31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (3172)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Gísli Jónsson:

Út af ræðu hv. 7. landsk., sem taldi vafa á því, að till., sem ég flyt á þskj. 966, væri flutt í alvöru, vil ég taka það fram, að það liggur full alvara á bak við till., og er hún byggð á þeim rökum, sem ég færði fram, þegar frv. um stofnun nýs dósentsembættis við Háskólann var hér á ferðinni. Því var margyfirlýst, að þetta væri gert til þess að tryggja Háskólanum ákveðinn mann og til þess að tryggja það, að þessi maður færi ekki í annað starf. Það var fyrst eftir að það var ugglaust, að verið var að stofna þetta embætti, að fram kemur um það ákveðið frv. í Nd. að losa Sigurð Nordal við kennslustörf, því að nú sé búið að tryggja Háskólanum nægilega kennslukrafta. Eftir að sú yfirlýsing er komin fram frá Sigurði Nordal, að hann, þrátt fyrir það að þessi l. verði samþ., muni láta Háskólann njóta kennslukrafta sinna, þá er því síður ástæða til að vera að bæta við einum manni. Enda er það viðurkennt af hv. 7. landsk., að öll þessi rök hafi ekki verið byggð á sannleiksgildi, heldur hafi þau verið færð fram til að kasta ryki í augu þm., og þá horfir málið öðruvísi við. Ef byggt hefði verið á því, sem sagt hefur verið hér, þá var það rökrétt hugsun, að þessi till. yrði samþ., en ef ekki er hægt að samþ. þessa till., þá hefur hv. frsm. annaðhvort farið með röng rök í málinu eða hann hefur ekki viljað trúa því, að þessir menn segðu það satt, að það væri eingöngu til að tryggja Háskólanum ákveðinn mann, að frv. kom fram. Ég vil benda á, að þetta eru rökin í málinu, og þess vegna er till. mín komin fram.