04.10.1943
Sameinað þing: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (3464)

41. mál, nýbýlamyndun

Þóroddur Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru nokkuð einkennilegar umr., sem hér hafa farið fram út af þáltill. þeirri, sem hér um ræðir. Því er ekki að neita, að vissir þm. hika ekki við að leyfa sér að fara út í brigzlyrði um andstæðinga sína og snúa út úr orðum þeirra, þótt alvarleg mál séu á ferð. Sjaldan hefur þó verið gengið eins langt og nú. Það, sem fyrst og fremst hefur borið á milli, svo að maður komist að kjarna málsins, er það, hver af atvinnuvegum landsmanna sé traustastur. Flm. leyfði sér að staðhæfa, að það væri, hefði verið og mundi verða landbúnaðurinn, en engin rök færði hann fyrir máli sínu. Þegar ég hélt því fram, að sjávarútvegurinn væri traustastur atvinnuvega okkar, færði ég nokkur rök fyrir því í minni ræðu. Aftur á móti gerði flm. enga tilraun til að færa rök fyrir sínum staðhæfingum, en reyndi í stað þess að snúa út úr því, sem ég sagði. Hann sagði, að reynsla væri fengin fyrir því, að mjög hæpið væri að byggja á sjávarútveginum fyrir þjóðina. Hann vildi líkja honum við gullæði, sem grípur fólk, svo að það streymir til landsvæða, þar sem gull hefur fundizt, en flestir hefðu gripið í tómt. Hins vegar er sannleikurinn sá, að á síðustu áratugum hefur landbúnaðurinn þurft að fá milljónir króna á ári hverju, sem sjávarútvegurinn hefur orðið að standa undir. Þrátt fyrir þetta líkti hann sjávarútveginum við gullæði, en hélt því fram, að okkar eina fasteign væri landið og landbúnaðurinn væri og yrði traustastur á að byggja fyrir fjöldann. Á fiskimiðin líta þeir smáum augum, þótt þau séu ein hin beztu í heimi. Hv. þm. Mýr. kom inn á spursmálið, hvort auka ætti framleiðslu íslenzkra landbúnaðarafurða og um markaði fyrir þær. Ég er honum sammála um, að ekki komi til nokkurra mála að leggja út í þetta, ef aðrir atvinnuvegir þurfa að borga með þessari atvinnugrein. Ef sýnt er því, að einhverjar atvinnugreinar geta ekki borgað sig, á að draga þær saman. Hins vegar hef ég aldrei haldið því fram, að leggja ætti landbúnaðinn niður, þótt ég telji sjávarútveginn traustastan. Þvert á móti álít ég, að okkur beri að styðja hann.

Annað stórt deiluatriði er hér, sem ég vil fara nokkrum orðum um. Það er um, að í framtíðinni verði komið upp nægilega mörgum smábýlum víðs vegar um land. Ég álít, að til þess að landbúnaðurinn verði lífvænleg atvinnugrein, eigi að koma upp stórum samfélagsbúum, útbúnum nýtízku vélum. Hins vegar er ég mótfallinn smábýlum með nokkurra dagslátta landi, dreifðum út um sveitir landsins. Óréttlát ásökun er það, þegar okkur er brigzlað um fjandskap í garð bænda, því að of mikla hluttekningu hef ég í þeirra garð til þess, að það sé gert, og tel einmitt sjálfsagt að efla landbúnaðinn og gera hann að lífvænlegri atvinnugrein. Við megum bara aldrei gleyma þeim atvinnuvegi, er færir okkur mesta auðlegð. Hv. þm. V.-Sk. segir, að landbúnaðurinn sé alls staðar nauðsynlegur og að Rússar viðurkenni þetta. Mér finnst það hlægilegt, ef hann ætlar sér að líkja saman svartmoldarhéruðum Rússlands og íslenzku moldinni. Það er ekki nema eðlilegt, að Rússar telji landbúnaðinn sinn arðvænlegasta atvinnuveg, þar sem land þeirra hefur að bjóða einhver hin beztu skilyrði til jarðræktar og akuryrkju. Aftur á móti hafa bændur hér á landi einatt átt við að stríða hin erfiðustu jarðræktarskilyrði. Mér finnst þetta því mjög slæm röksemdafærsla hjá honum.

Að lokum er það einn útúrsnúningur hjá hv. þm. V.-Sk., sem mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um. Hann leyfir sér að staðhæfa, að ég hafi sagt, að landbúnaðurinn væri þjóðhættulegur og bændur væru þjóðhættulegir menn. Það er undarlegt, að nokkur maður skuli leyfa sér hér á Alþ. að viðhafa slíkan málaflutning og slík ósannindi. Það er svo langt í frá, að mér hafi dottið nokkuð slíkt í hug, og er þetta því tilhæfulaust þvaður, sem enginn fótur er fyrir. Ég álít hins vegar, að þeir menn, sem leyfa sér slíkan málaflutning, séu þjóðhættulegir menn, og það væri því tilhæfulaus uppspuni og ósanngirni að setja bændur í sama númer, því að það er vitað mál, að þeirra hugsunarháttur er öðruvísi. Mér mundi aldrei detta til hugar að setja þá í sama númer og mann, sem hefur seilzt til valda og öllum er kunnugt um, að er gamall nazisti og það ekki af betra taginu. Það er einmitt hann og fleiri menn, sem hafa gert flokkinn eins og hann er. Vona ég, að forseti misvirði það ekki við mig, þótt ég svari í sama tón, því að umgetinn þm. gaf tóninn. Formaður Búnaðarfélags Íslands var einnig að ræða þetta mál, að vísu af meiri sanngirni en hv. þm. V.-Sk., en þar gætti þó sömu þröngsýninnar eins og einkennir flesta framsóknarmenn. Þeim er svipað farið í þessu máli, hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Mýr. Þm. Mýr. mælti miður sæmilegum orðum í minn garð og vildi halda því fram, að ég sæi stöðugt rautt. Það er því líkast sem hann hafi ekki hlustað á ræðu mína, heldur á ræðu Sv. þm. V.-Sk. (SvbH) og hugsað, að hann segði satt, er hann flutti sinn svívirðingavaðal. Ég sagði, að það væri sorglegt, þegar síldin veður inni í fjarðarbotnum fyrir Norðurlandi og ausa má upp með snurpinót svo sem hver óskar, að þá skuli einn og einn maður vera að hjakka á hálfbrunnum þúfnakollum með ljáspík. Slíkar aðfarir eiga ekki rétt á sér nú á tímum. En sé landbúnaðurinn rekinn með þeim áhöldum og aðferðum, sem samsvara atvinnutækjum notuðum við síldveiðarnas, þá vil ég meina, að hann geti átt rétt á sér. Hv. þm. V.-Sk. lýsti því, hversu svikull væri sjávarafli og hversu sjávarútvegurinn hefði iðulega brugðizt. En þetta hnekkir engu um þá staðreynd, að sjávarútvegurinn er nytsamasti atvinnuvegur þjóðarinnar, og þó hann hafi stöku sinnum brugðizt, þá er jafnfráleitt að dæma hann eftir því og það væri að leggja niður landbúnað, þótt miður gangi í einn tíma en annan.

Þm. Mýr. lýsti því skáldlega, hversu mikilsverður landbúnaðurinn væri í þjóðfélagi voru og hversu farið hefði fyrir Hrafna-Flóka, er hann gáði ekki að afla heyjanna. En þetta hefði hann getað sparað sér, ef hann hefði hlustað á mína ræðu. Ég fordæmdi alls ekki landbúnað og er fullkomlega sammála þm. Mýr. um það, að við verðum að endurskipuleggja landbúnaðinn. En fyrsta skilyrði fyrir slíkri endurskipulagningu er, að landbúnaðurinn taki í sína þjónustu stórvirk verkfæri og vélar, og það er ekki framkvæmanlegt á smábýlum, dreifðum um afskekktustu og óbyggilegustu svæði landsins. Því í ósköpunum viðurkennir þm. Mýr. ekki nauðsyn stórbúa og samyrkjubyggða, þar eð það er ófrávíkjanleg staðreynd, að stórvirk vinnutæki eru ekki nothæf á smábýlum?

Um nýbýlalögin er það að segja, að þau eru svo stórlega misheppnuð, að þau hafa engum til gagns orðið nema þar, sem þau hafa verið brotin eða farið í kringum þau, en því miður hafa svo fáir haft tækifæri til slíks og þá helzt ekki nema framsóknarmenn. Ég hygg, að réttast væri að láta þetta mál ekki fara lengra, en fela Búnaðarfél. að gera það, sem réttast og hentast þykir því viðvíkjandi.