01.03.1944
Efri deild: 19. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

40. mál, nýbygging fiskiskipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Í 22. gr. fjárl. fyrir þetta ár er stj. veitt heimild til að verja úr framkvæmdasjóði allt að 5 millj. kr. til að styrkja smíði fiskiskipa samkv. frv., sem þ. samþ. þar um. Samkv. þessari heimild fjárl. er það, að stj. hefur lagt fram frv. það, sem hér er til 1. umr. í dag.

Áður en þetta frv. var lagt fyrir Nd., hafði stj. haft samráð við mþn. í sjávarútvegsmálum um þessar reglur og fengið frá n. tvö álit, því að n. klofnaði. Meiri hl. lagði til, að fénu yrði varið fyrst og fremst sem styrkjum, en ef til vill að nokkru leyti til lána, en minni hl. lagði á móti, að nokkru af fénu væri varið til styrkja, heldur eingöngu til lána. Stj. hefur valið þá leið að leggja til með þessu frv., að báðar leiðirnar verði opnar, og er gert ráð fyrir, að verja megi þessu fé til að styrkja menn til að koma sér upp nýjum fiskiskipum, annaðhvort með beinum styrkjum eða lánum. Tel ég fyrir mitt leyti heppilegt, að báðar leiðirnar séu opnar, vegna þess að um svo misjafna aðstöðu er að ræða.

Ég geri ráð fyrir, að samið verði um smíði allmargra fiskiskipa í Svíþjóð, og eftir því, sem nú liggur fyrir, er sennilegt, að verð þeirra verði svo hagkvæmt samanborið við það verð, sem nú er á skipasmíðum hér á landi og í Vesturheimi, að vart sé ástæða til að gera ráð fyrir, að verja þurfi þessu fé sem beinum styrkjum til að kaupa þar skip. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir, að hægt verði, a.m.k. ekki að þessu sinni, að hugsa til samninga um smíði lítilla skipa eða báta af stærðinni 10–30 tonn í Svíþjóð. Þá verður að smíða hér á landi og verða þá hlutfallslega dýrari en þau skip, sem ráðgert er að smíða erlendis. Af þessum ástæðum tel ég æskilegt, að báðar leiðirnar standi opnar, svo að veita megi lán, þar sem ekki virðist þörf á styrk, en styrkja hina, er erfiðari aðstöðuna hafa.

Frv. hefur verið breytt smávægilega í Nd., og eru þær breyt. flestar þess eðlis, að ég tel, að frv. hafi við það batnað, og því engin ástæða fyrir mig að mæla með frekari breyt. á frv: Ég leyfi mér því að mæla með því við hv. d., að hún geti fallizt á frv. með sem minnstum breyt. Sérstaklega vil ég beina því til hv. d., að mikil þörf er á, að þetta mál hljóti afgreiðslu, áður en þingstörfum lýkur að þessu sinni.

Ég legg til, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr., og vænti þess með tilvísun til þess, sem ég hef áður sagt, að n. geti orðið fljót að afgreiða málið frá sér til hv. d. aftur.