13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (3278)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Eins og kunnugt er, hefur styrkur til sjúkraskýla og sjúkrahúsa numið undanfarið 1/3 af kostnaði, en 2/3 hafa verið greiddir frá viðkomandi héruðum. Hér sé ég, að gengið er heldur lengra til móts við héruðin en áður hefur verið; tel ég þetta sanngjarnt og eðlilegt, enda þótt ekki sé eins langt gengið og margir hefðu á kosið. Þetta er, sem sagt, til töluverðra bóta frá því, sem verið hefur, því að okkur, sem þekkjum þessi mál, er vel kunnugt um, að það hefur verið miklum erfiðleikum bundið fyrir hin einstöku héruð að koma upp og standa undir 2/3 kostnaðarins, sem verið hefur af að reisa sjúkrahús og sjúkraskýli, og eins er það kunnugt, að það er óhjákvæmilegt nú til dags fyrir hin einstöku læknishéruð að hafa til staðar sjúkraskýli og fullkominn læknisbústað, því að ella er útilokað fyrir héruðin að fá nokkurn lækni til þess að gegna læknisstörfum í þeim.

Eins og kunnugt er, hefur að undanförnu verið byggt allmikið af slíkum læknisskýlum og ríkissjóður hlaupið undir bagga með viðkomandi héruðum, sumpart með viðbótarfjárgreiðslum eða með því að greiða vexti af lánum, sem héruðin hafa orðið að taka vegna þessara framkvæmda. Nú stendur svo á, að síðan 1942 hafa verið byggð nokkur sjúkraskýli úti í byggðum landsins, og eru hér sérstaklega tvö sjúkraskýli, sem ég vil minnast á, annað í Rangárvallasýslu, en hitt í S.-Þingeyjarsýslu. Árið 1942 var áformað að byggja þessi hús, sem áttu að vera af svipaðri stærð og gæðum, og var byggingarkostnaður áætlaður rúmlega 100 þús. kr., og samþykktu viðkomandi héruð á þessu ári að hefja framkvæmdir í þessum efnum. Nú er byggingu á þessum sjúkraskýlum mikið til lokið, en kostnaður hefur farið svo langt fram úr áætlun, að hann er meira en helmingi hærri frá því, sem gert var ráð fyrir í kostnaðaráætluninni, og eins og gefur að skilja, er það því mjög þungur baggi fyrir viðkomandi héruð að standa undir þeim aukna kostnaði, sem af þessu hefur orðið. Ég sé, að á þskj. 657 í 1. gr. stendur:

„Ríkissjóður greiðir sveitar- (bæjar-, sýslu-) félögum allt að tveim fimmtu kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði, sem reistir verða samkvæmt ákvæðum laga þessara ...“

Þess vegna vil ég spyrja frsm. heilbr.- og félmn. að því, hvort ekki væri hægt að láta l. ná þannig aftur fyrir sig, að þau verki einnig til þeirra sjúkraskýla og læknisbústaða, sem hafa verið reist síðan 1942. Ég vil leyfa mér að mælast til þess, að n. taki það til athugunar, hvort hún sjái sér ekki fært að gera þær breyt. á frv., sem hér er farið fram á. Það getur ekki verið um mikið aukinn bagga fyrir ríkissjóð að ræða, þar sem ekki er um að ræða meira en 2–3 hús, sem þannig er ástatt um. — Mér er kunnugt um það, að 4 menn í fjvn. voru ákveðnir í því að bera fram till. um það, að ríkissjóður greiddi helming fjárframlaga til læknisbústaða og sjúkraskýla, en við vissum um, að heilbr.- og félmn. var með þetta mál, og vildum þess vegna biða átekta og sjá, hvað frá n. kæmi í þessum efnum. Ég vil þó vænta þess, að n. sjái sér fært að verða við þessum tilmælum mínum, þannig að l. nái að verka til þeirra læknisbústaða og sjúkraskýla, sem hafa verið reist síðan 1942.