11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í C-deild Alþingistíðinda. (3048)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Það var aðeins út af fyrirspurn hv. þm. Eyf. Hann spurði að því, hvaða ástand mundi skapast, ef till. mín á þskj. 136 yrði samþ. og n. kæmist ekki að samkomulagi um grundvöll. Það mundi ekki skapast annað ástand en það að mínum dómi, að þá mundi gamli grundvöllurinn gilda. En hins vegar held ég, að það sé ekki nein ástæða til þess að ætla, að n. mundi ekki komast að samkomulagi um þetta, vegna þess að ekki mundi annað koma til greina en að hún mundi hlíta reikningslegum niðurstöðum, sem hún kæmist að. En verði ekki samkomulag, hlýtur gamli grundvöllurinn að gilda samkvæmt l., því að í 3. málsgr. 4. gr. l. stendur: „Nú verður nefndin sammála um vísitölu framleiðslukostnaðar landbúnaðarafurða og hlutfall milli verðlags á landbúnaðarafurðum og kaupgjalds stéttarfélaga, og skal þá verð á landbúnaðarafurðum ákveðið í samræmi þar við, meðan núverandi ófriðarástand helzt. Þó er ríkisstj. heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði“. Ég held, að þetta sé alveg skýlaust, en óski hv. þm., að þetta sé tekið skýrar fram, mundi ég ekki hafa neitt á móti því. En úr því að ég stóð upp, vildi ég aðeins segja honum, að það er ekki rétt hermt, sem hann sagði, að ég hefði haft eftir honum. Ég skýrði ekki þannig frá ræðu hans, að hann hefði sagt í öðru orðinu, að það mætti breyta l., en í hinu, að það ætti ekki að breyta þeim. Það, sem ég hafði eftir honum, var þetta: Í fyrsta lagi, að það mætti breyta l., ef allir væru sammála. Í öðru lagi, að út af fyrir sig hefði hann ekkert á móti þessari breyt. á þskj. 135, en það mætti ekki samþ. hana, vegna þess að hún hróflaði við dýrtíðarl., og það mætti með engu móti gera, að minnsta kosti ekki nú. Það var þessi röksemdafærsla, sem mér þótti harla bágborin. Ég gerði mér allt far um að hafa þetta rétt eftir. Ef mér hefur mistekizt, þá er það ekki vegna þess, að ég hafi viljað hafa rangt eftir. Ég gerði það eftir beztu samvizku.