21.02.1945
Neðri deild: 134. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (1222)

283. mál, skattgreiðslur h/f Eimskipafélags Íslands

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Mér finnst ég verða að svara þeim tveim hv. þm., hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. S.-M., sem töluðu hér á undan mér, með nokkrum orðum, af því að hæstv. forseti hefur ekki amazt við því, að minnzt væri á skattamálin almennt, sem að vísu eru þessu máli óviðkomandi, þar eð hér er til umr. skattfrelsi ákveðins félags, en ekki skattamál almennt.

Þeir minntust báðir á það, að mér hefði ekki farizt að vera að bera Framsfl. sökum fyrir framkomu hans í skattamálunum. Ég gat þess, sem alkunna er, að Framsfl. var búinn að geta sé,r landsfrægð fyrir skattaálögur sínar, og um margra ára skeið stóð deila milli Framsfl. og Sjálfstfl. um þessi mál, þar sem Sjálfstfl. hélt því fram, að skattaálögurnar væru meiri en landsmenn gætu borið, en Framsfl. virtist hins vegar aldrei verða saddur af að leggja á skatta, — og það, þegar þjóðin var sízt fær um að bera þá. Hv. 2. þm. S.M. sagði í lok ræðu sinnar, að núv. ríkisstj. væri að leggja á þunga skatta og það í góðæri, og sýnir þetta, hvernig hugsunarháttur hans er, þegar um skattaálagningar er að ræða. Hann álítur réttara að leggja þunga skatta á í harðæri. Það er ekki hægt að búast við heilbrigðri skattapólitík af hendi manns, sem er svo gersamlega varnað skilnings á þessum málum. — Hv. þm. V.Húnv. sagði, og hv. 2. þm. S.-M. endurtók það, að þjóðin hefði aldrei fengið yfir sig þyngri skattaálögur en þær, sem núv. ríkisstj. hefði lagt henni á herðar, og hv. 2. þm. S.-M. sagði, að ég ætti ekki að minnast oftar á skattamálin, því að það ætti aldrei að tala um snöru í hengds manns húsi.

Ég sé hér enga snöru eða gálga nema þann, sem Framsfl. sjálfur dinglar í, því að Framsfl. er nú til hliðar lagður í íslenzkri pólitík, m.a. fyrir stórsyndir sínar í skattamálunum. Þó held ég, að þessi flokkur hafi aldrei gert sig hlægilegri fyrr en hann samþ. lög vegna landbúnaðarafurðanna, sem hafa í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, sem skipta tugum milljóna króna, en svo þegar núv. ríkisstj. kemur til valda og á að standa við þessa samninga sína og Framsfl., þá rísa þeir nær allir upp á móti hæstv. ríkisstj. Þeir vilja ekki, að aðrir efni loforð sín. Ég veit ekki, hvernig hugsunarháttur þeirra er, ef þeir geta samþ. þung útgjöld fyrir ríkissjóð, en neita síðan næsta dag að samþ. leiðir til þess að afla ríkissjóði tekna upp í þessi útgjöld. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur hafið göngu sína með því að leggja þungar skattaálögur á þjóðina; hún hefur ekki setið nema örskamma stund og verður að biðja þjóðina um fjármuni upp í það mikla fen, sem aðrir hafa stofnað til og fyrst og fremst Framsfl. (EystJ: Við höfum ekki haft fjmrh. síðan 1939.) Framsfl. hefur ekki ráðh. í ríkisstj. lengur. Ég þarf ekki að strika yfir nein stór orð frá fyrri tíð og held því fram, að í skattamálum þjóðarinnar eigi að gæta hófs eins og annars staðar, en held því jafnframt fram, að ef einhver ríkisstj. hefur drýgt syndir í fjármálum þjóðarinnar, þá verði þjóðin að afplána þær, hver sem hefur drýgt þær, og eigi að standa við allar þær skuldbindingar, sem gerðar hafa verið, og það er aðeins það, sem núv. hæstv. ríkisstj. er að gera. Þá vildi hv. 2. þm. S.-M. halda því fram, að ég hefði farið með ósannindi, þegar ég hélt því fram, að Framsfl. hefði verið óvinveittur Eimskipafélaginu. Ég held, að það þýði ekkert fyrir hv. þm. Framsfl., sem hér hafa talað, að vera að breiða yfir þetta, því að öllum er of kunnugt um, að þessi flokkur hefur einatt borið kala til Eimskipafélagsins. Það þýðir ekki að vitna í það, að samvinnufélögin hafa haft mikil viðskipti við Eimskipafélagið, því að það sáu ekki aðrir fyrir flutningum til landsins, að heita mátti. Hitt er líka alkunna, að Eimskipafélagið hefur oft orðið að dekra við samvinnufélögin, þegar það hefur ekki getað annað flutningum til landsins.

Ég vil að lokum segja þessum hv. þm., sem töluðu hér á undan mér nú eftir matarhléð, að það er alger óþarfi að vera að tala um geðvonzku í mér. Ég veit ekki betur en að ég hafi orðið fyrir þeirri miklu gleði að sjá flokk þessara hv. þm. víkja burt af umráðasviði stjórnar landsins; hlýtur því hver maður að skilja, að ég er í góðu skapi. Ég sé, að þessi óhappaandi er horfinn burt af valdasviðinu, og veitir slíkt mér mikla hamingju. Hitt get ég skilið, að þeim sé þungt innanbrjósts, sem nú liggja undir dómi og búast ekki við honum of mildum og vita ekki, hvort þeir verða nokkurn tíma leystir úr því fangabúri, sem þeir nú sitja í.