17.09.1943
Neðri deild: 18. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

48. mál, verðlag

Ingólfur Jónsson:

Með frv. því, er hv. þm. Siglf. (ÁkJ) flytur hér ásamt hv. 1. landsk. þm. (SG), er farið fram á það að svipta verðlagsn., sem hafa ákveðið verð á landbúnaðarvörum, valdi sínu til verðákvörðunar, og er vísað í því sambandi til dýrtíðarl., sem samþ. voru á síðasta þingi. Það má vel vera, að eins og nú horfir við, þá sé síður ástæða til þess, að verðlagsákvörðunin sé í höndum þessara n. heldur en áður hefur verið. En það er ástæðulaust að afnema þann rétt með l., sem n. hafa til þess að ákveða verð á landbúnaðarvörum. Verð það, sem sex manna n. hefur ákveðið, gildir ekki nema til eins árs í senn, og er óvíst, hvað verða kann eftirleiðis í því efni.

Annars er ekki nýtt að heyra rætt um þessi mál í sama tón og kommúnistar nú gera. Það er enn verið að tala um, að verð á landbúnaðarafurðum á síðasta hausti hafi verið sett of hátt. Og þetta er sagt þrátt fyrir staðfestingu sex manna n. á því verði. En það má stagast svo á þessu, að fólk fari að trúa fjarstæðunum, sem haldið er fram um þetta, og berja höfðinu við steininn og neita að viðurkenna staðreyndirnar.

Hv. þm. Siglf. sagði hér áðan, að kjötverðlagsn. hefði með öllu afsalað sér því valdi, sem hún hafði til verðlagningar á kjöti að þessu sinni. Ég vil upplýsa, hvernig málið horfir við frá sjónarmiði kjötverðlagsn. Hún áleit, eins og málið stóð, að ógerningur væri fyrir hana að ákveða verð á kjöti nema í samráði við ríkisstj. Ástæðan til þess er sú, að samkvæmt till. sex manna n. er gert ráð fyrir því, að bændur fái kr. 6.82 fyrir hvert kg af kjöti án tillits til þess, hvar þeir búa á landinu. Undanfarið hefur sama útsöluverð verið á kjötinu, hvaðan af landinu sem það hefur verið. En bændur hafa ekki fengið jafnt verð fyrir það, heldur notið eða goldið þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa til þess að koma vörunni á markaðinn. Ef kjötverðlagsn. því ákveður sama útsöluverð á kjöti, hvaðan af landinu sem er, verður útkoman sú, að bændur fá ekki jafnt verð fyrir kjötið, heldur fá þeir meira, sem minna kosta til þess að koma því á sölustað, og hinir, sem erfiðari aðstöðu hafa, fá þá minna en kr. 6.82. Þá er tilgangi sex manna n. ekki náð. Kjötverðlagsn. ákvað því, hvaða kostnaður þyrfti að vera á kjötinu á framleiðslustað til þess að ná réttu verði, og gerði till. um það til ríkisstj. Ríkisstj. gerði ráð fyrir, að kostnaðurinn þyrfti að vera 88 aurar á kg. og kjötverðlagsn. gat fallizt á það. Hins vegar skrifaði n. ríkisstj. og taldi upp ýmsa kostnaðarliði, sem leggjast á kjötið, ef salan fer ekki fram á framleiðslustað, og reyndist sá kostnaður vera 84 aurar á kg. Þótt kostnaðurinn því yrði aðeins 88 aurar miðað við heildsöluverð, þar sem aðstaðan er bezt, þá yrði hann kr. 1.72 þar, sem aðstaðan er verst. Nú hafa sumir sagt, að rétt væri að taka meðaltal af þessu. En þá hefði útkoman samt sem áður orðið sú, að þeir, sem hafa verstu aðstöðuna, gætu ekki fengið kr. 6.82 fyrir hvert kg., en hinir meira en kr. 6.82. Slíkt handahóf vildi n. ekki hafa og sá, að hún gat ekki verðlagt kjötið nema með aðstoð ríkisstj. Og þess vegna lagði n. til, að ríkisstj. greiddi flutningskostnað á kjötinu, eins og hann kynni að verða. Og það, sem vakir fyrir kjötverðlagsn., er að tryggja bændum, hvar sem þeir eru og hvaða aðstöðu sem þeir hafa, kr. 6.82 fyrir kjötið, því að hún álítur það skyldu sína.

Ég held, að frv. þeirra hv. þm. Siglf. og hv. 1. landsk. þm. sé með öllu óþarft. Og meira að segja er það óþarft frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja taka valdið af þessum nefndum bænda að fullu og öllu, því að það er vitanlega fjarstæða að halda fram, að það verði nokkurn tíma borgað meira verð fyrir afurðirnar til bænda heldur en það, sem landbúnaðarvísitölun. ákvað. Þó að mjólkurverðlagsn. ákveði kr. 1.70 verð á mjólkina, þá hefur ríkisstj. það í hendi sér að borga ekki meira en þörf er á. Og verðlagseftirlitið hefur í hendi sér að athuga, hvaða kostnaður verður á dreifingu varanna. Það er því ástæðulaust að óttast um það, að bændur fái hærra verð fyrir afurðir sínar en þeim er ætlað að fá af landbúnaðarvísitölun. Ríkisstj. hefur í hendi sér að borga ekki meira en þarf, og verðlagseftirlitið getur heimtað að fá að skoða reikninga mjólkursamsölunnar og mjólkurbúanna. Og ríkisstj. getur hlutast til um, að kjöt verði ekki flutt óþarflega milli hafna og að ekki leggist á það meiri kostnaður vegna flutnings en nauðsyn krefur: Þess vegna vil ég endurtaka það, að þetta frv. er óþarft — frá sjónarmiði þeirra manna einnig, sem vilja taka valdið í þessum efnum af bændum. En við, sem vinnum fyrir bændur og teljum, að rétt sé, að þeir hafi hönd í bagga um og ráði verðlagi landbúnaðarvara, við viljum ekki afsala bændum þeim rétti til þessarar verðlagningar, sem þeir hafa haft, hvorki í nútíð né framtíð.

Ég vil þess vegna leggja til, að þetta frv. verði fellt og það strax og því verði ekki vísað til nefndar.