28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

119. mál, áburðarverksmiðja

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 5. landsk. sagði, að það þyrfti vitanlega enga karlmennsku til þess að tala í hreinskilni og segja frá hlutunum eins og þeir væru, t. d. eins og hann tók fram í sinni ræðu, að hann vildi, að þetta verksmiðjumál yrði betur rannsakað, áður en ráðizt væri í framkvæmdir, hvort verksmiðjan bæri sig. Hann sagðist vilja, að hlutirnir væru athugaðir vel, og hvort þeir bæru sig eða ekki.

Það er rétt, að fyrir mönnum eins og hv. 5. landsk. þarf ekki kjark og karlmennsku til þess að tala í hreinskilni. En aðrir menn virðast hafa þá skoðun til að bera.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það væri útúrsnúningur, þegar ég hafði upp orð hv. 5. landsk., að þetta sé vitanlega til þess gert, að frv. sé nægilega athugað og hvort eigi að ráðast í slíka byggingu fyrr en eftir stríð. En hv. þm. A.-Húnv. vill ekki láta þetta koma fram í umr., og þarna er hinn mikli munur á þessum mönnum, annar þarf ekki karlmennsku til þess að segja frá hinu rétta, en hinn þarf karlmennsku til þess að breiða yfir það, sem hefur verið sagt. Það er það, sem hv. þm. A.-Húnv. hefur verið að reyna í þessu máli. Og hann endaði mál sitt með því að segja, að þetta væru aðeins framsóknarfullyrðingar. Slíkar fullyrðingar og upphrópanir heyrast aðeins frá þeim, sem komnir eru í algert rökþrot. Þegar þeir sjá, að ekki er lengur hægt að stagast á málefninu sjálfu, þá koma þeir með sérstök orðatiltæki, sem allir vita, að ekkert felst í.