28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3370)

45. mál, dýralæknar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Eins og tekið er fram á þskj. 61, er frv. þetta borið fram samkv. áskorun frá Búnaðarfélagi Vestmannaeyja. Það kann að þykja ofdirfska að óska eftir sérstökum dýralækni í Vestmannaeyjar, en fyrir því liggja skiljanlegar ástæður. Sérstaklega hafa veikindi í kúm verið mikil síðustu árin, en orsakir til þeirra veikinda eru ókunnar.

Það er augljóst, að umdæmið er lítið samanborið við önnur dýralæknisumdæmi landsins, en þess er að gæta, að vegna samgönguörðugleika hafa Vestmannaeyingar sérstöðu. Ætlazt er til, að dýralæknirinn á Selfossi gegni störfum í Vestmannaeyjum, en af skiljanlegum ástæðum er lítið gagn að því. Hins vegar hefur verið notazt við leikmenn, kunnáttumenn, en það er auðvitað, að þótt þeir geri oft mikið gagn, megna þeir ekki að eiga við það, sem erfiðara er.

Af þessum ástæðum leyfi ég mér að bera upp frv. og vona, að því verði að lokinni umr. vísað til landbn.