28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

119. mál, áburðarverksmiðja

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér inn í þetta mál, en ég vil aðeins benda á, að þessi áburðarverksmiðja hefur verið mjög lengi á leiðinni og að bændur hafa, eins og eðlilegt er, gert sér miklar vonir í sambandi við byggingu og rekstur hennar. Er það og mjög að vonum, að bændur hafi mikinn áhuga á að verksmiðja þessi verði reist, svo erfiðlega sem oft hefur gengið að fá nægan áburð. Vekur það því mikla furðu, þegar annars vegar kemur þetta frv. frá ríkisstj. og hins vegar setur hún fram nýsköpunarplönin.

Það kom mér mjög undarlega fyrir í fjvn., þegar stjórnin var að undirbúa fjárlögin og verið var að athuga, hvað ætti að leggja til að skera niður, að þá kom hæstv. fjmrh. með þá till. að skera niður fjárframlög til áburðarverksmiðjunnar. Hann sagði, að við skyldum sjá, hvernig færi með málið í þinginu. Það gefur tilefni til að halda, að landbn. flytji þetta frv. að fyrirlagi ríkisstjórnarinnar og að hún leggi svo fyrir, að málinu skuli frestað um óákveðinn tíma.