16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í D-deild Alþingistíðinda. (3359)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að blanda mér í umr. um þessa þáltill. En vegna ýmissa ummæla, sem hér hafa fallið, vildi ég segja örfá orð. Það er þó ekki tilgangur minn að fara hér út í almennar umr. um dýrtíðarmálið, því að það tel ég þýðingarlaust á þessu stigi málsins, vegna þess að það mundi ekki leiða til neinnar nýrrar niðurstöðu. En ég vil víkja örfáum orðum að þessari þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 672.

Þessi þáltill. ber það með sér, að hún er flutt eftir ósk hæstv. ríkisstj. Og hún er flutt af 4 hv. þm. úr fjhn. beggja d. sem fulltrúum stærstu flokkanna hér á þingi. Ég skoða flutning þessarar þáltill. sem staðfestingu og viðurkenningu á þeirri skoðun, sem hefur verið haldið fram hér á Alþ. og áreiðanlega meiri hl. hv. þm. hefur fylgt, að ríkisstj. hafi ekki haft heimildir samkv. dýrtíðarl. til þess að halda lengur áfram greiðslum úr ríkissjóði til að borga niður dýrtíðina og þess vegna sé það svo, að um leið og hæstv. ríkisstj. lætur flytja þessa þáltill. og hún verður samþ., sem gera má ráð fyrir, að verði, þá komi það í sama stað niður sem það frv. hefði verið samþ., sem ég taldi sjálfsagt, að samþ. yrði, og meiri hl. var fyrir hér á þinginu, svo að ekki væri um það að villast. En samkv. þessari þáltill. er gefið, að hæstv. ríkisstj. lítur svo á — sem og allir, sem samþ. þessa þáltill., að slík heimild sé ekki fyrir hendi, heldur þurfi að leita hennar.

Ég skal svo að fáu einu víkja að því, sem hér hefur sagt verið. Hv. samstarfsmaður minn í fjhn., þm. V.-Ísf., hélt hér langa ræðu í dag og sagði margt réttilega, en sumt, sem ég er ekki samþykkur, og skal ég ekki minnast á annað en eitt atriði. Hann tók fram, að það væri sinn vilji, að hæstv. ríkisstj. hefði verið gefin heimild til þess að greiða niður dýrtíðina, t. d. til 15. febr. n. k., og þá yrði búið að taka aðrar ákvarðanir. Um leið og þessi þáltill. er samþ., lít ég svo á, þó að það sé ekki einskorðað í þáltill., að hún þurfi ekki undir neinum kringumstæðum að gilda lengur en þessu svarar, vegna þess að þó að næsta Alþ. sé ætlað að standa í rúman mánuð og það sé tekið fram í þessari þáltill., að hún gildi, þangað til Alþ. gerir aðrar ráðstafanir, þá hefur þingið nægilegt tækifæri, ef það á annað borð getur komið sér saman í þessu efni, til þess að vera búið að gera þær ráðstafanir á þeim tíma. Og ég lít svo á, að þær sé einmitt nauðsyn að gera, því að það ástand, sem nú ríkir á þessu sviði, getur ekki haldizt lengi.

Ég skal taka það fram, að ég álít, að þær útflutningsuppbætur, sem þegar er búið að samþykkja, séu óviðkomandi þessu máli, vegna þess að þær eru allt annað en niðurborgun á vöruverði á innlendum markaði. Og þessi niðurborgun, sem framkvæmd hefur verið og ætlazt er til, að haldið verði áfram, hún er óvinsæl meðal margra stétta þjóðfélagsins. Ég vil ekki orða það sterkara. Og sérstaklega er það ekki viðunandi til lengdar, að ekki séu settar einhverjar reglur, annaðhvort í lagaformi eða á annan hátt, um það, hvernig þetta eigi að framkvæma, ef svo verður, að hæstv. Alþ. ætlast til, að þessi aðferð verði framkvæmd til langframa. En ég vildi fyrir mitt leyti mega vænta þess, að á þessu tímabili, sem líður þangað til næsta þing kemur saman, verði hæstv. ríkisstj. búin að láta rannsaka þau atriði, sem fjhn. beggja d. þingsins spurðu um í sambandi við það skattafrv., sem hæstv. ríkisstj. lagði fram nú fyrir nokkrum dögum. Og ef upplýsingar liggja fyrir um þau atriði og að öðru leyti rannsókn á því, hvort ekki séu aðrar heppilegri leiðir færar á þessu sviði, þá virðist mér, að næsta Alþ. muni standa miklu betur að vígi um að gera haldbetri ráðstafanir en þær, sem framkvæmdar hafa verið til þessa.

Varðandi það, sem hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að sér virtist, að hæstv. ríkisstj. væri nú að verða þingræðisstjórn með meiri hl. hæstv. Alþ. að baki sér, þá vildi ég nú mega spyrja þann hv. þm. og aðra, sem hugsa á svipaða leið, hvort honum finnist, að það beri beinlínis vitni um þingræðislegan styrk hæstv. stj., sem nú hefur skeð, að hún leggur fyrir Alþ. skattafrv., sem er það veigamesta frv., sem hún hefur lagt fram á síðari hluta þingsins, og að það frv. fær ekki afgreiðslu. Mér finnst þetta benda frekar til þess, að engin ríkisstj., sem hefði þingræðislegan meiri hl. að baki sér, mundi ljúka þinginu upp á þær spýtur. — Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um það mál. En ég hef gert grein fyrir, á hvaða grundvelli ég greiði þessari þáltill. atkv. mitt.