21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Nú er mjög framorðið, og skal ég ekki verða margorður. Ég lít svo á, að þetta pex hv. framsóknarmanna sé orðið sjálfsagður þáttur í meðferð allra merkari mála og líklega illskást að umbera það með þögn og þolinmæði. Sú skoðun er þar uppi, að Eimskipafélagið hafi drýgt einhverja misgerð með því að hagnast á erlendum leiguskipum 1943. Hitt er sannleikurinn, að sá gróði félagsins var eitthvert allra mesta happ, sem fyrir landið hefur komið. Að stríðinu loknu verður það með allra erfiðustu hlutverkunum að sjá fyrir nægum siglingum. Um það verður ekkert samkomulag milli þjóða, heldur hörð samkeppni, þar sem búast má við, að þær þjóðir, sem geta haft ódýrasta flutninga, geti brátt „keppt út“ þær þjóðir, sem hafa gömul og óhentug skip og skuldug útgerðarfyrirtæki, sem megna ekki að endurnýja skipastólinn, hlaðin vaxtagreiðslum og álögum.

Ég býst við, að það verði ekki véfengt, að Eimskipafélagið þurfi að byggja 6 eða 7 skip. Það fé, sem því hefur áskotnazt, hrekkur hvergi nærri fyrir því. Auk þess býst ég við, að litið verði til þess sem eina fyrirtækisins, sem fært sé um að taka að sér flutninga á hraðfrystum fiski á markað. Hér vantar skip með kælirúm nema það litla, sem er í Brúarfossi. Vitað er það um gróðann 1943, að hann varð ekki af íslenzkum skipum, á þeim varð tap. Farmgjöld á þeim voru því sízt of há, og þannig var gróðinn ekki tekinn af almenningi með því að setja farmgjöld óeðlilega há. Þetta verður að viðurkenna til að geta skilið, hvert happ þjóðina henti í það sinn. Í öðru lagi er vitað, að landsmenn hefðu soltið í hel, ef félagið hefði engin skip haft í förum.

Þetta er ekki fyrsta sinn, sem Framsfl. sýnir Eimskipafél. hug sinn og vill koma því undir ríkið. Tilgangurinn var að ná því undir sig til þess að geta misnotað þetta félag eins og öll félög, sem sá flokkur hefur náð á tökum, og geta beitt því með sín markmið fyrir augum. Ráð á 1/2 hlutafé eru meir en nóg, því að dreifðir hluthafar mæta aldrei allir á fundum. Þá var tillagan sú, að styrkur, sem félagið hafði til strandferða, skyldi reiknast sem hlutafé. Þá var sett n. til að rannsaka, hvort félagið græddi á strandferðum. N. komst að því, að félagið beið sífellt tap af strandferðunum, stundum svo að nam hundruðum þús. kr. Í þessari n. var m.a. hæstv. forseti þessarar d. Við þetta þagnaði kliðurinn um, að styrkurinn yrði hlutafé. Og þessi öfund, sem fram hefur komið hjá þessum flokki fyrr og síðar, stafar af því, að þessi félagsskapur virðist vera óvinnandi borg fyrir Framsfl. til þess að misnota hann. Það má kannske segja, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, sé frekar „principmál“ heldur en það hafi praktíska þýðingu. Það er nú fyrst og fremst vitað, að félagið mun ekki greiða hærri arð heldur en 4%. Það er vitað, að það mun halda áfram rekstri sínum í þágu alþjóðar. Það er vitað, að félagið hefur ákveðið að verja gróða sínum til þess að auka skipastólinn og gera landsmönnum mögulegt að flytja til landsins og frá því. Þetta er allt vitað og einnig það, að félagið hefur ekkert grætt á því ári, sem var að líða, og næsta ári á undan ekki svo, að neinu næmi. Það eru því ekki nein fríðindi, þótt það sé gert skattfrjálst fyrir árið, sem leið. Og það má heita útilokað, að það geti grætt á yfirstandandi ári. Þetta er því ekki praktískt mál, en það hefur mikla óbeina þýðingu. Því að með samþ. þessa frv. stj. er það staðfest, sem alltaf hefur verið samþ. á Alþ., að félagið er skoðað sem alþjóðarfyrirtæki, sem eigi að koma fram við á allan hátt í samræmi við þá siðmannlegu framkomu, sem félagið hefur alltaf sýnt með starfsemi sinni. Og það mun verða til þess að staðfesta þann hugsunarhátt hjá yfirráðamönnum þess, að þeim ber ætíð að starfa á þeim grundvelli, að félagið sé ekki einkahagsmunafyrirtæki, heldur fyrirtæki, sem vinnur að öryggi og hagsmunum alþjóðar.

Ég hef ekki mikla tilhneigingu til að blanda mér inn í þann ágreining, sem varð á milli hv. 2. þm. S.-M. og hæstv. samgmrh., varðandi sinnaskipti Framsfl. En það er alltof skoplegt mál, til þess að hægt sé að ganga framhjá því. Hv. 2. þm. S.-M. stóð hér og signdi sig, eins og hann og hans nánustu eru vanir að gera, þegar þeir ætla þar inn fyrir, sem þeir eiga ekki að koma, og sagði, að þeir framsóknarmenn hefðu alltaf verið samkeppnismenn. Einu sinni man ég eftir því að þeir uppnefndu Sjálfstfl. og kölluðu hann samkeppnisflokk, því að þeim finnst sjálfsagt að uppnefna alla, sem eru á móti þeim. (SvbH: Gerir Sjálfstfl. það ekki?) Ég var aðeins að tala um Framsfl. Eða álítur hv. þm., að ef maður hefur í frammi óknytti, þá sé sjálfsagt fyrir Framsfl. að vera ekki eftirbátur í því? Framsóknarmenn uppnefndu Sjálfstfl., svo að árum skipti, og kölluðu hann samkeppnisflokk. En nú ætlar hv. þm. að gera sig heilagan með því að segja, að hann sé samkeppnismaður. Hvað sýnist mönnum um þetta? Og það er alveg rétt, sem hæstv. samgmrh. tók fram í ræðu sinni, að nú tala framsóknarmenn ákaflega mikið um frjálsa verzlun, frjálsa samkeppni og skattalækkanir. Þetta eru nú aðalmálin. En þetta er þó flokkurinn, sem hefur hætt aðra fyrir að vera samkeppnismenn, flokkurinn, sem hefur beitt sér fyrir höftum og böndum meir en nokkur annar flokkur og skaðað Íslendinga um milljónatugi með haftatrú sinni, illu heilli. Og þetta er flokkurinn, sem frægur er fyrir mestu skattakúgun, sem þekkzt hefur í landinu. Þeir eru ekki spéhræddir þessir menn. En nú hlær líka hver Íslendingur, þegar þessir sömu menn koma fram og gera þessi mál að sínum aðalmálum. [Fundarhlé kl. 7,40–9 síðdegis.]