16.12.1944
Efri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (2343)

203. mál, olíugeymar o.fl.

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég geri ekki ráð fyrir að hafa mjög langa framsöguræðu fyrir hönd n., enda er ég illa til þess fallinn, úr því að ég er nærri mállaus vegna hæsi.

Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar, en þó hefur gengið nokkuð erfiðlega — sjálfsagt vegna annríkis í þinginu — að fá n. fullskipaða á fund. Og þegar málið var afgr. í n., var það afgr. af 3 nm., má því segja, að það sé meiri hl. n., sem leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. En öðrum nm., sem ekki gat mætt á fundi, gaf ég kost á að skrifa undir nál., og hann gerði það, en þó með fyrirvara vegna þess, að hann átti ekki kost á því að setja sig inn í málið.

Það kom til tals í n., hvort þessi breyt., sem hér er gerð um það, að viss flokkur hlutafélaga væri undanþeginn skatti og útsvarsskyldu, gæti ekki haft áhrif á það, að fleiri tegundir hlutafélaga teldu sig hafa ástæðu til þess að óska slíkra leyfa. Hvað, sem um það má segja, er það tvímælalaust, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, er svo skýrt og ákveðið, að það gefur ekki að neinu leyti ástæðu til undanþágu fyrir aðrar tegundir hlutafélaga heldur en olíusamvinnufélög. Og þar af leiðandi er hættulaust að samþ. þetta frv., þannig að aðrir komast ekki undir þessi ákvæði. Þetta vorum við 3 nm. sammála um. Hitt er alveg óskylt mál, og því verður ekki svarað hér, hvort fleiri tegundir hlutafélaga óska eftir slíkum hlunnindum. Og yrði þá hæstv. Alþ. að taka ákvörðun um það á sínum tíma, ef það skyldi koma fyrir. En það virðist óhjákvæmilegt að gera þessa breyt. á l. um olíugeyma. Ég hef komizt að því, síðan málið var til 1. umr., að það er í fleiri tilfellum en ég þekkti þá, sem svo stendur á, að ekki er hægt að mynda olíufélög sem samvinnufélög, og verður þá að mynda þau sem hlutafélög, því að auðvitað verður að skrá félögin.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þetta mál mitt lengra. Ég geri ráð fyrir, að sá velvilji, sem l. um olíugeyma sættu hér í þinginu á sínum tíma, sé enn þá fyrir hendi og menn viðurkenni nauðsyn þess, að á sem allra flestum stöðum, og ekki sízt smærri stöðum, verði stofnuð olíufélög, en þar er erfiðast að koma samvinnufyrirkomulaginu á fót.

Við 3 nm. leggjum því eindregið til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. En um 4. nm., sem hér er staddur í d., er það að segja, að hann vildi hafa óbundnar hendur um frv.