítandi, að jafnstórt og mikið mál fyrir sjómannastéttina og útgerðarmenn, sem sameiginlega verða að borga þetta háa verð, af því að olían er venjulega tekin af óskiptum afla, fengi ekki fullkomna rannsókn, svo að það sanna kæmi fram í málinu og olíuverðið yrði leiðrétt samkv. því. — En nú eru komnar fram raddir um að draga mikið úr mætti þessarar rannsóknar. Það er talað um, að hér sé um fruntalega aðferð að ræða og jafnvel að verið sé að brjóta réttarreglur á þeim aðilum, sem rannsókninni er stefnt að. Ég verð að segja það, sem raunar hefur komið hér fram áður, að þessi leið er óvenjuleg, en því verður ekki heldur neitað; að framkoma olíufélaganna er einnig mjög óvenjuleg, að ég ekki segi fullt einsdæmi.

Það hefur komið fram till. um það að hefja ekki þegar réttarrannsókn, heldur fyrst einhverja vægari rannsókn. En hvað er það, sem olíufélögin óttast við fullkomna rannsókn? Hvað óttast formælendur félaganna, að komi fram við ýtarlega rannsókn? Mér sýnist, að þar sem svo mikið ber á milli sem hér á milli ríkisstj. og olíufélaganna, þá sé einmitt rétt að fá á því opinbera rannsókn og félögin hefðu átt að vera því fegin, ef þau hafa hreinan skjöld. En hér bregðast menn illa við og tala um, að þessu fylgi mikil hætta, að þetta verði til þess að skerða réttaröryggi landsmanna í framtíðinni. En ég get ekki séð, að slík rannsókn verði til annars en draga fram hið rétta og sanna, og það ætti enginn að vera á móti því.

Allshn. hefur klofnað í þrennt um þetta mál. Hv. 3. minni hl. vill í raun og veru drepa málinu alveg á dreif — með því að láta sér nægja þá rannsókn, sem fer fram á vegum viðskiptaráðs, en bægja frá hinni opinberu rannsókn. Hv. 2. minni hl. vill bægja frá hinni opinberu rannsókn og láta fyrst fara fram vægari rannsókn, en svo hina e. t. v. á eftir. Hér er miðað að því að veikja verulega mátt rannsóknarinnar og draga úr áhrifum hennar. Auk þess stefnir till. hv. 2. minni hl. að verulegu leyti að því, sem hv. 3. minni hl. ber fram, að láta sér nægja rannsókn viðskiptaráðs. En ég vil benda á það, að í því, sem fram hefur komið og það m. a. í skýrslum olíufélaganna, þá eru bornar allþungar sakir á verðlagsyfirvöldin sjálf, og verður því ekki hjá því komizt að draga það fram, hvern þátt þau eiga í þessu.

Í Morgunblaðinu frá 16. okt. s. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Útsöluverð það, sem dómnefndin ákvað, var einnig nokkuð ríflegra en ella, sökum þess að útlit var þá fyrir mikla, almenna verðhækkun um áramótin, en verðlagshækkanir voru stöðvaðar litlu síðar með lögum, eins og kunnugt er. — Með þessu halda olíufélögin því beint fram, að dómnefnd í verðlagsmálum hafi leyft hærra verð en ástæða var til í raun og veru, að hún hafi þá fallizt á að reikna með vaxandi dýrtíð, sem þó ekki varð. Vitanlega hafði dómnefndin þó ekki heimild til þess að leyfa hærra verð en þá var þegar skollið á, en olíufélögin halda því þarna fram, að dómnefndin hafi leyft þeim hærra útsöluverði en ástæða var til. Hér bera því olíufélögin allþungar sakir á dómnefndina, og sýnist mér því, að ekki verði hjá því komizt við rannsókn að taka til athugunar framkomu verðlagsyfirvaldanna í þessu máli. Ég gat því á engan hátt sætt mig við þá rannsókn, sem nú fer fram og 2. og 3. minni hl. vilja sætta sig við, en vilja í stað þess drepa hinni opinberu rannsókn mest á dreif.

Ég álít af því, sem ég hef dregið hér fram, að það liggi svo ótvíræð rök fyrir því, að nauðsyn sé á opinberri rannsókn, að engin ástæða sé til þess að slaka á nokkurn hátt til frá því, sem farið er fram á í till., sem hér var borin fram upphaflega. Málið er svo stórt, að ekki er viðunandi, að rannsóknin verði ekki eins ýtarleg og fullkomin og frekast er unnt. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri að sinni, en vil vænta þess, að hv. þm. sjái, að þær leiðir, sem 2. og 3. minni hl. leggja til, að farnar verði, eru báðar til þess að veikja verulega mátt þeirrar rannsóknar, sem hér er ætlazt til, að fari fram, en það er æskilegt, að hér komi öll kurl til grafar.