13.12.1943
Neðri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (3113)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forseti (JörB):

Sjáanlega kemur mönnum ekki saman um það, hvort málið skuli taka fyrir nú eða fresta því að taka það fyrir. Vil ég því láta hv. þd. skera úr um það.

Ég veit, að hv. þm. Siglf. er það kunnugur þingsköpum, að honum er innan handar að vita, að ekki var neitt ranglega að farið, þótt ekki væri hlýtt óskum hans fyrr um þetta mál. En hann hefur alls ekki beðið um það, að forseti léti hv. þd. skera úr um það, hvort þetta mál skyldi tekið fyrir til umr. Hann hefði getað borið fram ósk um slíkt, og þá — (ÁkJ: Ég hef gert það einu sinni eða tvisvar). Ekki um að láta d. skera úr um þetta. En hann hefur óskað eftir því einu sinni eða tvisvar, að þetta mál yrði tekið fyrir og að d. væri látin skera úr um það. (ÁkJ: Þetta er algerleg misbeiting á forsetavaldi). Það er þvert á móti. Og þó að hv. þm. Siglf. langi til að narta í forseta, á hann ekki að láta sem hann þekki ekki þingsköp til þess að geta komið sínu fram.

Þetta verður því borið undir hv. þd. Það er langréttast, að deildin segi til um þetta, en að forsetavaldi sé ekki beitt eins og á stendur. Því að fallist deildin ekki á að taka þetta mál á dagskrá nú, þá verður málinu haldið áfram.