02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (3727)

155. mál, nýbyggingarsjóður útvegsmanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Ég undrast mjög fjandskap hv. síðasta ræðumanns (BBen) gegn þessu frv. Hann þorir ekki að tala hreint út vegna hræðslu við útgerðarmenn. Hv. 6. þm. Reykv. á mikið undir útgerðinni vegna bæjarsjóðs með tekjuöflun í framtíðinni. Hann hefur þegar verið með í að greiða þrjá sjóði frá togarafélögunum, sem lent hafa í eyðslufé.

Hann vill vísa frv. frá með rökstuddri dagskrá og drepa það.

Ég skal nú snúa mér að rökum hans. Hann sagði, að ekki væru allir færir um að semja frv. En sum frv. hv. 6. þm. Reykv. ganga svo á rétt þegnanna, að furðu gegnir, þótt samþykkt hafi verið. Einna kunnust eru útsvarsl. Þótt þau kæmust fram, var það hvorki honum né þinginu til sóma.

Hann þykist ekki koma auga á nein ráð til að bæta úr þeim göllum, sem honum finnst vera í þessu frv. En hann er á móti því og leitast ekki við að koma með ráð til úrbóta. Hann staðfestir, að það sé höfuðtakmarkið, að sjóðunum sé ekki eytt, en segir, að það höfuðatriði náist ekki.

Hv. 6. þm. Reykv. virðist oftast gleyma útgerðinni, nema þegar hann þarf að seilast ofan í vasa útgerðarmanna eftir peningum.

Hann segir, að auðvelt sé að fara kringum l. Mér er ómögulegt að skilja það, þegar búið er að slá því föstu með lögum, til hvers eigi að verja fénu. Þegar sýnt er, að eigi að verja því til einhvers annars, til dæmis vegagerðar eða brúagerðar, er hægt með aðstoð l. að koma í veg fyrir það. Þetta er því mjög undarlegt af þessum manni, fyrrv. prófessor í lögum, núv. alþm., lögfræðingi og borgarstjóra. Hér er ekki um að ræða rök frá hendi hv. 6. þm. Reykv. Hann veit vel, að hér er ekki hægt að verja neinu fé úr sjóðnum nema eftir framsali þeirra bréfa, sem gefin eru út. Umráðaréttur hins opinbera verður enginn fram yfir það, sem hann er í dag. Hér er því um blekkingar að ræða.

Ég vil láta þess getið, að ekki er ætlazt til, að menn taki fé út úr sjóðnum án þess að borga skatta, og það eru til hundrað þúsund leiðir til að taka féð út. Nú eru til margir smásjóðir, sem eru allt of litlir til þess að hægt sé að nota þá til að byggja skip fyrir þá. Það er vitanlegt, að þar liggja ýmsar upphæðir, sem eru komnar inn fyrir fríðindi skattal., og verður gert mikið til að ná þeim út aftur. Það er sýnt, að til þess eru margar leiðir.

Það er heppilegt fyrir hv. 6. þm. Reykv. að geta kreist eitthvað út úr útvegsmönnum, en til þess að það sé hægt, held ég, að þeir þurfi að hafa eitthvað handa á milli.

Ég get rætt um það við n., hvort hún vill taka það til athugunar sérstaklega, að menn taki ekki út fé án þess að tryggt sé, að það verði notað á þann hátt, sem til er ætlazt. En það er tvímælalaust, að setja verður sterk ákvæði til þess að ekki verði hægt að eyða sjóðnum.

Hér er um að ræða sjóð, sem alltaf getur tekið við fé, sem menn vilja leggja í hann, sjóð, sem nota á til nýbygginga fyrir sjávarútveginn, og virðist augljóst mál, hversu hann er nauðsynlegur. En það er ekkert annað en blekkingar að blanda þessu frv. saman við skattalögin.

Það er því einkennilegt, þegar þessi hv. þm., sem þarf svo mjög á þessum atvinnuvegi að halda, svo að það fyrirtæki, sem hann ræður yfir, geti lifað, kemur svona fram gagnvart honum.

Hann minntist á, hvernig ætti að skipta fénu frá sameiginlegum rekstri. Ég tel, að það sé reglugerðarákvæði, en ég er hins vegar tilbúinn til þess, ef það þykir réttara, að það sé fram tekið í l., en l. um stríðsslysatryggingu fóru á sínum tíma ekki eins nákvæmlega út í öll atriði eins og þessum l. er ætlað að gera. Síðan var samin reglugerð, sem var síðan breytt eins og þurfa þótti, og þau atriði, sem þar þurftu að standa um alla tíma, voru síðar sett inn í l. Það er mjög auðvelt að skipta gróðanum. Ef eitt og sama félag hefur t. d. síldarverksmiðju og togaraútgerð, þá sést vitanlega af reikningum fyrirtækisins, hvað hvort um sig græðir, og eins þó að það ræki líka smábátaútveg. Já, þó að það ræki Korpúlfsstaðabú eða annað svipað fyrirtæki, þá sést vitanlega á reikningunum, hvort þar er gróði eða tap og þá hvað mikið, og eftir því færi vitanlega skiptingin fram. Þetta sýnir, hversu frámunalega lítið hann hefur hugsað um þetta mál, því að þetta er fram tekið í l., og ég veit, að hann er ekki svo grunnhygginn, að hann viti ekki, að þetta er ákaflega auðvelt að gera.

Hann segir einnig, að það verði að selja þessi verðbréf strax, ef frv. nái fram að ganga. Ég álít, að þess þurfi ekki. Ef frv. er lesið, þá stendur þar, að útgerðarmenn megi sjálfir ráða, í hvaða mynt þeir greiða þetta inn. Þeir, sem þegar hafa greitt fé í sjóðinn í verðbréfum, eiga heimtingu á því, að það sé látið standa í verðbréfum þar til það er greitt upp, og það hefur engin áhrif á, hvernig sjóðurinn er ávaxtaður. Þeir ráða alveg yfir þessu fé, og ef þeir vilja heldur leggja í trygg verðbréf, þá verður það tekið gilt. Þeir taka þá á sig þá hættu, að þegar þarf að innleysa þau, þá sé það ekki hægt nema að veðbinda þau í banka og að þeir þurfi að bera vaxtabyrðina. Þetta eru því engin rök á móti frv.

Þá minntist hann á það atriði, þegar farið væri að verja fé úr sjóðnum. Ég skal viðurkenna, að það atriði mætti orða betur. Hitt er alveg fjarstæða, eins og ég tók fram í frumræðu minni, að sjóðsstjórnin geti varið fé úr sjóðnum á annan hátt en gegn bréfum, sem er framvísað, því að hún hefur ekkert fé til umráða nema þessa vexti, sem hún er skyldug að láta á reikning viðkomandi manna og síðan gefa út fyrir það bréf, þegar upphæð þess er orðin 1000 kr. Grundvallarskilyrðið fyrir, að hún geti hreyft fé úr sjóðnum, er það, að menn, sem eiga bréf, komi og vilji fá þau innleyst, og þá má ekki innleysa þau nema eftir ákvæðum 5. gr. Það þarf enginn að láta sér detta í hug, að n. geti valsað og galsað með þetta fé eins og henni sýnist, það er alveg fráleitt.

Þá talaði hann um það vald, sem stjórnin hefði um að flytja milli flokka eða að kaupa nýleg skip. Hann taldi réttara, að eigendurnir ættu sjálfir að ráða um það. Því eigum við að koma til stj. og segja: Nú vil ég fá innleyst 4–500 þús. kr. til að byggja nýtt skip, — og þá hefur sjóðsstjórnin enga heimild til að banna það, nema hún sé sammála um, að eðlilegra sé, að það sé veitt í eitthv að annað. Eins og ég tók fram, þá getur hún ef til vill stöðvað slíka greiðslu, en það mundi hún ekki gera, nema brýna nauðsyn bæri til. Ef komið væri til hennar og sagt: Ég get fengið keypt nýtt skip í dag og vil fá útleyst fé til þess, - þá mundi stjórnin tæplega leyfa sér að segja: Nei, þú færð það ekki, því að það á að byggja skipin. Þetta getur verið undir vissum kringumstæðum á valdi sjóðsstjórnarinnar, en oftast er það á valdi mannanna, sem eiga féð.

Ég sé ekki, að hægt sé að komast yfir þessa örðugleika nema með því að skipta alveg um þá steingervinga, sem sitja í þessari n., og fá menn, sem treystandi er til þess a.ð hafa með þessi mál að gera og vita, hvað þjóðinni er fyrir illu eða góðu. Er það vel farið, að það ákvæði hefur ekki verið í frv., að þessir menn skyldu sitja þar í næstu þrjú ár, og það ætti að vera markmiðið, að í þessari stjórn væru ekki menn, sem væru fullkomlega fjandsamlegir hugmyndinni.

Hv. þm. minntist á, að nú væri búið að byggja tvo smábáta fyrir fé, sem komið væri frá togurunum. Það er rétt, en þetta vill n. stöðva. Hún vill ekki, að skip eins og Garðar, sem var ekki einu sinni bezta skip í togaraflotanum íslenzka, heldur kannske bezta skip svo að segja í öllum heimi á síðari tímum, — n. vill ekki, að í staðinn fyrir hann komi smámótorbátar bara af því, að það gæti í svipinn talizt hagfellt fyrir viðkomandi útgerðarmann. Það verður að líta á þetta frá þjóðhagslegu sjónarmiði alveg eins og það er rétt að víta það, að menn selji gáð skip úr landi og kaupi svolitla mótorkollu í staðinn. Þetta er alveg hliðstætt, og þeir, sem hafa gagnstæða skoðun við þetta, ættu ekki að fá það vald að vera formenn í slíkri stjórn eða n. Ég tel því nauðsynlegt, að gerðar séu breyt. og það sem allra fyrst, sem fyrirbyggi, að þannig sé hægt að fara með þetta fé.

Hann segir, að keppikeflið sé, að skip fæði af sér skip. Þetta er rétt, en þetta er það, sem hér er verið að gera. Það er, að skip fæði af sér skip, þegar því fé, sem kemur frá útgerðinni, má ekki verja nema til að byggja skip. En það er ekki, að skip fæði af sér skip, þegar 30 millj. kr. eru teknar frá skipunum til eyðslueyris fyrir þjóðina, eins og nú hefur verið gert.

Hann segir, að l. safni aðeins fé á hendur mönnum, sem ætli sér hvort sem væri að byggja. Hverjir ætla sér að byggja? Það eru fyrst og fremst þeir, sem hafa lagt mest fé í sjóðinn. En með þessu safnast saman fé frá þeim, sem leggja fram 10–15 þús., á eina hönd til að byggja fyrir. Og hverjir eiga þetta fé? Það eru útgerðarmenn, sem hann segir, að muni geta það og gera að selja skipin og taka þannig fé út úr rekstrinum, og á sama tíma heldur hann því fram, að það séu þessir menn, sem ætli sér að byggja. Sannleikurinn er sá, að þessir menn, sem eiga féð nú, hafa sett metnað sinn í að eiga stórar fúlgur, og það er af því, að þeir hafa metnað og vilja til að byggja. Það er fráleit hugmynd, að nokkur maður, sem ætlar sér ekki að byggja, fari að kaupa þessi bréf, þegar hann veit, að hann fær enga vexti af fénu, nema það sé bundið. Hvaða manntegund væri það, sem léti sér detta í hug að kaupa bréf fyrir milljónir, sem hann fengi svo enga vexti af? Mér dettur ekki í hug, að slíkir menn fyrirfinnist. Hitt getur vel verið, að þeir menn finnist, sem vilja selja þessar eignir, og þá fara þær í hendurnar á mönnum, sem ætlast til, að skip komi fyrir skip í landinu. Það eru ekki nema einstakir menn, sem þannig geta fengið féð skattfrjálst út úr sjóðnum með því að selja þessi bréf, en þá mætti búast við því, að þeir yrðu þá að einhverju leyti að selja þessi bréf með afföllum, til þess að einhver annar vildi taka á sig þær sömu skuldbindingar, sem þeir höfðu, meðan þeir voru eigendur fjárins, og sé ég ekkert á móti því.

Ég vil í því sambandi biðja hv. þm. að líta aftur til erfiðu tímanna, því að þeir koma áreiðanlega aftur á Íslandi. Hér er gert ráð fyrir, að menn megi sjálfir ráða því innan þeirra takmarkana, sem gjaldeyrisl. ákveða, í hvaða mynt þeir greiða inn. Ég hygg, að nú séu ekki erfiðleikar á að fá greitt í sterlingspundum. Skyldi ekki margur útgerðarmaðurinn hafa orðið feginn á árunum 1933–1939 að mega eiga fé, stórar fúlgur, í tryggri erlendri mynt, sem ekki væri leyfilegt að taka undir almenna gjaldeyrisverzlun? Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefur gert sér ljóst, hversu mikið hann er að stríða á móti hagsmunum Reykjavíkurbæjar, þegar hann er að berjast á móti framgangi þessa frv., svo að hægt sé að skapa þessa möguleika aftur. Ég veit ekki, hvaða óhamingju hann hefur leiðzt út í, þegar hann er farinn að stríða á móti þessu frv., sem allur almenningur óskar eftir, að nái fram að ganga vegna öryggis þjóðarinnar, atvinnurekendanna og alls almennings. Ég veit ekki, hvaða ógæfa steðjar að honum, að hann skuli mæla á móti frv., þvert ofan í vilja þessara manna, sem nú skófla fé inn í sjóðinn. En ég vona, að það megi verða hugarfarsbreyt. hjá hv. þm. og honum auðnist að iðrast synda sinna og bæti fyrir þessa villu með því að snúast til fylgis við málið jafnákveðið og hann er nú á móti því.