02.11.1943
Sameinað þing: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

109. mál, vinnutími í vaga- og brúavinnu

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég gat ekki verið við þessar umr. frá byrjun og hef því ekki heyrt allt, sem hér hefur verið fram fært þessari þáltill. til framdráttar og henni til andmælis, og þess vegna getur eitthvað af því, sem ég segi hér, orðið endurtekning á því, sem sagt hefur verið. En ég tel rétt að kveðja mér hljóðs um þáltill. sem þessa, því að hún felur í sér annað og meira en það eitt, hvaða samninga skuli fyrirskipa af hálfu ríkisstj. — með vegamálastjóra sem framkvæmdamann — við verkalýðsfélögin eða Alþýðusamband Íslands. Ef þáltill. yrði samþ., fælist í henni hrein og bein yfirlýsing Alþ. um það e. t. v. mest umdeilda mál, sem kann að verða hér á næstunni, hvort vinnutími almennra launþega, hvort sem þeir vinna daglaunavinnu eða aðra vinnu, skuli vera átta tímar á dag eða lengri eða skemmri. Nú er það svo, að með átta stunda vinnudeginum, sem kominn er inn í samninga hjá, að ég hygg, allflestum verklýðsfélögum, þá er samt sem áður unnið, eins og allir vita, á tímum eins og þessum miklu lengur. En það, sem fram yfir átta stundir er unnið, er unnið með öðru kaupi. Eftir að átta stundirnar eru liðnar, kemur nýr kauptaxti til. En svo er rétt að geta þess, að víðast í átta stunda vinnudeginum er það í raun og veru ekki nema í 7½ stundir, sem unnið er yfir daginn í dagvinnunni, því að víðast hvar í samningum koma kaffitímar til frádráttar, svo að raunverulega dagvinnan er ekki nema 7½ tíma.

Nú skil ég, að hér er ætlazt til þess, að það verði eitthvað til þess að greiða fyrir samningum, ef þáltill. sem þessi verður samþ. á hæstv. Alþ. En ég hygg nú samt sem áður, að það væri ekki leiðin til þess að greiða fyrir samningum að gera ályktun sem þessa. Við höfum þá sorglegu reynslu af því, þegar Alþ. hefur ætlað að grípa inn í þessi viðkvæmu mál, launamál verkamanna, hvort sem er til lands eða sjávar, að það hefur hleypt illu blóði í þá, sem hafa átt að semja við atvinnurekendur. Og samþykkt þessarar þáltill. mundi frekar torvelda samninga við verklýðsfélögin en greiða fyrir þeim.

Hér er rætt um það, að einhver stirfni hafi átt sjer stað af hálfu framkvæmdarvalds ríkisins í vegavinnu um að greiða fyrir mönnum með að vinna af sér vinnuvikuna á fimm dögum, og það mun nokkuð vera til í því, sem um það hefur verið sagt hér. Og ef óánægja hefur verið í þessu efni af hálfu verkamanna, hefur hún verið út af því, að þeir gátu ekki fengið að vera við heimili sín sjötta vinnudaginn, á laugardögum, þar sem stutt var heim til þeirra frá vinnustaðnum, því að þá hefur langað til að nota sjötta daginn til þess að vinna fyrir heimili sín eða annað. En fyrir það mun hafa verið lokað með því að neita um, að menn fengju að vinna af sér vinnuvikuna á fimm dögum.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta mál. Það hefur sennilega haft við sín rök að styðjast af hálfu vegamálastjóra, sem hann gerði í málinu, eða af hálfu ríkisstj., — að svo miklu leyti sem hún hefur við þetta mál komið. En hin leiðin var ekki farin, sem ég hygg, að hefði verið auðfarin, að greiða eftirvinnukaup þeim mönnum, sem fúsir voru til að leggja á sig meira en svaraði átta stunda vinnu á dag í sex daga yfir vikuna, fyrir það, sem þar var fram yfir, — með tilliti til þeirra manna, sem unnu langt frá heimilum sínum. En það er vitanlegt, að það er mjög óvíða, sem atvinnurekendur hafa ekki orðið að láta vinna meira en átta stundir á dag, og er það vegna þess, að verkefnin hafa verið nóg. Og þeir hafa flestir samninga um það að greiða eftirvinnukaupgjald fyrir þann tíma, sem verkamenn vinna umfram átta tíma á dag. Og ég býst við, að fullkomin ánægja hefði verið meðal vegavinnumanna, þótt ekki hefði verið nema ein klst. til viðbótar þessum átta tímum, sem vinnan hefði verið höfð á dag. Og þegar samið var um hitaveituframkvæmdirnar hér í bænum, þá var fyrst meiningin að láta vinna átta stundir á dag og ekki meira hjer í bænum. En viðvíkjandi þessari vinnu varð samkomulag um níu tíma vinnu á dag, þannig að einn tími skyldi verða greiddur með eftirvinnukaupi. Og oft hefur orðið að láta vinna í hitaveitunni miklu lengur en þessa níu tíma. Þetta sama var vegamálastjóra í lófa lagið að gera. Og þá hefði náðst það, sem mér virðist vaka fyrir tillögumönnum, að þá hefði fengizt meiri vinna, — að vísu með nokkru meiri greiðslu.

Hin hliðin á þessu máli, sem ég vil gera hér að umtalsefni, er sú, að það er rúmt ár, síðan hér á hæstv. Alþ. var samþ. að láta fara fram athugun á og gera till. um, hvernig lögskipa mætti átta stunda vinnudag hér í landinu. Nefnd hefur verið sett í þetta mál, og enn þá hefur hún ekki getað fundið þann grundvöll, sem hún vildi byggja á til þess að gera tillögur. Ég er í þeirri n., og af hálfu n. hefur verið leitað til verklýðsfélaganna innan lands í þessu sambandi, og leitað hefur verið upplýsinga erlendis frá um skipan þessara mála og eins um það; hvað nú muni vera efst á baugi meðal erlendra þjóða að gera í þessum efnum upp úr styrjöldinni, sem nú stendur yfir. Og ég geng þess ekki dulinn, að við Íslendingar verðum sannarlega að fara að kasta frá okkur gömlum lummum í þessum efnum að binda vinnutíma verkamanna við þann vinnutíma, sem áður tíðkaðist á þessu landi. Spá mín er sú, að hinn nýi heimur, sem rís upp af þessari styrjöld, verði þannig, að hlutskipti verkamannsins verði nokkuð annað en verið hefur, og m. a. í því, hvað hann þarf á dag að strita fyrir sínu daglega brauði. Og ég held, að við Íslendingar ættum að hlusta vel eftir því, sem gerist um þessi efni meðal stórþjóðanna, og ekki ganga fram fyrir skjöldu um að reyna að gera að engu það, sem verklýðssamtökin í landinu hafa verið að berjast fyrir um áratugi, því að eitt þeirra höfuðstefnumark var að koma á átta stunda vinnudegi á flestum eða öllum vinnustöðum landsins. Og ýmsar menningarþjóðir komu þessari skipun á hjá sér fyrir löngu, og hafði hún lánazt vel. Og svo rísa hér upp ungir menn á Alþ. og segja: Nei, Alþingi Íslendinga skal nú vinna að því að gera það óvirkt, sem samtök verkalýðsins hafa barizt fyrir í áratugi, að komið hefur verið á átta stunda vinnudegi. Frá sjónarmiði þessara manna var þetta skiljanlegt, því að þetta var atvinnurekendasjónarmiðið að hafa vinnudaginn tíu stundir — og jafnvel tólf stundir í okkar tíð, sem nú erum miðaldra.

Ég skal engu um það spá, hve mikinn hljómgrunn slík þáltill. sem þessi fær hér á hæstv. Alþ. En ég vil hafa allan varann á um það, að ef menn ætlast til þess, að þetta eigi að greiða eitthvað fyrir samkomulagi, þá mun það reynast alveg öfugt að minni hyggju. Ég hygg, að það mundi heldur torvelda, að nokkurt samkomulag gæti náðst í þessum efnum. Ef hér er eitthvað, sem lagfæra þarf, væri það hægt á annan hátt en með þessari þáltill.

Með hliðsjón af því, að þessi þáltill. fari til n., skal ég ekki hafa fleiri orð um þetta mál.