19.04.1943
Efri deild: 3. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

3. mál, eignaraukaskattur

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að stytta mál mitt, ef með því móti mætti takast að koma þessu máli til 2. umr. á þessum fundi. En ég get ekki komizt hjá því að drepa á nokkur einstök atriði, sem fram hafa komið. Ég vil byrja með því að leyfa mér að mælast til þess við þá, sem hér ætla að tala, að þeir stytti mál sitt svo sem föng eru á, eins og ég mun gera, til þess að málið komist til n. í dag. Ég mun því ekki ræða einstök atriði, sem nokkuð var drepið á af hv. 6. þm. Reykv., en aðeins taka það fram, að ég tek þakksamlega öllum bendingum til bóta á frv., sérstaklega ef það mætti verða til þess, að það þætti sýnt, að framkvæmdin á málinu yrði öruggari með þeim breyt. og löggjöfin næði þannig betur tilgangi sínum.

Mér virðist nú annað veifið, enda þótt hv. 6. þm. Reykv. talaði með fyllilegri rökfestu og skynsemi um frv., að hann þó telji þetta miklu meira stórmál en það er í raun og veru. Hann lauk máli sínu, ef ég man rétt, eitthvað á þá leið, að þessi lagasetning væri einstök út af fyrir sig, ætti engan rétt á sér og hann mundi verða á móti henni. Hins vegar gæti hann hugsað sér lagasetningu eins og í frv. er stefnt að, ef hún væri liður í sáttagerð milli einstakra stétta í þjóðfélaginu. Og minnir það mig á grein, sem þessi hv. þm. hefur ritað í Morgunblaðið. En ef hann heldur, að þetta frv. og framkoma þess í þinginu sé á við einhvern Bastilludag, þá vex honum það mjög um of í augum.

Hitt undrar mig þó enn meir, að hv. 6. þm. Reykv. skuli ætla, að frv., ef að l. verður, fari í bága við stjórnarskrána, enda verð ég að segja, að hann vildi ekki hafa um það neinar fullyrðingar, og virðist mér það honum til sóma. Hins vegar virtist mér hv. þm. Barð. (GJ) ekki vera í eins miklum vafa um það, og hann hefur sínar ástæður til þess. En hæstv. ríkisstj. lagði fyrir síðasta þing frv. sama eðlis. Og þar sem sú hæstv. ríkisstj. sat þá og situr nú með forsæti manns, sem er lögmaður, og einnig skipuð þeim manni, sem er dómari í hæstarétti og fyrrverandi lagakennari, þá vona ég, að hv. 6. þm. Reykv. geti haft mig afsakaðan, þó að ég álíti, að slík ríkisstj. leggi ekki fram frv. í þessu efni, sem ríði í bága við stjórnarskrána.

Í öðru lagi vil ég minna á það, að 8. des. s. l. birtist yfirlýsing í Morgunblaðinu frá sjálfstæðismönnum í 8 manna n., þar sem greint var, hver boð þeir gerðu um 4 flokka samvinnu, og eitt atriði í tilboðum þeirra var það, að innheimta skyldi eignarskatt af eignaaukningu stríðsáranna í eitt skipti. Og ég efast ekki um, að ráðamenn Sjálfstfl. hafi, áður en þeir gáfu út þessa yfirlýsingu, athugað, að hún færi ekki í bága við stjskr. Að fenginni þessari yfirlýsingu verð ég að segja það, að mig furðar á því, að þessum hv. þm. skuli finnast svo mikið til um þær till., sem felast í þessu frv. Ég held einmitt, að till. þær, sem í frv. felast, séu shlj. þeim yfirlýsingum, sem Sjálfstæðisfl. var búinn að gefa í þessum efnum. Ég fæ ekki séð, að það sé hægt að gera neinn eðlismun á því, hvort þessar till. eru fluttar af þrem flokkum eða fjórum.

Þá talaði hv. þm. um friðhelgi eignarréttarins og minnti á ákvæði stjskr. þar um. Svo gerði hann samanburð á stjfrv. og frv. því, sem hér liggur fyrir, og taldi, að á þeim tveim frv. væri enginn eðlismunur. En það er hin mesta fjarstæða. Eignaaukaskattur í frv. stj. var ákveðinn 25%, en í þessu frv. er hann ákveðinn 30%, þegar komið er yfir 1 millj. kr. Í frv. stj. átti að verja þessum tekjum til þess að byggja stjórnarráðshús og fleiri slíkar byggingar, en hér er gert ráð fyrir, að þær renni til alþýðutrygginganna, verklegra framkvæmda o. s. frv. En ég get ekki hugsað mér, að það geri þann eðlismun, að þetta frv. geti talizt stjórnarskrárbrot, en stjfrv. ekki. Ég hygg því, að það sé fyrirsláttur einn, að óttast þurfi að þetta frv. fari í bága við ákvæði stjskr., og vil vænta þess, að það verði ekki látið draga úr fylgi við málið.

Þá sagði hv. þm., að eftir frv. stj. mætti ætla, að þessir skattar gæfu aukin verðmæti, en svo væri ekki eftir þessu frv. Þetta held ég, að sé alveg rangt. Með því að hefjast handa um ýmsar opinberar framkvæmdir nú, svo sem byggingu stjórnarráðshúss o. fl., eins og gert var ráð fyrir í stjfrv., getur það dregið úr þörfinni til skattaálagningar í því efni síðar. Hið sama gildir og um þetta frv., því að með því er tryggt, að eftir stríðið, þegar erfiðleikarnir verða meiri en nú, þarf síður að grípa til skatta í því skyni að auka byggingar og ræktun í sveitunum, reisa verkamannabústaði og annað slíkt, sem ætlazt er til, að þetta fé renni til. Það verður að nota það tækifæri, sem nú er fyrir hendi, til þess að leggja þessa skatta á, því að síðar verður það miklum mun erfiðara. Þá taldi hv. þm., að það væri ofmælt í grg. frv., að mikið af þessari fjársöfnun hefði orðið til án tilverknaðar þeirra, sem grætt hafa. Þetta er umdeilt atriði, en ég skal þá játa, að sú auðsöfnun hefði orðið minni, ef engin slík viðleitni hefði komið til. Enda er þess að gæta, að það er tekið fullt tillit til þessarar viðleitni, því að auk þess sem nýbyggingarsjóðirnir eru undanskildir með öllu, þá er ekki lengra gengið en svo, að hver skattþegn má halda eftir 80 þús. kr. skattfrjálsum. Þegar hv. þm. flutti þennan kafla ræðu sinnar, þá talaði hann eins og um það væri að ræða að taka allt það fé, sem safnazt hefði hjá þessum skattþegnum, en það er hin mesta fjarstæða, eins og ég hef þegar sýnt fram á.

Þá sagði hv. þm., að það væri enn síður ástæða til þess að leggja á þessa skatta, þar sem ekkert benti til þess, að auðsöfnunin væri svo ójöfn, að hætta stafaði af. Ég býst við, að okkur greini verulega á um þetta. Hvað auðsöfnunin er orðin mikil, er ekki hægt að sýna með sönnum tölum, en það er ekki minnsti vafi á því, að hún er geysilega mikil, og miklu hærri en tölur skattstofunnar segja til um. Þær segja ekki heldur til um það, hvað misskiptur auðurinn er. En það er bersýnilegt, að honum er ákaflega misskipt. Hv. þm. gerði að umtalsefni hag útgerðarinnar í þessu sambandi. Ég held, að ég muni það rétt, að eftir þeim skýrslum, sem frammi hafa legið um þetta, þá hafi 10 útgerðarfélög hér í Rvík átt innan við 4 millj. kr. í sjóði fyrir áramót 1939. En þessi félög hafa á árunum 1940–1941 lagt í nýbyggingarsjóð 5 millj. og í varasjóð 11 millj. eða fast að því ferfaldað sjóðseign sína á þessum tveim árum. Við þetta bætist svo árið 1942. Ef gert er ráð fyrir, að sjóðurinn hafi orðið svipaður það ár og meðaltal tveggja síðustu ára, þá eru eignir þessara félaga 25–26 millj. kr. Það er ekki til neins að neita því, að hér er um mikla auðsöfnun að ræða. En menn meta það auðvitað eftir því, hvaða skoðun þeir hafa á þessum hlutum, hversu heppileg þessi auðsöfnun sé.

Þá sagði hv. þm., að hér væri um fullkomið öryggisleysi að ræða fyrir skattþegnana. Ég vil ekki fallast a, að þetta mál gefi neitt tilefni til þeirrar ályktunar. Hér er aðeins um að ræða skatt, sem tekinn er í eitt skipti vegna hins sérstaka ástands, og við þurfum ekki að gera ráð fyrir því, að aðrir eins viðburðir og nú hafa átt sér stað, gerist í fjármálalífi okkar nema með mjög löngu millibili. Þess vegna vil ég undirstrika það, að ég álít ekki fært að hafa skattaálagninguna minni en gert er ráð fyrir í frv. einmitt vegna þess, að skatturinn verði á lagður í eitt skipti. Það er ekki ætlazt til, að hann verði á lagður undir venjulegum kringumstæðum. Hér er ekki um venjulega álagningu að ræða. Ég skal líka benda á það, að ég hygg, að hvergi muni það látið óhindrað af löggjöf, að jafn stórfelld auðsöfnun hlutafélaga eigi sér stað og raun hefur á orðið hér á landi. Í öðrum löndum er slík auðsöfnun hindruð, annaðhvort með því að haga verðlagi þannig, að auður myndist ekki, eða þá með því að taka með sköttum allt fé umfram visst hámark.

Þá sagði hv. þm., að form frv. væri mjög hæpið. Um þetta efni ber okkur sjálfsagt svo mikið á milli, að ég tel ekki ástæðu til að ræða mikið um það. Þó þykir mér rétt að benda á, að þó að skattstiginn eigi að vera sá sami fyrir alla, þá er það ekki svo í framkvæmdinni, vegna þess að viss stétt manna hefur aðstöðu til þess að gefa ekki upp allar eignir sínar. Þessu er ekki til neins að neita.

Þá sagði hv. þm., að hann teldi, að nokkur hluti þessa skatts ætti að renna til sveitarsjóðanna, ef hann yrði á lagður. Ég skil vel hans sjónarmið í þessu. En ég vil benda honum á það, að verði skatturinn á lagður eins og gert er ráð fyrir í frv., þá hefur hann sama gildi og ef féð rynni til bæjarsjóða, því að þetta er í rauninni ekkert annað en fyrirframgreiðsla til þess að létta útgjöld ríkissj. og bæjarsjóða. Hins vegar er ekki ætlazt til, að féð renni beint í ríkissj., heldur til sérstakra framkvæmda, sem ég hygg, að í flestum tilfellum sé kappsmál fyrir ríkið, að eigi sér stað. Ég álít hins vegar, að það væri ekki til bóta að breyta till. á þá leið, að þetta fé skiptist milli bæjarsjóða og ríkissjóðs.

Hv. þm. Barð. tók svo til orða, að í rauninni væri þetta frv. ekkert annað en framhald af því, sem gerzt hefur á undanförnum árum. Undanfarin ár hefði allt verið tekið af mönnum og nú ætti að taka eignirnar líka. Ég sé nú ekki, hvernig þetta fær staðizt. Ef allar eignir hafa verið teknar af mönnum undanfarin ár, hvernig á þá eignaauki að geta komið fram? Ég er hræddur um, að þetta tvennt fái ekki staðizt. Ég hygg, að stóryrði manna um hina gífurlegu skatta á undanförnum árum sýni það einmitt, að auðsöfnunin hefur orðið stórfelld á síðustu árum, og það dettur engum í hug að ætla, að auðsöfnunin hafi numið minna en á annað hundrað millj. kr. hin síðustu ár. Þessi auðsöfnun liggur sumpart í því, að skattal. heimila sérstaka auðsöfnun óskattaða; í öðru lagi eru skattarnir ekki hærri en það, að svigrúm er fyrir auðsöfnun. Í þriðja lagi hafa menn fundið leiðir til þess að koma eignum sínum undan sköttum, eins og ég drap á í fyrri ræðu minni. Þessi hv. þm. getur því fellt niður allt tal sitt um, að allar eigur manna hafi verið teknar með sköttum. Þegar þess er gætt, að eignaaukningin mun hafa numið um 150 millj. kr. þessi 3 ár, en í frv. er gert ráð fyrir, að þessir skattar nemi 15 millj. kr., þá sést, hvað lítið brot það er, sem tekið verður af þessum eignaauka.

Þá spurði þessi hv. þm., hvort ég hefði fengið loforð um, að frv. yrði samþ. í þinginu. Ég vil svara þessu neitandi.

Þá spurði hann, hvort launamenn mundu að fullu halda launauppbót sinni. Þessu hefur þingið þegar svarað með því að heimila ríkisstj. að greiða slíka launauppbót til næstu áramóta. Út af útreikningum þessa hv. þm: um það, hve óskaplega væri farið með ekkjurnar, skal ég ekki fara mörgum orðum. Ég vil þó aðeins benda honum á það, að ég veit ekki betur en tryggingarfé sé skattfrjálst, og gilda um það sömu ákvæði, hvort sem þessi skattur verður samþ. eða ekki. Ég man ekki betur en dánarbætur og slysatryggingar séu einnig skattfrjálsar.

Þá var þessi hv. þm. að vísa til orða hv. 6. þm. Reykv. um það, að ef þetta frv. yrði að l., þá yrðu þeir, sem athafnasamastir eru, mest fyrir sköttunum, en hinir, sem minni dugnað sýndu, slyppu við skattana. Ég fæ nú ekki séð, hvernig hv. þm. komast að þessari niðurstöðu. Þó að maður selji hlutabréf með þrítugföldu verði, þá lendir hann samt í skatti, og sé gróðinn undir 80 þús. kr., þá ber honum að greiða tekjuskatt eins og öðrum mönnum. Að mönnum sé gert erfitt fyrir að halda áfram starfsemi sinni, fæ ég ekki séð, þar sem ekki er gert ráð fyrir að hækka mat á fasteignum, sem hafa verið í eigu sama manns.

Þá upplýsti þessi hv. þm. það, að vélsmiðjur í Englandi mættu leggja 125% á vinnu og efni, en hér mætti álagningin ekki vera nema 40%. Einnig sagði hann, að Landssmiðjan hefði ekki grætt nema 17 þús. kr. 1941. Ég er svo heppinn að hafa fyrir framan mig ríkisreikninginn fyrir þetta ár, og ég fæ ekki betur séð eftir reikningnum en gróðinn sé talinn 340 þús. kr. Ég vildi ráða þessum hv. þm. að vanda betur til upplýsinga sinna en þetta, ef hann ætlar að fara að auðga þekkingu dm. í þessum efnum. Ég býst við, að hv. þm. hafi farið dálka villt, áætlunarupphæðin mun hafa verið 17 þús., en reynslan hefur orðið 340 þús. kr. Gæti nú ekki verið, að fleiri útreikningar hans væru byggðir á álíka traustum grundvelli og þetta? Hann sagði, að 5. gr. væri ekki sett í öðrum tilgangi en þeim að afla frv. fylgis, og taldi það mikinn galla á gr. Ég verð að játa á mig þá sök, að þetta er tvímælalaust rétt hjá þessum hv. þm. Þessi ákvæði eru sett til þess að afla frv. fylgis. Ég álít, að það muni greiða fyrir samþ. frv. að hafa þessi atriði eins og þau eru.

Í sambandi við það, sem talað hefur verið um minnkandi öryggi fyrir atvinnufyrirtækin, ef þessi skattur verður ákveðinn, vil ég minna á í sambandi við þá þróun, að atvinnurekendur dragi sig út úr atvinnurekstrinum, að því miður er nokkur ástæða til að ætla, að svo geti fleiri hugsað en stóratvinnurekendur, og þá þurfi meira að leita til hins opinbera um stuðning til atvinnuframkvæmda og leggja þurfi fram fé úr ríkissj. til útgerðarinnar. Og eigi það að verða meira en loforð, verður ríkissj. að vera þess megnugur að geta eitthvað gert í þessum efnum.