11.12.1943
Efri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2988)

3. mál, eignaraukaskattur

Bjarni Benediktsson:

Þetta mál var samþ. hér við 2. umr. síðari hlutann í gær. Nú eru komnar hér fram 2 brtt. við það, þótt ég hafi ekki séð nema aðra þeirra hér á borðinu. Á hvorugri þeirra hef ég getað áttað mig. Þá er og til athugunar, hvort ekki þurfi að bera fram enn víðtækari brtt. í sambandi við lausn skattamálanna í heild, er hafa nú fengið nokkuð aðra afgreiðslu á þinginu en von var á og búizt var við. Þar sem því þetta mál komst í gegnum 2. umr. í gær með því, að sumum þm. var varnað máls óbeint, þar sem þm. hafa enn ekki getað áttað sig á þeim brtt., er fram eru komnar, og von er á fleirum, og þar sem nauðsyn er á íhugun málsins í sambandi við afgreiðslu skattamálanna í heild, þá tel ég ekki fært að taka málið nú fyrir og mun greiða atkv. á móti afbrigðum, og það sama munu meðflokksmenn mínir væntanlega gera.