10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í C-deild Alþingistíðinda. (2983)

3. mál, eignaraukaskattur

Forsrh. (Björn Þórðarson) :

Herra forseti. Það eru aðeins fáein orð, sem ég vildi segja út af átölum hv. 6. þm. Reykv. á félmrn. fyrir það, að það hefur gefið út dálítið rit, sem útbýtt var á fyrstu dögum þingsins. Í formála þessa rits er gerð grein fyrir, hvers vegna það er gefið út. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Allmargar nefndir og aðrir aðilar eru nú starfandi að þeim málum, sem mætti nefna einu nafni félagsleg öryggismál, og er starfsvið ýmissa þessara nefnda allnáið. Þótti félmrn. rétt, að þm. og öðrum yrði gefið yfirlit yfir þann viðbúnað, sem stofnað hefur verið til í þessum efnum af hálfu þings og stjórnar“. Svo var mál með vexti, að á síðasta þ. og einnig í sumar varð ég þess var, að menn, sem störfuðu innan ýmissa n., töldu, að svið þeirrar n. næði inn á svið annarra n., og vildu þeir gjarnan fá glöggt yfirlit yfir það, hvaða n. væru starfandi að skyldum og sömu málum. Ég tók því það ráð að gefa yfirlit yfir þessar n., og er það yfirlit tekið upp í þetta rit, og eru 14 nefndir eða aðilar starfandi að þessum málum. Ég hygg, að það sé gagnlegt fyrir þingmenn að fá nú glöggt yfirlit yfir þessar nefndir.

Einn af þeim mönnum, sem af félmrn. var settur til að safna gögnum og vinna fræðilega að þessum málum, áður en ég tók við því ráðuneyti, er Jón Blöndal hagfræðingur. Okkur kom saman um, að þarflegt væri, að hann semdi fræðilega ritgerð um þessi mál í sem stytztu máli. Þetta gerði hann, og er það ritgerðin, sem hér er.

Hv. 6. þm. Reykv. benti á tvö atriði, sem hann virtist telja, að félmrn. mundi ekki geta staðið við. Annað er þetta: „Sennilega hefur tekjuskipting íslenzku þjóðarinnar verið jafnari, munurinn á lífskjörum minni en í flestum löndum öðrum, a. m. k. fram til síðustu ára“. Ég held satt að segja, að það hafi verið alveg föst skoðun flestra, að á Íslandi væri minna bil milli ríkidæmis og fátæktar en á nokkrum öðrum stað, en með „síðustu árum“ er átt við tímann, síðan styrjöldin hófst og tekjur manna og eignir fóru að verða meiri en áður. Ég held, að félmrn. geti staðið sig við að standa að útgáfu rits, sem þessi ummæli standa í. Hitt atriðið, sem hann minntist á, er þetta: „Síðan styrjöldin hófst, hafa meiri auðæfi safnazt í hendur einstakra manna og félaga en dæmi eru til áður í sögu landsins“. Það er skoðun okkar allra, að til séu félög og einstaklingar, sem hafa komizt yfir meiri verðmæti en þekkzt hefur áður. Einkum var það á árunum 1941 og 1942. Það hafa komið hér saman auðæfi, það sem við köllum milljónir, og vitnaði þingmaðurinn í 4 félög í því sambandi. En það getur verið, að það, sem við í ár köllum auðæfi, verði eftir ár auðn, ef dýrtíðin er látin leika lausum hala. Það getur verið, að þetta fé flói út aftur og það ástand, sem nú er, verði aðeins ævintýr.

En það gleður mig mjög, að hv. 6. þm. Reykv. hafði ekki meira né stórfelldara við rit þetta að athuga og að hann hefur lesið það gaumgæfilega. Þetta sýnir og, að Jón Blöndal og hv. 6. þm. Reykv. geta komið sér saman um fleiri atriði en margur hyggur. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég hygg, að félmrn. hafi unnið þarft verk með útgáfu þessa rits. (BBen; Því fer fjarri).