28.09.1943
Sameinað þing: 15. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (3461)

41. mál, nýbýlamyndun

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef oft áður hér á Alþ. látið í ljós mína skoðun um efni náskyld þessari þáltill. og mun því ekki verða langorður nú, en ég vildi þó ekki láta málið fara fram hjá mér við þessa umr.

Það er margendurtekið mál, að það þurfi að rækta löndin, og það er sífellt komið með það hingað í þ. eins og deilumál, en ég fullyrði, að það sé álit allra þm., að það beri að leggja mikla áherzlu á ræktun landsins. Hins vegar hafa menn ólíkar skoðanir á því, hvernig þessu skuli hagað. Það er svo um landbúnað eins og annan atvinnurekstur, að menn líta fyrst á, á hvern hátt hann geti orðið arðvænlegur. Það eru engin rök hjá hv. þm. V.-Sk., að landbúnaðurinn hafi verið það, sem um aldir hafi haldið lífi í þjóðinni. Við vitum, að það var ekkert líf og að enginn vildi búa við það nú. Búskaparhættir Íslendinga hafa tekið þeim stakkaskiptum, að ekki er hægt að mæla með sama kvarða nú og fyrr á öldum. Lífsnauðsynjar eru nú framleiddar til útflutnings, því að kröfur fólksins og ríkisins eru slíkar, að þeim verður ekki fullnægt nema með innflutningi fjölbreyttra vara. En ef ætlunin er að skapa skilyrði fyrir sveitafólk til góðrar afkomu, er bezt að reyna að gera sér grein fyrir, hver þau skilyrði eru. Mér virðist þá í fyrsta lagi, að menn ættu að geta haft sæmilega stór bú. Það er alveg sama, hvað hátt afurðaverðið er, ef bóndinn hefur svo lítið bú, að það getur ekki framfleytt honum. En þá verða jarðarnytjarnar að vera nokkuð miklar. Annað skilyrðið fyrir sómasamlegum arði er, að markaður sé fyrir hendi fyrir afurðirnar, því að enginn ætlast til, að bóndinn lifi eingöngu á því, sem bú hans getur framleitt. Hann verður að geta selt talsverðan hluta og jafnvel meiri hluta afurðanna og keypt aðrar lífsnauðsynjar fyrir.

Það hefur gengið mjög illa að selja þá landbúnaðarframleiðslu, sem nú er til í landinu, og hefur orðið að grípa til ýmissa óheilbrigðra ráða til þess að sjá bændum fyrir a. m. k. kostnaðarverði. Það lítur því svo út sem það ætti frekar að vera hagkvæmt fyrir landbúnað Íslands, að það væru færri menn, sem mættu sitja að framleiðslunni, en að þeim væri fjölgað. Ef þeir geta ekki selt afurðir sínar á haganlegum tímum, er það sýnilegt, enda kom það bezt í ljós fyrir stríðið um kjöt- og mjólkurframleiðslu, að það er til óhagræðis að vera að hvetja nýja menn til búrekstrar. Það á að leggja áherzlu á ræktun þeirra jarða, sem fyrir eru, en ekki búta jarðir niður í smábýli.

Ég sé ekkert á móti því, að till. fari til n., en ég er mótfallinn þeirri stefnu, sem till. gefur tilefni til að halda, að fyrir flm. vaki, að tína þær jarðir út úr, sem helzt væri hægt að reka lífvænlegan búskap á, og búta þær niður.

Þegar verið er að tala um, að það eigi að fylla sveitirnar af búandi mönnum, er ekki hægt að komast hjá að minnast á, hvernig komið er um beitilönd landsmanna. Landið er að verða uppurið, og margir bændur eru í vandræðum með beitilönd. Margir þm. hafa farið um Norðurlandsveginn og séð sömu hryggilegu sjónina og ég, hestana á Öxnadalsheiði. Sú sjón er skýr mynd af því, þegar skepnur standa í svelti um hásumarið, hvað þá þegar vetur sverfur að. Það er manni minnisstætt að sjá aumingja hrossin á þessu napurlega fjalllendi híma í stórhópum og hafa enga beit. Það er rétt, að menn athugi, þegar talað er enn um að fjölga búunum, hvað beitilöndin geta borið mikinn búpening.

Ég held, að rétta stefnan sé að hjálpa til að rækta þær jarðir, sem fyrir eru, og það verður bezt gert með því að vinna að því að gera lendurnar véltækar og koma húskosti í sæmilegt horf, svo að allur búpeningur og hey geti verið undir sama þaki.

Ég skal ekki fara út í neinn samanburð á landbúnaði og sjávarútvegi. Það er óþarfi að taka slíkan samanburð upp sem þrætumál í því formi, að þessir atvinnuvegir séu hvor öðrum fjandsamlegir keppinautar, en ég verð að mótmæla þeim orðum hv. þm. V.-Sk., að sjávarútvegurinn hafi orðið að fá stærsta styrkinn, sem veittur hafi verið, þegar ísl. krónan var verðfest. Það voru hans flokksmenn, sem það mál sóttu fastast, en sjávarútvegurinn hefur ekki mætt því ástríki úr þeirri átt, að mér detti í hug, að það hafi verið til hjálpar honum sem verðfestingin var gerð, enda hjálpaði hún sama og ekkert og var frekar til bölvunar. Á þessum erfiðu árum sjávarútvegsins brauðfæddi hann þó mikinn hluta þjóðarinnar beint eða óbeint. Hann gaf af sér mest af því, sem þjóðin keypti sér lífsnauðsynjar fyrir erlendis frá. Það er því einkennilegt að heyra alþm. líkja öflun sjávarafurða við gullæðið í Ameríku. Við byggjum að sönnu framtíð okkar að töluverðu leyti á landbúnaði og iðnaði, en vonir okkar um menningarlíf í landinu eru þó fyrst og fremst tengdar við það, að sjávarútvegurinn geti verið sú fjárhagslega stoð, sem menning okkar geti staðið á. Þetta er ekki sagt til miska öðrum atvinnuvegum, heldur er þetta eðli málsins, þar sem við búum við heimsins beztu fiskimið. Hins vegar eru náttúruskilyrði hér ekki hagkvæm fyrir ræktun og við á því sviði illa samkeppnisfærir á erlendum markaði.