06.12.1943
Neðri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lúðvík Jósefsson:

Ég vildi segja nokkur orð í tilefni af ræðu hv. þm. Vestm. Hann hélt fram, að af sinni hálfu væri um „principmál“ að ræða og af þeirri ástæðu gæti hann ekki fallizt á till. á þskj. 473, því að hann væri þeirrar skoðunar, að að því bæri að stefna að minnka vald hinna pólitísku flokka um álagningu yfirleitt og innheimtu gjalda til ríkis og bæja. Ég vil benda þessum hv. þm. á, að ef hann vill flytja þetta sem „princip“ frá sinni hálfu, þá hefði verið nauðsynlegt, að fram hefði komið í þessu heildarstefna gagnvart öllum aðilum, en hér er stefnt að því, að 4–5 kaupstaðir skuli ekki hafa sama rétt og aðrir til að kjósa niðurjöfnunarnefndir. Reykjavík má hafa hann áfram og Seyðisfjörður líka, sömuleiðis Siglufjörður, Akranes og allir hreppar, en aðeins þessir tilteknu kaupstaðir verða sviptir þessum réttl. Hér er því ekki um þann grundvöll að ræða, að þetta geti heitið „principmál“.

Hv. þm. Vestm. dregur þetta mál upp á rangan hátt. Hann sagðist vilja, að ríkið skipi formenn niðurjöfnunarn. á þessum stöðum til þess að tryggja, að þeir verði óháðir og óhlutdrægir, og til þess að minnka vald hinna pólitísku flokka á þessum stöðum. Hann nær þessum góða tilgangi sínum alls ekki með því, sem hann leggur til. Það þýðir ekki að stangast á við það, því að það er veruleiki. að þessir menn geta verið alveg eins pólitískir og bæjarstjórar mundu vera. Hv. þm. Vestm. lýsti því fyrir fáum dögum, hvernig ýmsir hæpnir starfsmenn hefðu komið í byggðarlag hans í sambandi við þessi mál. Við getum gengið út frá því, að sá pólitíski ráðh., sem er á hverjum tíma, muni fyrst og fremst velja til skattstjóra menn, sem eru af sama pólitíska sauðahúsi og hann, og getur það leitt til þess, að niðurjöfnunarn. verði skipuð í andstöðu við vilja meiri hl. bæjarstjórnar. Við skulum taka dæmi. Við skulum hugsa okkur, að í einni bæjarstjórn séu kosnir fjórir framsóknarmenn og fimm sjálfstæðismenn. Hvernig verður niðurjöfnunarn. skipuð þar? Samkv. till. hv. þm. Vestm. kysi bæjarstjórn tvo framsóknarmenn og tvo sjálfstæðismenn. Svo skulum við hugsa okkur, að framsóknarmaður sé ráðh., og hann skipar skattstjóra og þá um leið formann n. Hann skipar framsóknarmann, ef að venju lætur, og er þá niðurjöfnunarn. skipuð þremur framsóknarmönnum og tveimur sjálfstæðismönnum eða þvert á móti því, sem bæjarstjórnin var skipuð. Ég tel eðlilegt, að sá meiri hl., sem er í bæjarstjórn á hverjum tíma, fái að ráða því, hvernig megintekna skuli aflað, en ekki sá minni hl., sem ber ekki ábyrgðina. Það, sem um er að ræða, er það, að einn maður getur, þegar svo ber undir, tekið valdið af meiri hl. bæjarstjórnar í niðurjöfnunarn., en ekki hitt, eins og hv. þm. Vestm. vildi halda fram, að ég hefði sagt, að þessi eini stjórnskipaði maður mundi einn ráða öllu í n. Mér hefur ekki dottið í hug, að hann mundi hafa meira vald en það, að hann gæti lagt atkv. sitt í vogarskálina, þannig að meiri hl. ráði ekki n. Ég viðhafði þau orð, að niðurjöfnunarn. væri fyrst og fremst einkamál kaupstaðanna, en ekki ríkisstj. Hv. þm. Vestm. þótti hér of djúpt tekið í árinni og nefndi tvö dæmi þess, að ríkið hefði vald umfram bæjarstjórnir, fyrst það, að niðurjöfnunarn. eru sett takmörk um hæð álagningar, og svo hitt, að menn geta kært til ríkisskattan. yfir álagningu útsvars. Þetta afsannar ekki á nokkurn hátt það, sem ég hef sagt í málinu. Það er vitað, að niðurjöfnun útsvara fer eftir útsvarsl., og svo er til sérstök n. eða yfirdómstóll, sem á að dæma um, hvort lagt hefur verið á skattþegna samkvæmt skattstiganum. En þó að það sé svo, að ríkisvaldið hafi sett þessi l. og áðurnefndur kærufrestur sé til, sé ég ekki, að það réttlæti, að Alþ. fari að skipta sér af því, eftir hvaða reglum bæjarfélögin skipa niðurjöfnunarn. sínar.

Þá eru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði út af brtt. minni á þskj. 457. Hann hélt því fram, að till. mundi stuðla að því að skerða rétt hinna stærri útgerðarfélaga til að leggja fé í nýbyggingarsjóð. Þetta er misskilningur, því að till. mín miðast við það, að framlag þessara útgerðarfélaga í nýbyggingarsjóð megi vera hin sama og áður, ef sjóðirnir eru komnir yfir 2 millj. kr., en hins vegar er samkv. till. minni tillag þeirra, sem hafa lægri sjóði en 2 millj. kr., aukið úr 1/6 í 1/3. Þetta vildi ég leiðrétta, en sé annars ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, enda er ég búinn með tímann.