15.12.1943
Neðri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

3. mál, eignaraukaskattur

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi láta fylgja þessu máli fyrst og fremst nokkra athugasemd við rökstuðning þeirra hv. flm., sem að þessu nýstárlega máli standa. Ég man það, þegar þetta frv. kom fyrst fram hér í þ., þá fannst mér rökstuðningur þeirra hv. flm., sem að málinu standa, vera mjög ósanngjarn að verulegu leyti, hvað sem annars má nú segja um þá stefnu, sem frv. markar. Mér þykir sem sé mjög lítið vera gert, bæði í frv. sjálfu og í rökstuðningi fyrir því, upp á milli þess, hvernig þessi gróði er til kominn, sem ýmist er kallaður stórgróði eða stríðsgróði. En í rökstuðningi hv. flm. fyrir þessu frv. segir svo, að stórmikill hluti eignaaukningarinnar sé hreinn stríðsgróði, gróði, sem eigendum hafi fallið í skaut fyrir viðburðanna rás eingöngu. Þeir segja að vísu, að þetta eigi við alla meiri háttar auðsöfnun, og að mér skilst á hvaða tíma, sem er. En hér er þess að gæta, að á yfirstandandi stríðstíma er það að segja um gróðamöguleika ýmissa manna og fyrirtækja í landinu, að sumt af stórgróðanum hefur vissulega skapazt óverðskuldað fyrir viðburðanna rás eingöngu. En á hinn bóginn er það svo í sumum tilfellum, að það er alls ekki um þetta fyrirbæri að ræða, heldur hefur sá gróði, sem skapazt hefur, verið grundvallaður með margra ára starfi og oft og tíðum undir mjög erfiðum kringumstæðum. Ég held, að gleggstu aðgreininguna í þessu megi draga á milli þeirra manna, sem stundað hafa framleiðslustörf í landinu á undanförnum árum og í þessu tilfelli á undanförnum kreppuárum, og hinna, sem styrjöldin, og þá einkum hið svo kallaða „ástand“ hér á landi, hersetningin og allt, sem henni hefur fylgt, hefur fleytt í þá aðstöðu að geta mokað að sér stórfé, án þess að þeir hafi nokkuð í sölurnar lagt til þess að komast í þá aðstöðu í þjóðfélaginu að geta safnað þessum fjármunum og án þess að hafa barizt við nokkra þá erfiðleika, sem svipar til þeirra aðstæðna, sem atvinnurekendur allflestir, a. m. k. framleiðendur til sjávar og sveita, hafa átt við að búa. Tökum til dæmis allan þann herskara af fólki hér, sem á núverandi stríðstímabili hefur rakað saman fé á ómerkilegum veitingakrám, sem lítið ber á og lítið fólkshald þurfa, en eru þannig í sveit settar, að hernámið hefur veitt þeim aðstöðu til að afla stórfjár. Það þarf engan undirbúning eða sérhæfi til þess að geta stundað þessa atvinnu, að heita má engin tæki, en þó býst ég við, að þeir séu bókhaldsskyldir. Og lítum líka á þá menn, sem allt í einu urðu hér milligöngumenn um verklegar framkvæmdir á vegum setuliðsins, menn, sem græddu stórfé á því að slá upp auglýsingum í dagblöðunum og auglýsa t. d. eftir 30 til 300 verkamönnum, eftir því sem þörf krafði í hvert sinn, skrifa þá upp og láta aka þeim á vinnustaði setuliðsins, og tengu svo einhvern ákveðinn hundraðshluta af vinnulaunum þeirra manna fyrir þessi viðvik. Í þessum tvenns konar tilfellum, sem ég nefndi, má vissulega tala um gróða, sem skapazt hefur fyrir viðburðanna rás eingöngu. En það á aftur alls ekki við um annan flokk manna í landinu, sem hefur stundað heilbrigðari atvinnu, þ. e. atvinnugreinar, sem eru þess eðlis, að þær eru nauðsynlegar til þess að halda þessu þjóðfélagi uppi, svo sem bæði landbúnað og sjávarútveg. En þessir menn eru í frv. af þeim mönnum, sem gangast fyrir þessu eignaráni, settir á bekk með Bretasjoppueigendum hér í Reykjavík og þessum ágætu mönnum, sem gerðu sér það að atvinnu að safna saman verkamönnum, oft frá nauðsynlegum þjóðnytjastörfum, útvega þá í Bretavinnu og taka part af kaupi þeirra í sinn hlut. Í þessu eignaránsfrv. er m. ö. o. ekki gerður neinn greinarmunur á heiðarlegum atvinnurekendum í þessu landi og hinum, sem tæplega verðskulda það nafn, hvað sem um efni frv. má segja að öðru leyti. Ég verð að segja, að þeir löggjafar þjóðfélagsins, sem svo djúpt eru sokknir að gera engan mun á því, hvort peninga er aflað með störfum, sem eru öllu landsfólkinu til uppihalds, eða með hreinu og beinu „svindilbraski“ eða því, sem hliðstætt er því hugtaki, eiga sér ekki viðreisnar von, af þeim verður aldrei góðs að vænta. Hvernig er þjóðin stödd, ef sá hugsunarháttur fær að ráða?

Allan tímann frá 1930 til 1939 var sú reyndin, að útgerð varð tæplega rekin án þess að tapa. Þetta er svo kunnugt og viðurkennt af Alþ., að því verður ekki móti mælt. Bátaútgerðarmenn söfnuðu skuldum, sem hjá mörgum skiptu hundruðum þúsunda og hjá togaraútveginum milljónum. Þolinmæði bankanna var í mörgum tilfellum mikil, enda tóku þeir oftast að veði fyrir skuldunum allar eigur þeirra, sem í útgerðinni áttu. Útgerðarmenn lögðu sig og allt sitt að veði fyrir atvinnuveg sinn, — og loks kom að því, er afurðaverðið hækkaði, að skuldirnar varð unnt að greiða. Mér finnst það harla kaldranaleg rökstuðning, að það hafi aðeins verið fyrir rás atburðanna og engan tilverknað útgerðarmanna, að úr raknaði loks fyrir þeim. Mér finnst hart að leggja þá og þeirra fortíð að jöfnu við stríðsbraskarana, sem þutu upp í skjóli setuliðsvinnu og ástandsins í landinu, án þess að atvinna þeirra stæði á nokkrum eldri merg, yrði eða hefði verið til eflingar framleiðslugreinum landsmanna. Eignaaukaskattur, sem á þessi fyrirtæki yrði lagður, mundi ekki geta greiðzt á annan veg en þann hjá fyrirtækjum, sem hafa lagt eignaaukning sína í skuldagreiðslur, að þau yrðu að taka lán til að borga skattinn og steypa sér í skuldir að nýju. Raunar kann vera, að ekki þurfi þennan skatt til þess, að skuldirnar komi. Á síðustu vertíð voru bátar á Vestfjörðum víða reknir með tapi, og það sem skeði vestra á síðustu vertíð, getur skeð á Suðurlandi næsta ár. Svo er nú komið, að miklu meira er sótt á að selja vélbáta en afla þeirra. Það sýnir bezt straumhvörfin, sem orðin eru. Nú geta menn ekki gert ráð fyrir verulega góðri rekstrarafkomu. Menn verða að fara gætilega að því að rýja þann atvinnuveg eignum miskunnarlaust, sem stendur e. t. v. á mjög hættulegum tímamótum. Og hvað verður þá, ef honum er meira að segja hrundið strax með skattheimtu, er jafngildir eignaráni, út í gamla skuldafenið?

Það er alger misskilningur, að með eignaráni þessu sé betur tryggð afkoma og atvinna landsmanna framvegis. Undirstaða atvinnu og velgengni í þjóðskipulagi því, sem við höfum, er, að hægt sé að reka atvinnu með hagnaði. Með því og engu öðru er tryggt, að til séu í landinu einstaklingar, sem í eitthvað vilja ráðast og geta það. Hv. 2. þm. S.-M. (EystJ), sem hefur um margra ára skeið verið foringi þeirra, sem að flestum till. um aukna skatta hafa staðið, hefur orðið að viðurkenna, að við séum komnir að þeim takmörkum, sem að verði komizt í skattaálögum, lengra sé ekki fært. Brögð eru að, þegar barnið finnur og jafnvel hann.

Fyrir nokkrum árum ákvað ríkið að rétta út hönd sína til að styrkja menn til togarakaupa og það allmyndarlega. Fyrir þessu höfðu engir barizt eins og fulltrúar Alþfl. Þeim virtist það sáluhjálparatriði, að keyptir yrðu nýir togarar. En þegar féð hafði verið veitt, treystist enginn, og ekki heldur þeir, til að leggja í fyrirtækið af ótta við, að það bæri sig ekki. Það einkennir okkur Íslendinga, hvað við erum fljótir að gleyma. Flestir virðast hafa gleymt því, hvernig útgerðin var stödd fyrir stríðið.

Ég hef nú farið nokkrum orðum um dálítinn þátt þeirra grundvallarhugsana, sem frv. byggist á. Ýmsar greinar frv. hafa og gefið tilefni til rökstuddrar gagnrýni, og mun það sjást betur síðar. Það er náttúrlega ekkert nýmæli í þessu frv. að koma með bakreikning að skattþegnunum, krefja þá, eins og hér er gert, um skatt eftir á eða láta skattalög gilda aftur fyrir sig, eins og sumir orða það. Þessi aðferð hefur oft verið átalin af mér og öðrum, og hún er sérstaklega ósiðleg, ef það orð á við nokkra skattheimtu, sem þekkzt hefur. Undir skattamálaforustu 2. þm. S.-M. og Framsfl. hefur Alþ. gert sér þetta að leik. Aðferðir sem þessi miða að því að leggja í auðn atvinnulífið í landinu, og um skeið hafði mikið áunnizt í þá átt. Ekki er að undra, þótt margir dragi sig í hlé frá framleiðslustörfum og kysu heldur að fylla þann stórmennahóp, sem í opinberum skattskrám er talinn eignalaus; þótt allir viti, að þeir menn sumir vaða í peningum og eiga bæði lóðir, lönd og húseignir. Það er beinlínis hlaðið undir þessar aðferðir, sem eru mjög óhollar skattþegnunum í landinu, með því að fara með atvinnurekendurna eins og gert er í skattal., þar sem þau sælast aftur á bak, eins og gert er ráð fyrir, að þessi skattur geri. Það er mjög eftirtektarvert og sýnir glöggt, hvernig ástatt er í þjóðfélaginu, að menn, sem hafa árum saman setið í hæstlaunuðum embættum þessa lands og vitað er um að eiga lóðir og lönd og húseignir, og allir vita, að eru vel efnaðir, en telja ekki fram nægilega mikið til þess, að þeir þurfi að greiða skatt af því, vegna þess að þeir hafa lag á að falsa það á bak við aðra svo að ekki verði tekið af þeim, — þeir sýna þá furðulegu ósvífni og dirfsku að vera meðal flm. að þessu frv. Slíkir menn láta sér sæma að ráðast að stórum hluta atvinnurekendanna í landinu og krefjast af þeim skatta af fé, sem þeir hafa þegar greitt skatta af fyrir mörgum árum, enda þótt það sé vitað, að þessir atvinnurekendur hafa þurft að nota þetta fé til þess að losa sig úr skuldum og þurfa að taka ný lán, ef þeir eiga að greiða þessa skatta. Ég veit ekki, hvenær hægt er að segja, að óskammfeilni í skattamálum sé komin á hæsta stig, en ég fullyrði, er ég horfi á þetta frv. og suma flm. þess, þá sé hér komið mjög nálægt hámarki óskammfeilninnar.

Það þykir ef til vill ekki rétt að tefja tímann með því að fara út í einstakar gr. þessa frv., en það væri æskilegt að fá að heyra skýringar flm. á því, hvernig þeir hugsa sér að framkvæma álagningu þessa eignaaukaskatts. Það má vera öllum ljóst, að þótt um geti verið að ræða eignaauka með sömu tölum á pappírnum hjá tveimur mönnum, þá getur hann þó í rauninni verið mjög mismunandi. Hjá öðrum getur hann t. d. verið í dýrum húseignum eða öðrum fasteignum, en hjá hinum í peningum eða verðbréfum. Þeir hafa því mjög ólíkar aðstæður til þess að greiða skattinn.

Þar sem þannig er ástatt um, að jafnvel þótt eftir skýrslum og framtölum sé um sama eða svipaðan eignaauka að ræða á pappírnum, þá eru þó, dæmin svo mörg um það, hve ólíkar aðstæður eru fyrir hendi og hve ólíkt horfir við, að sé um raunverulegan eignaauka að ræða, að þau munu vera eins mörg og þeir menn, sem hlut eiga að máli. Sumt það, sem sýnist vera eignaauki á pappírnum, getur verið hreint ekkert, ef því hefur verið varið til þess að kaupa fasteignir eða annað langt fyrir ofan sannvirði.

Ég skal ekki þreyta hæstv. forseta meira, en ég vildi, að þessu máli yrði sýndur sá sómi í þessari hv. d., að á það væri minnzt við 1. umr. og þá sérstaklega sýnt, hvert það stefnir og að hverju það muni draga. En það stefnir að því að kippa fótum undan öllum frjálsum atvinnurekstri í landinu.

Þá finnst mér líka rétt, að hv. flm. sé sýndur sá sómi, að þeirra sé minnzt að nokkru, þegar þetta nýmæli þeirra kemur fyrst fram hér í hv. d. Það hefur dregizt um of að taka þá rækilega til athugunar, þessa herra, sem standa hér að því að leggja háa og sífellt aukna skatta á landsmenn, en láta útsvarsskrána í Reykjavík tala allt öðru máli um þá sjálfa. En þjóðin kann svo lítið að hneykslast, og þeir virðast ganga upp í því að notfæra sér það. En margt, sem fer hér fram í skattamálunum, er sannarlega hneykslunarhella fyrir þá, sem hafa augun opin og þora að nefna það, sem þeir sjá. En það eru til ýmsir í þjóðfélaginu, sem treysta á þetta getuleysi þjóðarinnar til þess að hneykslast. Ég átti eitt sinn erindi upp í skattstofu til þess að grennslast eftir álagningu og „skala“ og fékk greið og góð svör við því, en ég gerði mér það til gamans að nota tækifærið um leið til þess að spyrja einn af helztu starfsmönnum skattstofunnar — rétt eins og sá, sem ekki veit, en mér datt það í hug af því að ég var kominn þarna, — að því, hvernig gæti staðið á því, að menn, jafnvel hér í bænum, sem við höfum daglega fyrir augunum og hafa aðstöðu til þess að eignast hús, lóðir og lönd, þeir standa svo í skattskránni, að þeir eiga ekki einu sinni skuldlausar þessar 5 þús. kr., sem ekki þarf að greiða skatt af. Þessi ágæti starfsmaður svaraði bara með stakri rósemi: „Þeir telja það þá líklega ekki fram“. Meiri skýringu fékk ég ekki, og er ég spurði, hvort það væri látið nægja, fékk ég aðeins svarið: „Ef enginn kærir“. Ef árveknin á þessum hærri stöðum er ekki meiri en þetta, þá fer ég að skilja, að menn geti átt hér hitt og annað, jafnvel hús og lönd, sem við göngum á og höfum fyrir augunum, fyrir svo utan verðbréf og þvíumlíkt, þótt skattskýrslurnar sýni, að þeir eigi því nær ekki neitt.