04.12.1944
Efri deild: 81. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

119. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Ég ætla að þessu sinni ekki að vera langorður eða ræða þetta mál efnislega. Það var borið fram af fyrrverandi ríkisstj., eins og hv. þdm mun kunnugt.

Ég hef gert mér far um að setja mig inn í þetta mál, en það er ekki alls kostar greitt aðgöngu og mér er enn ekki fullkomlega ljóst, hvort þessi áburðarverksmiðja eigi rétt á sér. Eftir því áliti, sem hér liggur fyrir, verður ekki annað séð en að þetta sé allvafasamt fyrirtæki. Vitanlega borgar það sig ekki að reisa þessa verksmiðju, ef fyrirsjáanlegt er, að innlendur áburður verður miklu dýrari en útlendur, og þetta er það stórt fyrirtæki, að það getur orðið verulegur baggi, ef það ber sig ekki. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, virðist mér, að við því megi búast, að svo fari.

Annars virðist mér eðlilegt að fela þetta mál hinu nýstofnaða nýbyggingarráði. Ég ber þó ekki fram neina till. þess efnis að svo stöddu, en vænti að landbn. gefi mér tækifæri til að fylgjast með þessu máli.