28.02.1944
Neðri deild: 21. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég hef undirskrifað þetta nál. án sérstaks fyrirvara. Hitt er vitað, að tveir hv. nm. hafa látið þess getið í nál. og a.m.k. annar í ræðu, að þeir álíti, að þennan stuðning til skipasmíða, sem hér um ræðir, eigi að veita sem styrki, en eigi lán. Svo hefur einn hv. nm. sjútvn. flutt víðtækar brtt., sem eru nú eiginlega nýtt frv. í sjálfu sér, og hefur meiri hl. n., eins og kunnugt er, ekki getað fallizt á þær brtt. og telur réttast að samþ. frv. eins og það er. Þó vil ég segja það — og tek þar undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði, — að vel má vera, að ýmislegt þurfi enn um að bæta í frv., sem meiri hl. hefur hingað til ekki fest sig svo mjög við, og að réttast sé, að afskipta og áhrifa Fiskifélagsins gæti þar meira en við höfum gert ráð fyrir. Ég vildi gjarnan vera með í því, ef tími væri til á milli umr., að athuga það með öðrum hv. nm. eða þm.

Ég skal svo segja það, að náttúrlega er ákaflega mikið vandaverk að kveða svo á um þetta fé, sem hér á að taka til að verja til stuðnings nýbyggingum og nýkaupum á skipum, svo að allir séu ánægðir með þær reglur, sem settar verða, — að ég nú ekki tali um framkvæmdina á þeim reglum, þegar fram í sækir. En ég er miklu nær skoðun hv. minni hl. n., hvað snertir „prinsipið“ í þessu máli um lán eða styrki, heldur en skoðun meiri hl., þó að ég að öðru leyti geti ekki skrifað undir hinar mörgu brtt. minni hl. n. Það væri sjálfsagt hægt að deila um það lengi og eyða um það mörgum orðum frá báðum hliðum. En ég er þeirrar skoðunar, að þessi stuðningur, sem hér á að veita, ætti frekar að vera í lánaformi. Mér finnst það viðkunnanlegra og í sjálfu sér réttlátara gagnvart hlutaðeigendum, og enn fremur eykur það ábyrgðartilfinningu þeirra, er hljóta, að það sé í lánaformi en beint framlag eða styrkur.

Hv. þm. V.-Húnv. lét hér uppi álit sitt lauslega um þessi mál, eins og eðlilegt er, og minntist á frumdrætti í stuðningi við nýbyggingu fiskiskipa. Ég er honum sammála um, að það sé oft — og oftast kannske — heppilegt, að útgerðin sé sameign eða þannig til hennar stofnað, að þeir, sem við hana fást, eigi þar hlut í. En hinu er tæplega hægt að neita, að á mörgum stöðum á landinu hefur þróunin samt sem áður ekki farið í þessa átt nú síðustu árin, og kunna til þess margar orsakir að vera. Og svo er það líka, þegar talað er um þróun í slíkum málum yfirleitt, að það sama á ekki við í hvaða veiðistöð, sem er. En að þróunin í stórum veiðistöðvum hefur viða orðið á annan veg en þann, sem hv. þm. V.-Húnv. taldi, að verða mundi heppilegur, að sameign og samvinna sjómanna væri á útgerðinni, það kann að orsakast af — og er í sjálfu sér nokkuð eðlileg afleiðing af — tilflutningi á vinnukrafti við útgerðina. Það er orðið algengt — og er raunar ekki neitt nýtt fyrirbrigði heldur —, að sjómenn t.d. af Norðurlandi og frá Austfjörðum og Vesturlandi ráða sig á báta á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum til fiskveiða vissan tíma ársins og þá einkum á vetrarvertíð, og sami hópurinn fer svo á skip norðanlands, ýmist til fiskveiða eða síldveiða, aðra tíma ársins. Og fyrir þennan hóp manna verður það náttúrlega dálítið örðugt að vera við félagsútgerð, einkum sameignarútgerð, þó að það kúnni að vera kleift í einstökum tilfellum, að þeir eigi sjálfir hluti í útgerðinni. En hugsun margra er nú samt orðin sú, að þeir vilja frekar ráða sig sem hlutarmenn — og þá sérstaklega, ef þeir geta fengið tryggingu fyrir vissu lágmarki kaups, eins og bólað hefur á. Það er í alla staði lofsvert, að ríkisvaldið stuðli að góðri afkomu þegnanna í þessu efni eins og öðrum.

Ég veit, að þegar hv. þm. V.-Húnv. bollaleggur um þessi mál, þá vitaskuld vill hann báðum aðilum allt hið bezta. En álit hans á því, að heppilegt mundi vera, að ríkið ætti báta og leigði þá út, get ég ekki fallizt á. Ég held, að það yrði ákaflega misbrestasamt í framkvæmd, því að það er nú fleira en skrokkarnir á bátunum, sem þarf að hafa í ferðina. Það eru ótal hlutir, sem fylgja hverju fari og fleytu. Og mér. er sem ég sjái þær Hálfdánarheimtur, sem yrðu á farviði og öðru slíku á skipum, sem væru í opinberri eign og leigð einum hópi manna í dag og öðrum á morgun, eins og verkast vildi. Ég held, því miður, að slíkt fyrirkomulag yrði ekki heppilegt. Ég vil eins og hv. þm. V.-Húnv., að þessi skoðun komi fram. Og úr því að þessi skoðun kemur fram, vil ég gjarnan láta uppi álit mitt um það, að hér er brotið upp á fyrirkomulagi, sem að mínum dómi er ákaflega erfitt í framkvæmd, þannig að báðir gætu við unað, og á ég þá ekki síður við þann aðilann, sem væri eigandinn, hið opinbera, undir þeim kringumstæðum. Það mundi sennilega ekki skorta á, ef ríkið leigði þannig út skip, sem það ætti, og menn slægju sér saman um að taka þau á leigu fyrir eina vertíð, að þeir gerðu kröfur um það, sem þyrfti að fylgja skipunum. Og það er ærið margt, sem á að fylgja skipum, og þarf mikla aðgætni til þess að halda því öllu vel við. Og það er líka, þegar allt kemur til alls, líklega höfuðkosturinn við einkaeign á þessum skipum og einkarekstur á þeim, að við það færist ábyrgðin um viðhaldið á þeim hlutum, sem skipunum þurfa að fylgja, yfir á herðar eins manns . eða kannske eins félags, oftast eins manns. Og ef það, að ábyrgðin á þessu sé á sem fæstum stöðum, er ekki driffjöðrin í því, að sómasamlega sé að öllum útbúnaði skipanna staðið og allrar sparneytni gætt og reynt að halda öllu til haga, sem fylgja ber skipunum, og að hafa þau í brúklegu standi frá ári til árs, þá verður þetta ekki frekar í lagi, ef ábyrgðin á þessu er mjög dreifð. Og í því falli, að hið opinbera ætti slík skip eða báta og leigði út Pétri og Páli, þá mætti segja, að ábyrgðin á þessum skipum væri að mestu horfin úr sögunni.

Ég geri ráð fyrir, að í þessu frv. sé, þótt það hafi sætt dálítilli athugun í sjútvn. þessarar hv. d., ýmislegt, sem enn þurfi að athuga, og er gott til þess að vita, að það á eftir að ganga gegnum aðra þd. og annan hreinsunareld, þegar það fer hér úr hv. d. En viðvíkjandi þessari. meginreglu um styrki eða lán þá vildi ég, áður en málið fer til atkvæða, aðeins láta uppi skoðun mína, eins og ég hef nú gert.