05.11.1943
Sameinað þing: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

27. mál, fjárlög 1944

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil aðeins minnast á nokkur einstök atriði, en áður en ég byrja á þeim, vil ég segja það til leiðbeiningar hæstv. forseta, að ég hef gist á mörgum prestssetrum, þar sem er verr hýst en á Brjánslæk. Ég skil ekki þá stefnu hæstv. ríkisstj. að vilja hækka risnu við biskup til að hækka hans laun. Það er sitt hvað risna og laun. Risna er fé, sem látið er út aftur handa gestum, og það fé er skattfrjálst. Risna sú, sem biskup þarf að halda uppi, er að taka á móti prestum, gefa þeim kaffi, vindil og slíkt. Hæstv. ríkisstj. metur þetta á 5000 kr. á ári. Nú eru það ekki ákaflega margir prestar, sem koma til biskups, og yfirleitt koma prestar hingað helzt, þegar synodus stendur. Ef hæstv. Alþ. fellst á að láta biskup hafa þetta fé skattfrjálst, hvernig eiga þá skattan. að fara að við heildsala, sem taka á móti fleiri gestum á skrifstofum sínum á einum degi en biskup á heilu ári? Og svo allir þeir menn á landinu, sem þurfa að taka á móti gestum, — hvað eiga þeir að fá? Það hefur verið afstaðan að undanförnu, að það bæri að skera af þessu fé, nú kemur hæstv. ríkisstj. með það, að biskup, sem hefur lítið með risnufé að gera, eigi að fá allverulega upphæð í þessu skyni. Það er allt annað, hvort biskup er látinn fá risnufé eða launauppbót. Ef ætlunin er að láta hann fá launabót, þá get ég ef til vill fylgt því, þegar ég er búinn að athuga það. En hann hefur ekkert að gera með risnufé, og ég vona, að hæstv. Alþ. samþ. það ekki.

Það var litið svo á af hæstv. forsrh. og fleirum, að sjálfsagt væri að greiða húsaleigu fyrir prestana í Reykjavík á sama tíma og prestar annars staðar á landinu eru látnir borga sína húsaleigu. Hæstv. forsrh. sagði, að hún væri lág. Hvers vegna? Af því að ríkisstj. hefur ekki látið fara fram endurmat, sem á þó að gera á nokkurra ára fresti samkv. l. Ég veit ekki betur en búið sé að byggja og kaupa hús yfir tvo Reykjavíkurprestana, án þess að Alþ. hafi mælt með því og beint á móti vilja fjvn., en prestar, sem búa í húsi eins og á prestssetrinu Brjánslæk, verða að borga húsaleigu. Ég vissi vel, hvað ég gerði, þegar ég var með því, að þessi liður félli niður.

Hv. þm. Dal. hefur talað rækilega um 18. gr., en ég vil bæta því við, að eitt af því fyrsta, sem almenningup krefst, er réttlæti í því, sem gert er. Nú er það svo, að þeir menn, sem eru í 18. gr. á eftirlaunum, teljast ekki njóta fátækrastyrks. Þess vegna tel ég mikið undir því komið, að ekki komi fram mikið óréttlæti í úthlutun smáupphæða í 18. gr., en slíkt óréttlæti tel ég, að komi fram í því, að Sigurður Magnússon fyrrv. yfirlæknir er látinn hafa 2000 kr., en allir aðrir læknar 1000 kr. Ég vil því taka undir með hv. þm. Dal. og fara þess á leit við flutningsmenn ýmissa hækkunartill., að þeir lofi hv. fjvn. að samræma þessar upphæðir og ráða, hverjar þær verði.