28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að hefja umr. um þetta mál, en ég tók svo eftir áðan, að hv. þm. Barð. hefði orð á því, að menntmn. hefði ekki átt að hafa þetta mál til meðferðar.

Ég tel, að slíkar yfirlýsingar þurfi að styðjast við einhver rök; ella eru þær eins og utanborðsmótor, sem gutlar á yfirborðinu.

Það er rétt, að ágreiningur varð í n. um þetta mál. En ég vil spyrja hv. þm. Barð., hvort hann hafi nokkuð það fram að bera í þessu máli, sem allir fallast á.

Það er nú svo, að þessi hv. þm. hefur einatt borið fram brtt., en þær hafa ekki allar verið samþ. og hafa jafnvel stundum fremur þótt lýsa hvatvísi en djúpri athugun og hafa því ekki verið metnar sem algilt vizkunnar orð. Það kom hér fram munnleg till. áðan um að vísa þessu máli til sjútvn., og þótt það væri ekki í alvöru mælt, þá gæti maður ætlað, að sjálfsgleði sumra nm. í sjútvn. væri svo mikil, að þeir féllust á þetta.